Forræðishyggjan framkallar óhjákvæmilega skort

Kenningasmíði Karls Marx og Friedrichs Engels reyndust vera eintómir hugarórar, sem gátu ekki gengið upp í raunheimum og framkölluðu alls staðar, þar sem reynt var að koma kommúnísku þjóðskipulagi á, ómældar mannlegar þjáningar, kúgun, réttindaleysi almennings, spillt stjórnkerfi og dómskerfi vöruskort og  hungursneyð.

Alræmd er hungursneyðin í kornforðabúri Evrópu, Úkraínu 1931-1932, Holodomar, þegar alræðisherrann í Kreml, aðalritari sovézka kommúnistaflokksins, Georgíumaðurinn Stalín, lét flokkspótintáta flytja kornbirgðir Úkraínu til borga Rússlands og Síberíu, þar sem fólki hafði fjölgað mikið vegna iðnvæðingar Ráðstjórnarríkjanna samkvæmt áætlun allsráðandi ríkisvalds.  Fyrir vikið sultu Úkraínumenn heilu hungri, og allt að 5 milljónir manna dóu af næringarleysi.  Þetta var þjóðarmorð.  Flokkurinn ákvað að svelta Úkraínumenn til hlýðni. Framkoma rússneskra stjórnvalda gagnvart nágrannanum í vestri hefur löngum verið glæpsamleg. 

Útþynntar útgáfur af kommúnismanum, sósíalisminn og jafnaðarstefnan (sosialdemokratí) skapa líka skort.  Fylgifiskur hvers konar vinstri stefnu er skortur.  Í raforkumálum Íslands ríkir skortur, þótt landið bjóði upp á gnótt orku til að virkja. Hér er við lýði úrelt löggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. Orkupakki 3, þótt Orkupakki 4 hafi fyrir löngu leyst hann af hólmi á orkumarkaði ESB. Þrátt fyrir OP#3 hefur Landsreglarinn (Orkumálastjóri) hvatt orkuráðherrann til að leggja fram frumvarp á Alþingi, sem augljóslega brýtur í bága við frjálst markaðskerfi raforku, sem er hornsteinn OP#3, því að einum hópi er samkvæmt frumvarpinu veittur forgangur að forgangsorku, þ.e. þeim, sem skipta við almenningsveiturnar og hafa ekki gert langtímasamning við orkubirgi.  Eina ráðið til að koma í veg fyrir skömmtunarástand, sem ekki stafar af óviðráðanlegum öflum ("force majeur"), er að virkja, en á það mega vinstri grænir ekki heyra minnzt.  Samt þeytist forkólfur þeirra alla leið til Arabíuskagans til að predika yfir heimsbyggðinni nauðsyn þess að hætta að nota jarðefnaeldsneyti.  Það dettur þó engum heilvita manni í hug að gera án þess, að aðrir orkugjafar komi í staðinn.

  Landsvirkjun hefur sýnt vilja til að virkja og verkhannað Hvammsvirkjun, en í tvígang hefur Orkustofnun verið gerð afturreka með leyfisveitingu um þetta til Landsvirkjunar.  Var a.m.k. í fyrra skiptið vísað til vatnalöggjafar ESB, sem er út í hött í tilviki Hvammsvirkjunar í Þjórsá. 

Orkuráðherrann vælir og leggur svo fram ofangreint frumvarp, sem er örverpi.  Hann á í staðinn að stokka upp spilin og einfalda leið virkjunarfyrirtækjanna að framkvæmdaleyfi, en láta lagalega hæpinn bútasaum Orkustofnunar lönd og leið. Sérvitringar, sérhagsmunaaðilar og landeyður á borð við Landvernd, sem er útibú frá Vinstri hreyfingunni grænu framboði, VG, mega ekki lengur fá að vaða uppi og ógna almannaheill. Raforkukerfið er orðið ofþanið yfir vetrartímann og þar með komin upp hætta á kerfishruni, af því að vélar (rafala) og öflugar flutningslínur vantar.  Orkumálastjóri og orkuráðherra eru með óleyfilegum aðferðum að forða því, að hér myndist suður-afríkanskt ástand í raforkumálum.  Fyrir 20 árum var gnótt raforku í Suður-Afríku, og landið flutti út raforku til nágrannaríkjanna.  Nú er rafmagn skammtað þar og straumlaust í hverri viku einhvers staðar í landinu vegna ónógs framboðs. 

Úr því sem komið er verður að setja sérlög um Hvammsvirkjun og Suðurnesjalínu 2 til að forða landsmönnum frá hallæri í boði vinstri aflanna.  

Annað skortsvið, sem hér verður gert að umræðuefni, eru lóðir undir íbúðarhúsnæði.  Vinstri meirihlutanum í Reykjavík hefur tekizt að braskvæða lóðaframboðið, minnka það langt niður fyrir árlega þörf og skekkja þar með húsnæðismarkaðinn á svæði, þar sem a.m.k. 70 % landsmanna búa.  Morgunblaðið gerði þessa skortstefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn að umræðuefni í forystugrein blaðsins á fullveldisdeginum 2023:

"Lóðabrask í boði borgar"

Þar stóð m.a. þetta:

"Í fróðlegu viðtali Morgunblaðsins við Kristin Þór Geirsson, framkvæmdastjóra Snorrahúsa, sem m.a. hefur byggt mikið í Úlfarsárdal, kemur fram, að byggðin þar hafi átt að vera 6 sinnum meiri en raun varð á undir núverandi meirihluta í borginni.  "Samkvæmt eldra skipulagi áttu þar að vera 6 skólahverfi og 25-30 þúsund manna byggð.  Núverandi meirihluti setti það skipulag hins vegar til hliðar.  Þar er land, sem Reykjavíkurborg getur auðveldlega úthlutað, og ef litið er á land sem hilluvöru í stað þess að reka þessa gróðastefnu, er þar mikið framboð af lóðum.  Þetta átti að vera risahverfi.  Hjálmar [Sveinsson, borgarfulltrúi Sf] hefur talað fjálglega um það. Ég varð vitni að þessu á sínum tíma.  Hann talaði um hverfið, eins og það væri úti á landi.  Þetta væri svo langt í burtu, að það væri ekki hægt að kosta almenningssamgöngur þangað upp eftir", segir Kristinn."  

Vinstra fólkið í borgarstjórn mun ekki láta af trú sinni á þéttingarstefnu sína, þótt hún hafi gengið sér til húðar og hafi verið sérvizkan ein frá upphafi, eins og Hjálmar & Co. hafa rekið hana.  Hún þrýstir upp húsnæðisverði og skapar húsnæðisskort, sem magnar verðbólguna.  Hún gengur þess vegna beint gegn hagsmunum launamanna og alls almennings.  Fólk verður að átta sig á því, að þessi sérhagsmunastefna er runnin undan rifjum Samfylkingarinnar, sem nú fer með himinskautum í skoðanakönnunum.  Sú fylgisaukning er áreiðanlega ekki á eigin verðleikum, heldur vegna óánægju með aðra.  Að kjósa yfir sig skortstefnu á öllum sviðum væri ekki reist á upplýstri ákvörðun, heldur upplýsingaóreiðu.

"Það á við flestar af lóðunum, sem eru byggingarhæfar, að það tekur líklega 3 ár að fara í gegnum skipulagsferlið, þótt búið sé að deiliskipuleggja lóðina.  Þá á eftir að koma byggingarhæfum teikningum í gegnum skipulagið, sem er með ólíkindum erfitt.  Ég fæ ekki séð, að með þéttingarstefnu geti lóðir nokkurn tímann orðið hilluvara eða tryggt nægt framboð lóða", segir Kristinn."

Stjórnkerfi Reykjavíkur í höndum vinstra fólksins er ónýtt.  Það er ónothæft, af því að það er illa samhæft og þungt í vöfum.  Svona stjórnkerfi, sem vinnur gegn hagsmunum umbjóðendanna, er ungað út af vinstri pólitíkusum til að raða eigin gæðingum á jötuna.  Það er óskiljanlegt, hvernig það getur tekið 3 ár fyrir útlitsteikningu að fara um skipulagsfrumskóginn og síðan ótal snúninga umsækjanda að fá verkhönnun samþykkta af borginni.  Þarna er búið að búa til kerfi fyrir sjálft sig, en viðskiptavinurinn verður hornreka.

Allt er þetta dæmigert fyrir kommúnisma og útþynningar af honum. Stjórnkerfið þarf að stokka upp, straumlínulaga það, kasta þéttingarstefnunni á haugana og gera lóðir að hilluvöru, eins og stjórnkerfi borgarinnar gerði á dögum Davíðs Oddssonar sem borgarstjóra. 

"Afleiðingin af skortstefnu borgarinnar í lóðamálum er ekki aðeins, að verktakar eigi erfitt með að fá lóðir til að byggja á.  Vandinn er, að fólk, ekki sízt ungt fólk, fær ekki íbúðir á viðráðanlegu verði til að búa í, og það er vitaskuld stóri vandinn.  Annar stór vandi er, að þessi lóðaskortur ýtir með mjög hækkandi fasteignaverði undir þá verðbólguþróun, sem við höfum búið við um allt of langt skeið, nú síðast með verðbólgumælingu upp á 8,0 %.  

Þegar horft er á breytingu á milli mánaða, þá hækkar vísitala neyzluverðs um 0,38 %, en án húsnæðis lækkar vísitalan lítillega [sbr alla afsláttardagana í nóvember - innsk. BJo].  Það þýðir, að verðþróun húsnæðis er alfarið skýringin á hækkuninni í nóvembermælingunni [2023], sem verður svo aftur til þess að ýta undir hærri stýrivexti, hærri verðbætur og þann kostnað, sem heimili og fyrirtæki bera af þeim sökum [auk hækkaðra fasteignagjalda að óbreyttum reiknistuðlum - innsk. BJo]."

Afrekaskrá Samfylkingarinnar er með þvílíkum endemum, að það skyti stórlega skökku við, ef kjósendur hyggjast nú reisa þennan útþynnta kommúnistaflokk úr öskustó, þar sem hann hafnaði eftir að hafa veitt "fyrstu tæru vinstri stjórninni" forystu 2009-2013. Síðan hefur ekkert breytzt hjá þessum flokki annað en að fá nýjan formann sendan úr bankakerfinu (Kviku), sem ber kápuna þokkalega á báðum öxlum. 

Í lokin sagði í téðri forystugrein:

 "Nauðsynlegt er að brjótast út úr þessum vanda.  Borgaryfirvöld mega ekki komast upp með að valda ekki aðeins lóðaskorti, heldur beinlínis efnahagsvanda, sem þegar hefur kostað þjóðina mikið.  Það stefnir í vaxandi kostnað og með kjarasamninga fram undan, háa verðbólgu og eftir því háa vexti, er ekki hægt að bíða lengur.  Brjóta verður nýtt land undir byggð, og ábyrg stjórnvöld hljóta að boða slíkar aðgerðir án tafar."

Það er tómt mál að tala um, að vinstri meirihlutinn í borgarstjórn láti af skortstefnu sinni.  Þá er eina úrræðið, að innviðaráðherra beiti sér fyrir lagasetningu á Alþingi um að þegar í stað skuli brjóta land undir byggð til að afnema lóðaskortinn á SV-landi.  Það mun formaður Framsóknarflokksins ekki gera, því að nýjasta strengjabrúða Samfylkingarinnar í borgarstjórn kemur úr Framsóknarflokknum og á að heita næsti borgarstjóri Reykjavíkur.  Allar bjargir eru bannaðar, á meðan meirihluti kjósenda lætur fagurgala falsspámanna vinstrisins villa sér sýn.  

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband