Einelti gegn völdum atvinnugreinum

Sú var tíðin, að vinstri sinnaðar listaspírur og nokkrir fleiri, aðallega á opinberri jötu, lögðu ISAL í Straumsvík í einelti og hrakyrtu fyrirtækið fyrir að vera til.  Sannleikurinn var sá, að sósíalistar óttuðust, að fyrirtæki í erlendri eign yrði öðrum góð fyrirmynd um rekstrarhætti og góðan viðurgjörning við starfsmenn sína og óttuðust líka, að styrkur atvinnurekendasamtakanna ykist mjög, ef þetta stórfyrirtæki gengi í þau.   

Það varð einmitt reyndin, að þetta brautryðjandi fyrirtæki braut blað á mörgum sviðum tækni og stjórnunar.  Gerður var einn sameiginlegur kjarasamningur við alla starfsmenn, sem þessir sömu starfsmenn greiddu atkvæði um í einu lagi. Hver starfsmannahópur gat sagt sig frá samkomulaginu, en meirihlutinn réð gildistöku. Þetta leiddi til góðs vinnufriðar í fyrirtækinu og hærri launa en þekktust annars staðar á landinu hjá sömu stéttum. Málstaður sósíalistanna að sverta þetta fyrirtæki var reistur á ótta við hið óþekkta, fordómum og skipun frá Brésneff, þáverandi Kremlarbónda, um að berjast gegn erlendum fjárfestingum í landinu.

Nú er öldin önnur.  ISAL og önnur stórfyrirtæki í erlendri eigu gengin í Samtök atvinnurekenda og aðeins hjáróma raddir úr útibúi VG, Landvernd, reka áróður fyrir því að loka álverunum, svo glórulaus sem sá áróður er. 

Nú beinist meginandróðurinn gegn sjávarútveginum, þótt hann virðist sá bezt heppnaði í heimi hér, og þá sérstaklega að sjókvíaeldinu.  Þar er fyrirbærið smjörklípuaðferðin á ferðinni, en veiðiréttarhafar í ám og vötnum Íslands standa frammi fyrir minnkun laxfiskastofnanna, en mega ekki heyra minnzt á ofveiði sem skýringu, þótt hún blasi við um laxastofnana íslenzku. 

Það þarf að setja nýtingu þessara stofna undir sömu vísindalegu ráðgjöf og nytjafiskana í landhelginni og veiðarnar undir eftirlit Fiskistofu. 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, var á Sjónarhóli Morgunblaðsins 15. nóvember 2023 með ágæta grein:

 "Síðustu ár er eins og ákveðinn hluti af þjóðinni hafi tapað tengslum við það, sem skapar okkur þau lífsskilyrði, sem við búum við.  Það er engu líkara en sumir hafi gleymt því, að við þurfum að skapa og framleiða til að geta viðhaldið því lífi, sem okkur finnst [vera] orðið sjálfsagt. Á meðan fólki hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, megum við ekki gleyma því, hve mikilvæg landsbyggðin er, sérstaklega þegar kemur að grunnatvinnuvegum okkar. 

Grindavík er dæmi um bæjarfélag, sem hefur í [áranna rás] lagt feikilega mikið til íslenzks samfélags.  Og gerir enn.  Í bænum er hjarta sjávarútvegs á suðvesturhorni landsins, og þar hófst landeldið og hefur verið í örum vexti. 

Þar hafa líka nýsköpunar- og líftæknifyrirtæki komið sér fyrir og skapað drjúgar tekjur fyrir íslenzka þjóðarbúið.  Það er ekki víst, að almenningur geri sér grein fyrir því, hversu mikið högg það væri fyrir íslenzkan efnahag að missa það, sem Grindavík hefur gefið íslenzku samfélagi."   

Þetta er allt hárrétt hjá Heiðrúnu Lind.  Sá hópur ungs fólks stækkar stöðugt, sem aldrei hefur tekið þátt í neinni verðmætasköpun úr skauti náttúrunnar og aldrei ýjað heilli hugsun að samhengi verðmætasköpunar (gjaldeyrisöflunar) og velmegunar í landinu. Þess vegna hefur afturhaldið í landinu komizt upp með að girða fyrir nýjar umhverfisvænar virkjanir af þokkalegri stærð síðan Þeistareykjavirkjun var tekin í brúk.  Sá óskiljanlegi doði stjórnvalda að láta þessa hörmung viðgangast nú á tímum orkuskipta hefur leitt af sér mikla brennslu í olíukötlum, og þann 28.11.2023 bárust af því fréttir, að hið glæsilega fyrirtæki á Höfn í Hornafirði (þar sem landsins beztu humarréttir fást), sem sett hefur upp rafmagnskatla fyrir sína vinnslu, yrði nú undir skóslit og beinbrot að útvega sér olíukatla, eftir að Landsvirkjun tilkynnti daginn áður um afnám ótryggðrar orku til fyrirtækisins og annarra svipaðra og að engin ný forgangsorka væri föl.  Þessari stöðu hefur verið varað við, og hún mun koma upp alla vetur, þar til virkjun, 50 MW eða stærri, bætist við landskerfið, og ekkert slíkt verkefni er í gangi.  Það þýðir, að í fyrsta lagi veturinn 2028 mun ekki þurfa að brenna gjaldeyri til að framleiða hita og rafmagn.  Er þessi skammarlega staða ekki einnar messu virði á Alþingi ?  Það er ástæða til að grípa til örþrifaráða með lagasetningu um virkjanir til að forða þjóðinni sem fyrst frá þessari hneisu.  Útibú VG mun þá tryllast og móðurfélagið ekki styðja málið, en kannski skila auðu. 

Nú er bjartara yfir Grindavík en verið hefur frá ósköpunum 10.11.2023.  Eftir því sem athugunum á innviðunum vindur fram, kemur góð þolni þeirra gagnvart jarðhræringum betur í ljós.  Atvinnustarfsemi hófst að nýju 28.11.2023, þar sem innviðir leyfa, og ætlunin er í kjölfarið að hefja landanir í Grindavíkurhöfn. Þetta eru ljómandi góð tíðindi. Jarðeðlisfræðiprófessorinn Tumi Guðmundsson, sem kjaftar ekki frá sér allt vit, hefur varað við að flytja of snemma inn í ósködduð hús, og það er skiljanlegt m.v. kvikuinnstreymi norðan Grindavíkur, á meðan varnargarðarnir eru ekki tilbúnir.  Hins vegar er það mikið fagnaðarefni og andle upplyfting fyrir íbúa, að líf færist í bæinn með verðmætasköpun að nýju a.m.k. hluta úr sólarhringnum.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband