22.11.2023 | 15:16
Þjóðaröryggisráð
Núverandi Þjóðaröryggisráð virðist aðallega fást við landvarnir, en þeim málum er eins traustlega fyrir komið og hugsazt getur með varnarsamningi við mesta herveldi heims og aðild landsins að NATO.
Almannavarnir ríkisins (Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra) virðist aðallega fást við yfirvofandi vá og viðbrögð við yfirstandandi vá. Það vantar langtímasýn um varnir gegn náttúruvá og fyrirbyggjandi aðgerðir til að stemma stigu við afleiðingum þeirra. Þarf ekki að endurskipuleggja og endurmanna Þjóðaröryggisráð til að taka að sér þetta hlutverk ? Utanríkisráðuneytið getur sjálft séð um samskiptin við BNA og NATO vegna landvarnanna.
Óðagot við varnargarða í kringum mannvirkin í Svartsengi og eftiráupplýsingar um, að Grindavíkurbær standi á flekaskilum, sem kvika hefur nýlega (10.11.2023) flætt inn í, að því er virðist öllum að óvörum, hefur sýnt fram á veikleika í viðbúnaði við líklegri vá, sem þarf að taka á kerfisbundið í stað þess að þverskallast við að viðurkenna alvarlega ágalla.
Jarðvísindamenn má suma kenna við "dramadrottningar", því að þeir hafa gengizt upp í að draga upp dökkar sviðsmyndir og spá fyrir um eldgos "innan sólarhrings", eða flöktandi líkindi, sem engin þekkingarleg innistæða hefur reynzt fyrir, hvað þá líkindareikningur. Hvernig stendur á því, að enginn þeirra dró upp dekkstu sviðsmyndina, sem sé þá, að kvika hlypi úr kvikuþrónni, sem safnazt hefur upp undir Svartsengi, og í ganginn á flekaskilunum, sem liggur 15 km leið að norðan, undir Grindavík og fram í sjó ? Þessi staða var ekkert í umræðunni fyrr en hún raungerðist 10.11.2023, þegar allt lék á reiðiskjálfi í Grindavík.
Ef gýs í sjó á þessu svæði, lokast líklega fyrir millilandaflug um Keflavíkurflugvöll. Þetta sannar gildi Reykjavíkurflugvallar, þar sem uppbygging ætti að vera hafin fyrir löngu, ekki á íbúðarhúsnæði til að þrengja að vellinum í tilraun til að hrekja hann burt, heldur á aðstöðu til að taka við og afgreiða millilandavélar. Hver hefur staðið sem þurs gegn því ? Núverandi borgarstjóri og stjórnmálaflokkurinn hans, Samfylkingin, sem enn vill henda fjármunum í rannsóknir í Hvassahrauni vegna framtíðarflugvallar. Vandlætingarfullur formaðurinn hefur ekki snúið ofan af þessari vitleysu og getur það sennilega ekki.
Ritstjórn Morgunblaðsins hefur rýnt þessi mál og afraksturinn gat að líta í forystugrein blaðsins 15. nóvember 2023:
"Rýming Grindavíkur og Reykjaneseldar".
Hún hófst þannig:
"Grindvíkingar hafa mátt búa við miklar landskjálftahrinur í hartnær 4 ár, en aldrei sem nú, eftir að kvika hefur leitað upp og undir bæinn, yfirborð jarðar sprungið og bókstaflega brotnað; svo bráð hætta yfirvofandi, að Grindavík hefur nú verið rýmd í tvígang."
Góð fiskimið í grennd, hafnaraðstaðan, höfnin og glæsileg fyrirtæki í Grindavík, hafa léð bænum gildi og gert hann eftirsóknarverðan til búsetu. Nú hefur undirstaða bæjarfélagsins verið skekin vegna skemmda á mannvirkjum og innviðum og óvissu um, hvenær bann yfirvalda við búsetu og starfsemi í bænum tekur enda. Að einhverju leyti stafa skemmdirnar af nándinni við flekaskilin og að öðru leyti af innstreymi kviku í þá sprungu með víkkandi áhrifum. Spurning er, hvar yfirvöld munu vilja leyfa byggð á svæðinu í ljósi reynslunnar, og hvernig markaðurinn metur verðmæti fjárfestinga þar. Grindavík verður aldrei söm eftir og er í raun fyrsta fórnarlamb Reykjaneseldanna hinna nýju og nr 2 í röðinni eftir landnám.
"Það er ekki heldur annað hægt en að dást að fórnfýsi björgunarsveitarmanna í Grindavík, sem hafa lítil hlé fengið í 3 ár. Framganga annarra, sem þar um halda - á Veðurstofu, hjá lögreglu og Almannavörnum og öðrum stoðsveitum - hefur einnig að flestu verið til fyrirmyndar."
Um þetta er það að segja, að álagið, sem lagt er á björgunarsveitina og -sveitirnar, keyrir úr hófi fram, enda eru þær farnar að gegna lögreglustörfum. Það er hlutverk lögreglu að sinna stjórnun umferðar inn á rýmt svæði, bannsvæði, en í þessi verkefni eru björgunarsveitir settar. Þetta er fremur léleg frammistaða lögreglu í ljósi þess, að um sjálfboðaliðssveitir er að ræða, sem ávallt hlýða kalli. Hér verður ríkissjóður að koma til skjalanna, ef vel á að vera, og bæta bæði vinnuveitendum og björgunarsveitarmönnum, sem í hlut eiga, vinnutapið, sem þannig verður til.
"Taki að gjósa í næsta nágrenni Grindavíkur, verður það ekkert "túristagos". Það er því ekki að undra, að stjórnvöld hafi afráðið að grípa til ráðstafana um liðna helgi, þegar í skyndingu var lagt fram stjórnarfrumvarp um gerð varnargarða.
Það mátti ekki seinna vera, en áherzlurnar eru samt skrýtnar. Af hverju ákváðu stjórnvöld að nota þessar viðsjár til þess að leggja á nýjan skatt fyrir varnargörðunum ?
Skatturinn er til gamans sagður tímabundinn og á að afla mrdISK 3 á þremur árum. Í Reykjavík var haldinn alþjóðlegur montfundur í vor fyrir sömu upphæð, án þess að lagður væri á skattur [og er þó ríkissjóður rekinn með halla - innsk. BJo]. Í frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir mrdISK 7,5 í viðbót vegna hælisleitenda, án þess að lagður sé á aukaskattur. Við blasir, að ríkisstjórnin sólundar umhugsunarlaust stærri fúlgum án nýrra skatta, en henni væri nær að neita sér um óþarfa gæluverkefni frekar en að hækka skatta. Af nógu er að taka."
Seinlætið við að hefja gerð varnargarðanna er ótrúlegt m.v. við verðmætin, sem í húfi eru, og tjónið, sem hlýzt af heita- og kaldavatnsskorti og rafmagnsleysi, sem líklega hlýzt af gosi í grennd við Svartsengi áður en tekst að ljúka gerð varnargarðanna. Landskerfi raforku er þanið til his ýtrasta og má ekki við að missa Svartsengisvirkjun út af kerfinu.
Líklegasta skýringin á deyfðinni við að hefja gerð varnargarðanna er, að rétt einu sinni hafi vinstri hreyfingin grænt framboð þvælzt fyrir þjóðþurftarverki, en ekki treyst sér til þess lengur, eftir að ósköpin dundu yfir Grindavík síðdegis föstudaginn 10.11.2023. Þetta er í raun óstjórntækur stjórnmálaflokkur, en formaðurinn treður sér nú alls staðar að með sín góðverk og samkennd.
VG kom af stað furðuumræðu um það, hvort eðlilegt væri, að ríkið kostaði varnir utan um einkafyrirtæki. Slík umræða er eingöngu til að drepa nauðsynjamáli á dreif. Auðvitað má ríkisvaldið ekki mismuna fyrirtækjum eftir eignarhaldi. Það mundi skekkja samkeppnisstöðuna stórlega og er ólöglegt og gæti skapað ríkisvaldinu stórfellda skaðabótakröfu ofan á allt saman. Umræða á þessum nótum er hrein heimska vinstri manna.
Löggjöfin um hælisleitendur er einstaklega illa úr garði gerð og hefur flækt ríkissjóð í risaútgjöld, um 20 mrdISK/ár, auk álags á heilbrigðiskerfi, félagsþjónustu og menntakerfi, sem þessi kerfi eru ekki undirbúin fyrir. Löggjöfin sker sig úr löggjöf annarra þjóða um þessi efni og ber að kasta á haugana, spara stórfé, sem skynsamlegra og nytsamlegra er að nota til að styðja við bændur landsins, sem nú eiga mjög á brattann að sækja vegna stórhækkaðs verðs aðfanga og mikilla krafna löggjafans um fjárfestingar til að bæta aðbúnað dýranna.
Núverandi dómsmálaráðherra er tekin til við að moka flórinn, enda skelegg, vel að sér og dugnaðarforkur úr atvinnulífinu. Er óskandi, að borgaralegu flokkarnir styðji við bakið á henni og nýti sér, að VG þorir ekki í kosningar fyrr en kjörtímabilið er á enda.
"En svo má líka spyrja, hvort stjórnvöld hafi ekki verið allt of værukær. Öllum hefur verið ljóst í 2-3 ár, að frekari óróa væri að vænta á Reykjanesskaga og það miklu stærri gosa, mögulega um alda skeið (sem þyðir ekki, að lengri tími sé til stefnu).
Mörgum þykir skrýtið, að Landvernd hafi lagzt gegn mannvirkjum á borð við varnargarða og sagt "óþarfa rask", þó að við blasi, að raskið úr iðrum jarðar verður ævinlega þúsundfalt. Hitt er þó meiri ráðgáta, hverju afstaða samtakanna skiptir stjórnvöld, þegar náttúruvá vofir yfir almenningi."
Það er einmitt viðeigandi nú að draga það fram nú, að náttúrurask mannsins á Íslandi hverfur algerlega í skuggann af "raski" náttúrunnar sjálfrar á eldfjallaeyjunni. Hins vegar kemur þeim, sem urðu vitni að kjánaskap "náttúruverndarsinna", þegar leggja átti núverandi afleggjara að Blá lóninu. Þá lögðust þeir fyrir vélarnar og hófu að tína upp mosann "til að bjarga honum". Það fer engum sögum um, hvað um mosann varð, sem rifinn var upp. Fíflagangurinn hefur engu breytt fyrir þennan mosa. Fáfræðin og vitleysan á sér engin takmörk í þjóðfélagi nútímans, þar sem borgarbörnin hafa glatað öllu jarðsambandi. Þess ber að geta hér, að Landvernd er útibú frá VG, og verður aðgerðarleysi á mörgum sviðum þá skiljanlegra.
"Áhyggjur af orkuöryggi eru af svipuðum meiði, en eldgos á Reykjanesi gætu truflað starfsemi orkuvera HS Orku og afhendingu á bæði raforku og heitu vatni, eins og oft hefur verið bent á. Það gerir tafirnar á lagningu Suðurnesjalínu 2 enn óskiljanlegri, að ekki sé minnzt á þvermóðsku vinstri grænna til þess að viðurkenna þörfina á frekari orkuöflun."
Um nokkurra missera skeið hafa jarðvísindamenn haldið því fram, að árið 2021 hafi hafizt eldsumbrotatímabil á Reykjanesi, sem staðið geti yfir öldum saman. Uppi eru þar af leiðandi gjörbreyttar aðstæður varðandi byggð og tæknilega innviði. Núna mundi engum detta í hug að virkja í Svartsengi eða að hafa þar baðstað og fjölmenn hótel. Sú er hins vegar staðan, og þá er verkefnið að verja þessi mannvirki eftir mætti, en ríkisstjórn og Almannavarnir hafa gjörsamlega brugðizt þessu hlutverki sínu þar til jarðskjálftafár ríður yfir Grindavík og Svartsengi af völdum kvikuinnskots í litlu dýpi. Núna væri ekki vanþörf á lagasetningu um að leggja Suðurnesjalínu 2 tafarlaust til að auka þolgæði raforkuafhendingar til Suðurnesja, ef afkastageta virkjana þar minnkar.
Það þarf að meta, hvar í sveitarfélaginu Grindavík er ráðlegt að halda búsetu áfram, og þau svæði þarf að verja með varnargörðum, og Viðlagatrygging að kaupa húsnæði, sem er staðsett, þar sem áhætta fyrir búsetu af völdum jarðskjálfta og/eða hraunflæðis er metin of mikil, óháð ástandi húsnæðis. Þessu þarf nýskipulagt Þjóðaröryggisráð að hafa umsjón með og sömuleiðis að áhættugreina aðra byggð og önnur mannvirki á Suðurnesjum í ljósi gjörbreyttrar stöðu.
"Nú hafa stjórnvöld látið rýma 12. stærsta byggðarlag landsins, og á 4. þúsund manns eru á vergangi. Engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til hýsingar þeirra, þó [að] vitað væri, að Grindavík gæti orðin í sérstakri hættu, húsnæðiskreppa á höfuðborgarsvæðinu og allt tiltækt húsnæði gleypt af félagsmálaráðherra undir hælisleitendur, sem flestir eru hér í erindisleysu.
Allt þetta bendir til einkennilegs tómlætis um ljósa og yfirvofandi hættu, sem við vitum fyrir víst, að verður ekki umflúin, hvort sem það gýs í dag eða á morgun, á næsta ári eða þarnæsta. Séu Reykjaneseldar hafnir, þá verða gosin mörg og fæst til skrauts."
Þetta er réttmæt og hörð gagnrýni Morgunblaðsins á yfirvöld fyrir andvaraleysi. Það var farið að tala um varnargarða norðan Grindavíkur, en hin miklu mistök jarðvísindamanna voru að taka ekki með í reikninginn, að flekaskil liggja í gegnum Grindavík til sjávar og, að þessi neðanjarðargjá gæti fyllzt af hrauni og það streymt þar upp, en mjög stutt er þar nú niður á kviku. Ef innrennslið stöðvast, gýs þar ekki að þessu sinni, en jarðvísindamenn þurfa að svara því, hvort þetta geti endurtekið sig, því að það skiptir öllu máli varðandi varnaraðgerðir.
Þrumuritstjórnargrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"Á Reykjanesskaga eru 6 eldstöðvakerfi, en þegar þau rumska eftir 8 alda hlé, geta afleiðingarnar orðið gríðarlegar áður en yfir lýkur. Ekki er hægt að útiloka, að Keflavíkurflugvöllur lokist um skemmri eða lengri tíma, útflutningsatvinnuvegir gætu orðið fyrir miklum skakkaföllum; það er ekki óhugsandi, að hraun gæti aftur runnið inn á höfuðborgarsvæðið með geigvænlegu eignatjóni fyrir utan bein áhrif á mannfólkið og annað lífríki.
Það er ekki seinna vænna að fara að draga upp slíkar myndir, hvernig megi bregðast við þeim og fyrirbyggja mestu ósköpin. Til þess duga engar skyndilausnir og nýir skattar helgina fyrir gos."
Til að standa fyrir nauðsynlegum umbótum á viðbúnaðar sviðinu þarf að endurskipuleggja Þjóðaröryggisráð, skipa því sjálfstæðan fjárhag og ríkar valdheimildir í ljósi gjörbreyttrar stöðu á Suðurnesjum. Ráðið þarf að kortleggja sprungumyndanir, gera nákvæmt jarðskjálftakort og setja upp rennslislíkön fyrir mismunandi sviðsmyndir eldsumbrota. Á þessum grundvelli verði öll íbúa- og mannvirkjasvæði áhættugreind og viðbúnaðar áætlanir settar upp og æfðar í kjölfarið.
Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að öll flugumferð um Keflavíkurflugvöll getur stöðvazt af völdum sprengigoss, og einn jarðfræðingur hefur heyrzt telja gos í hafi líklegasta gosstaðinn í yfirstandandi hrinu. Rökrétt afleiðing af þessu er að efla varaflugvellina, ekki sízt Reykjavíkurflugvöll, og sveimhuga hugmyndir um nýjan flugvöll á Suðurnesjum (í Hvassahrauni) á að slá út af borðinu strax, um leið og Reykjavíkurflugvelli verði gert hærra undir höfði en verið hefur hjá borgaryfirvöldum Reykjavíkur undir hræðilegri forystu Samfylkingar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.