Dragbítur framfara

Stjórnmálaflokkur með vitlausa og/eða sérvizkulega stefnu í flestum málum séð af sjónarhóli almannahagsmuna, sem komizt hefur til valda, getur valdið viðkomandi þjóð stórtjóni, eins og dæmin sanna.  Einn slíkur er Vinstri hreyfingin grænt framboð - VG.  Hann hélt flokksráðsfund helgina 26.-27. ágúst 2023, og Sjálfstæðisflokkurinn fyrri daginn.  Hjá honum var eftirfarandi ályktað um orkumálin samkkvæmt frétt Morgunblaðsins, 28.08.2023, undir svartri fyrirsögn:

"Flokkarnir á öndverðum meiði".

"Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins var ályktað, að "tafarlaust" þyrfti að stórauka framleiðslu grænnar orku [svo ! Átt er við rafmagn úr grænni frumorku - innsk. BJo] - loftslaginu, samfélaginu og atvinnulífinu til hagsbóta."

Á þessu er margoft búið að klifa, enda augljós almenn sannindi, en samt láta framkvæmdir, sem gert gætu gæfumuninn, á sér standa, og er meðferðin á virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun sárgrætilegust. Til að rjúfa kyrrstöðuna hefur nú orkufélagaið Títan verið stofnað um orkulindir Ölfuss.  Allt slíkt er fagnaðarefni.

Á meðan þessi óstjórn orkumálanna varir, vofir orkuskortur yfir iðnaði og öðrum notendum ótryggðrar orku, og eru framleiðsluáætlanir og fjárhagsafkoma þessara fyrirtækja háð góðum vatnsárum en ekki miðlungsgóðum, eins og löngum hefur verið. Þá veldur aflskortur því, að ekki er hægt að gera neina nýja samninga um raforkusölu. Þetta dregur úr hagvexti og er ein af ástæðum dræmra hagvaxtarhorfa á næstu árum, sem takmarkar mjög svigrúm fyrirtækjanna til að samþykkja launahækkanir í næstu kjarasamningum, sem innistæða er fyrir og fóðri þar með ekki verðbólguna. 

"Þetta er í raun þvert á það, sem flokksráðsfundur VG ályktaði um. Þar var ályktað, að koma þyrfti í veg fyrir svo kallaða orkusóun.  Flokksráðið vísar þar til rafmyntagraftrar, og að stjórnvöld þurfi að meta orkuþörf landsins áður en ráðizt er í frekari virkjanaframkvæmdir með "tilheyrandi og meiri háttar óafturkræfum skemmdum á einstakri náttúru landsins".

Í sömu ályktun er einnig lagt til, að við lok samningstíma orkusölusamninga til stórnotenda, stóriðju eins og álvera, verði kannaðir kostir þess að endurnýja ekki samninga við þau fyrirtæki.  Flokksráð segir, að sú orka geti frekar verið notuð við orkuskipti og til heimila."

Þessar gömlu lummur vinstri grænna eru endurómur  fráleitrar afturhaldshugmyndafræði Landverndar.  Ekki er hægt að hugsa sér augljósara dæmi um, hversu sumt stjórnmálafólk er gjörsamlega án sambands við raunveruleikann og lifir í sínum eigin hliðarveruleika.  Stjórnmálaflokkar slíks fólks eru gjörsamlega gagnslausir, gera ekkert annað en að þvælast fyrir framförum og rífa niður, það sem vel er gert og til framfara horfir. Þetta fólk var sumt á móti Búrfellsvirkjun á sinni tíð eða er af sama sauðahúsi og þeir, sem þar voru þversum. 

Það er ábyrgðarhluti af hálfu stjórnarflokks að varpa fram svo illa ígrunduðum tillögum, sem bera vott um yfirþyrmandi þröngsýni og mundu skaða hagsmuni almennings, ef eftir þeim væri farið.

Íslenzku orkufyrirtækin hafa sum hver sótzt eftir að fá gagnaver í viðskipti.  Nú vilja vinstri grænir fara að fylgjast með því, hvernig gagnaverin nota orkuna, sem þau kaupa.  Það er barnaleg og fráleit afstaða.  Seljanda orkunnar varðar aðeins um, að notkunin sé lögmæt, annað ekki. Í samhengi orkuskortsins er þessi notkun lítil og fráleitt að tala um orkusóun í þessu sambandi.  Meiri orkusóun fór fram á flokksráðsfundi vinstri grænna, því að þar fór greinilega ekkert það fram, sem nokkur heilvita maður mundi vilja kaupa. 

Þá kom alveg dæmigerður tafarleikur frá vinstri grænum.  Þeir vilja, að nú geri stjórnvöld skýrslu um orkuþörf landsins.  Það jafngildir að fara í geitarhús að leita ullar, því að stjórnvöld hafa ekki þá þekkingu, sem til þarf.  Sérfræðingar um orkumál hafa skrifað skýrslur um þessi mál, og nú síðast kom skýrsla frá ríkisfyrirtækinu Landsneti, sem engin ástæða er til að bera brigður á, þótt vinstri grænn formaður utanríkismálanefndar hafi gert það og vilji fá líffræðinga að verkinu með verkfræðingunum.  Af hverju ekki dýralækna eða stjórnmálafræðinga ?  Tekur bullið, sem rennur upp úr vinstri grænum, aldrei enda ?  Það, sem hangir á spýtunni hjá siðspilltum vinstri grænum, er að koma sínu úrtölufólki að við að semja nýja skýrslu um málið með sínum hliðarveruleika.

Landsnet komst að því, að með aukningu raforkuþarfar vegna hagvaxtar og fólksfjölgunar ásamt fullum orkuskiptum þyrfti að tvöfalda raforkunotkunina til 2050 og fyrr næðist nettó koltvíildislosun ekki niður í 0 frá íslenzkri starfsemi, hvað sem innantómu gaspri stjórnmálamanna um 2040 liði.  Montstefnumið vinstri grænna o.fl. voru með öðrum orðum jörðuð þarna. M.a. út af því sífra þau núna, en það hlaut að koma að því, að draumórar hliðarveruleikans yrðu jarðaðir. 

Fullyrðingavaðall um óafturkræfar, meiri háttar skemmdir á náttúru landsins af völdum virkjana eiga sér enga stoð í raunheimum, en eru ættaðar úr sjúklegu hugskoti í hliðarveruleika vinstri grænna.  Af svipuðum slóðum er sífrið um að loka álverum.  Þessi málflutningur er eitt af því ábyrgðarlausasta í íslenzkri orkumálaumræðu.  Þarna er verið að biðja um að kanna kosti þess að svipta þúsundir manna lífsviðurværi sínu og skera á útflutningstekjur landsins með þeim afleiðingum, að ISK mundi hríðfalla um leið og snaraðist á meri viðskiptajafnaðarins og tekjustofna viðkomandi sveitarfélaga og ríkissjóðs.  Er til of mikils mælzt, að þeir sósíalistar og jafnaðarmenn, sem svona eru innréttaðir, þegi fremur og haldi sínum viðbjóðshugmyndum hjá sér ?  Hvaða erindi á fíflagangur af þessu tagi inn í þjóðmálaumræðuna ?

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband