Óbrúklegur ráðherra

Haft er eftir Jóni Gunnarssyni, Alþingismanni, að vinstri grænir hafi heimtað, að hann yrði settur af  sem dómsmálaráðherra.  Það er með ólíkindum, því að frá myndun ríkisstjórnarinnar var ljóst, að hann mundi hafa sætaskipti við  fyrsta þingmann Suðurlands, en sagan varpar ljósi á yfirganginn í þessu flokksskrípi, sem vonandi dettur út af Alþingi í næstu þingkosningum.  Sagan minnir á lætin í vinstri grænum út af Sigríði Andersen, sem kunni til verka.  Bæði unnu þau Sigríður og Jón landsmönnum gagn í ráðherraembætti, en hið sama verður ekki sagt um hina vinstri grænu Svandísi Svavarsdóttur, sem fremur hvert axarskaptið öðru verra í ráðherraembætti og á það fyllilega skilið að fá á sig vantrauststillögu á haustþinginu. 

Nú hefur hún heimilað hvalveiðar f.o.m. 01.09.2023, og þá kom í ljós, að hvalveiðibann hennar yfir bezta tíma sumarsins var alger óþarfi, því að leyfishafinn var tilbúinn í vor með þær úrbætur, sem farið var fram á í reglugerð 31.08.2023.  Þetta fullyrðir formaður verkalýðsfélags Akraness, sem er málið skylt vegna um 100 starfsmanna í hvalnum, sem eru skjólstæðingar hans. Hvað á svona fíflagangur ráðherra að þýða ? 

Hann hefur valdið stórtjóni, bæði fyrirtækinu og starfsmönnum þess, sem ráðið höfðu sig á þessa vertíð, en þeir, sem vildu, voru reyndar á launaskrá fyrirtækisins í allt sumar.  Fíflagangur ráðherrans var ólögmætur og hefur bakað ríkissjóði talsverða skaðabótaskyldu.  Ráðherrann neitar að horfast í augu við mistök sín og er svo forstokkuð, að hún fullyrti á Egilsstöðum 31. ágúst 2023, að ráðstafanir hennar í þessu máli væru lögmætar, hún hefði viðhaft góða stjórnsýslu og verk hennar væru fagleg. Þetta er alger öfugmælavísa, og Umboðsmaður Alþingis mun væntanlega taka undir það.  Alþingi getur ekki liðið aðra eins valdníðslu ráðherra og þessa, og þess vegna er nauðsynlegt, að þar verði lögð fram vantrauststillaga af þessu tilefni. 

Nú hefur téð Svandís enn traðkað í salatinu og boðað tillögur um sjávarútveginn, sem eru ekki reistar á tillögu starfshópa, sem hún skipaði með ærnum tilkostnaði sér til ráðgjafar um málefni sjávarútvegs.  Hún skrökvar því, að í fjárlagaáætlun hafi verið reiknað með hækkun skattheimtu ríkisins af sjávarútveginum.  Þar var nefnilega vísað til ofangreindrar vinnu starfshópanna, en þeir lögðu enga breytingu til að þessu leyti. Þá er í skýrslu þeirra varað við s.k. uppboðsleið, en ráðherrann vill bjóða upp byggðakvótann.  Það er bókstaflega ekki heil brú í þessum ráðherra. 

Morgunblaðið gerði áform ráðherrans í sjávarútvegsmálum að umtalsefni í forystugrein 31. ágúst 2023 undir fyrirsögninni:

"Enginn sáttahugur í matvælaráðherra".

Það er eingöngu niðurrifshugur í þessum dæmalausa ráðherra, enda hundsaði hún aðalfyrirmælin í stjórnarsáttmálanum um sjávarútveginn, sem var að láta rannsaka þjóðhagslega hagkvæmni sjávarútvegsins og bera hana saman við önnur lönd.  Ef hún hefði farið að þessum fyrirmælum, hefði nefnilega komið í ljós, að allir tilburðir til breytinga á meginkerfi sjávarútvegsins væru skemmdarverk gegn þjóðarhag. Ráðherrann velur þann kost að beita ómerkilegum öfundar- og nöldursmálflutningi sósíalista gegn grunnatvinnuvegi, sem hámarkar virði auðlindarinnar og er kjölfestan í þróttmiklu efnahagslífi víða með ströndum fram.

"Máli sínu til stuðnings benti Svandís á vantraust almennings til sjávarútvegsins, og að óskir væru uppi um "sanngjarnari" skiptingu afraksturs auðlindarinnar og kvaðst vilja, að "almenningur fengi sýnilegri hlutdeild í afkomu við nýtingu sjávarauðlindarinnar" án þess þó, að almenningur fengi sýnilega hlutdeild í þeirri hugsjón ráðherrans eða útfærslu hennar.  

Um þetta getur ráðherrann borið, enda fáir, sem meira hafa alið á vantrausti í garð greinarinnar. 

Óvíst er þó, að af breytingum Svandísar verði, því [að] erfitt er að ímynda sér, að víðtæk samstaða náist um tillögurnar í ríkisstjórnarflokkunum."

Það er óboðlegur málflutningur ráðherra, sem kasta verður út í hafsauga, að illt umtal þessa óhæfa ráðherra og fleira fólks, sem rær á gruggug mið, hafi náð að snúa almenningsálitinu á þeirra sveif.  Þetta eru ekki nokkur einustu rök fyrir einhvers konar umbyltingu á sjávarútvegi eða hækkun á sérskattheimtu á hann, sem hvergi annars staðar fyrirfinnst.  Þessi skattheimta var nýlega einfölduð og nemur nú 1/3 af hagnaði fyrirtækjanna, sem í öllu samhengi er mjög há sérskattheimta. Það er rangt hjá ráðherranum, að almenn óánægja sé með, að þessi skattheimta sé of lág og þarfnist hækkunar. Það er hins vegar dæmigert fyrir niðurrifsöfl á borð við sósíalista að ala á sundurþykkju og öfund til að réttlæta skemmdarverk á því, sem vel gengur í þjóðfélaginu.  Ráðherrann hefur maðkað mjöl í pokahorninu og er algerlega ótrúverðugur í öllu, sem hún tekur sér fyrir hendur. 

"Í sérfræðiskýrslu um "Auðlindina okkar" [ekki stjórnmálamannanna, heldur fólksins, sem sækir sjóinn og þeirra, sem fjárfest hafa í búnaði og öðru til að nýta þessa auðlind undir vísindalegri stjórn veiðanna - innsk. BJo] kom fátt á óvart.  Niðurstöður voru helztar þær, að kvótakerfið hefði reynzt farsælt fyrir auðlindina, sjávarútveginn og þjóðarhag; að pólitískar sérlausnir til hliðar við það hefðu ekki gefið góða raun; og hugmyndir um innköllun og uppboð á aflaheimildum væru varhugaverðar. 

Samt vill ráðherrann bæði hækka veiðigjald og gera tilraunir með uppboð aflaheimilda, þó [að] hvorugt sé lagt til í skýrslunni.  Ekki kemur því á óvart, að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) efi, að Svandís hafi nokkurn tímann ætlað að hlíta þeim niðurstöðum skýrslunnar, sem ekki væru í samræmi við pólitískar skoðanir hennar.  Það er í stíl við aðra stjórnsýslu hennar."

 Þessi ráðherraómynd, sem montar sig af faglegum vinnubrögðum, þegar hún hlaup hrottalega á sig, eftir að hafa tekið mark á skýrslu, sem ekki var ætluð matvælaráðuneytinu, heldur Matvælastofnun, og frestað upphafi hvalveiða fram á haustið, hóaði saman fjölda manns til að ráðleggja henni uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu.  Þegar skýrsla þessa stóra hóps féll ekki í kramið hjá ráðherranum, dró hún fram gamalt góss úr hliðarveruleika vinstri pólitíkurinnar á Íslandi og þóttist geta smíðað úr því nýja stefnu fyrir sjávarútveginn.  Hvað í ósköpunum á svona leikaraskapur ríkisvaldsins að þýða ?  Ráðherrann hefur ekki hundsvit á því, sem hún ætlar að móta sjálf stefnu fyrir, og hún hefur þverskallazt við að leggja aðalatriði málsins til grundvallar, sem er þjóðhagslega hagkvæmnin.

Hver er að biðja þennan ráðherra um að skipta sér af sjávarútveginum ?  Það eru engin fyrirmæli um það með þessum hætti í stjórnarsáttmálanum. Þessi ráðherranefna hagar sér eins og fíll í postulínsbúð.  Burt með hana úr stjórnarráðinu.     

    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband