Loftslagsráðstefnan er dæmd til að missa marks

Hvers vegna eru allar loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna dæmdar til áhrifaleysis, þ.e. að verða orðin tóm ?  Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en nefna má, að skuldbindingar þar eru ekki lagalega bindandi, og þeir, sem mest tala þar, hafa ekki nægilega góða yfirsýn og skilning á þeim tæknilegu og efnahagslegu viðfangsefnum, sem úrlausna krefjast, ef árangur á að nást við að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

  Fullyrða má, að blaður þjóðarleiðtoga breytir engu fyrir loftslagið.  Að fjöldi ráðstefnugestanna á 28. loftslagsráðstefnunni í Sameinuðu arabísku furstadæmunum (Dubai) frá Íslandi skuli nema 0,1 % af heildarfjölda segir meira um ferðagleði og hégómagirni landsmanna en gagn, sem Ísland eða aðrir nokkru sinni geta haft af að hafa þarna fleiri en 0,01 % þátttakenda. 

Meginástæða árangursleysis þessara fjöldasamkoma (80-90 k viðstaddir) er þó líklega sú, að enginn þar virðist hafa velt fyrir sér kostnaðinum af áætlaðri hlýnun umfram 1,5°C og borið hann saman við kostnaðinn við að halda hlýnun í skefjum við 1,5°C.  Í staðinn fljúga orðaleppar um salina, sem eiga að hræða fólk til fylgilags við loftslagstrúboðið.  Það dytti sennilega dautt niður, ef kostnaðarupplýsingar frá Copenhagen Consensus fengju einhverja athygli á þessum dæmalausu blaðurskjóðu fundum stjórnmálamanna og embættismanna. 

Björn Lomborg, stofnandi téðrar hugveitu, skrifaði nýlega grein um þetta, og birtist hún í Morgunblaðinu 4. desember 2023.  Þar kemur nefnilega fram, að kostnaðurinn af baráttunni við hlýnun er margfaldur á við kostnaðinn af afleiðingunum.  Opinberu fé verður bezt varið til mótvægisaðgerða, nema viðskiptalega hagkvæmar lausnir séu fyrir hendi.  Þegar kemur að orkuöflun, eru þær fyrir hendi með jarðgufu og fallvatni hérlendis, en það á varla við um vindinn vegna lágs nýtingartíma, lítilla eininga og mikils umhverfiskostnaðar við að nýta hann til raforkuvinnslu. 

Nú skal grípa niður í grein Björns Lomborg, sem bar fyrirsögnina:

"Þegar loftslagspáfar vilja ekki hlusta á vísindin".

"Næstum öll ríku löndin prédika mun meira en þau standa síðan við.  Dæmi um þetta er Evrópusambandið, sem hefur lofað meiru en nokkur annar, en fór þó að leita að meiri olíu, gasi og kolum í Afríku, þegar það var nauðbeygt til að stöðva gasinnflutning frá Rússum í kjölfar villimannslegrar innrásar þeirra í Úkraínu.  Á sama tíma setja næstum öll fátæk ríki skiljanlega eigin velmegun í forgang, sem þýðir næga ódýra og áreiðanleg orku - sem þýðir enn sem komið er jarðefnaeldsneyti [þar á bæ - innsk. BJo]."   

Þetta þýðir, að ráðstefnublaðrið um, að nú sé ekki eftir neinu að bíða, mundi hafa afar neikvæðar afleiðingar á lífskjör í heiminum, sérstaklega á meðal þjóða, sem verst eru settar, ef úr yrði.  Jarðarkringlan og allt, sem á henni er, yrði miklu betur sett, ef SÞ mundu hætta að boða til þessara árlegu funda.  Fjarfundir hljóta að duga á milli staðfunda á 10 ára fresti til að bera saman bækur.

Það er vita vonlaus aðferðarfræði að setja einhver markmið án skuldbindinga.  Miklum hræðsluáróðri er dembt yfir heiminn, en hann hrín ekki á olíuvinnslulöndunum og stærstu notendunum í fjölmennustu löndunum, Indlandi og Kína.  Vesturlönd geta ekki dregið þennan vagn ein og verða að gæta að sér að missa ekki kostnað atvinnuvega sinna úr böndunum fyrir vikið. 

"Undirstaða skrípaleiks loftslagsráðstefnunnar er lygi, sem er endurtekin aftur og aftur: að græn orka sé alveg við það að koma í stað jarðefnaeldsneytis á öllum sviðum lífs okkar.  Þessum ýkjum er [núna] haldið á lofti af Alþjóðaorkumálastofnuninni, sem hefur snúið sér frá hlutverki hlutlauss úrskurðaraðila um orkugögn yfir í talsmann þeirrar langsóttu spár, að notkun jarðefnaeldsneytis muni ná hámarki innan aðeins 7 ára."   

Þarna er um einfaldan blekkingarleik að ræða, sem stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafa margþvælt um, en þegar til á að taka, er gripið í tómt.  Þetta er meginskýringin á því, að framkvæmd orkuskipta er langt á eftir áætlun alls staðar.  Katrín Jakobsdóttir talar, eins og lausnir séu "hilluvara", en hvernig eiga útgerðarfélög og flugfélög og verktakar að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi ?  Það vantar jarðtengingu tækninnar inn í þessa umræðu. Glæpasagnahöfundur hrekkur skammt. Almenningur hefur áttað sig á innihaldsleysi orðaflaums og ósvífins hræðsluáróðurs. 

"Það, sem verður ekki viðurkennt í Sameinuðu arabísku furstadæmunum - vegna þess að það hefur aldrei verið viðurkennt á alþjóðlegum loftslagsráðstefnum - er hinn óþægilegi veruleiki, að þótt loftslagsbreytingar hafi raunverulegan kostnað í för með sér, þá hefur loftslagsstefnan það líka."   

Það hefur aldrei gagnrýnin og fræðileg umræða farið fram í miðlum fyrir almenning um raunverulegar afleiðingar af hækkandi styrk koltvíildis í andrúmslofti af mannavöldum, kostnaðinn af að stemma stigu við þessari losun, kostnaðinn af tiltækum mótvægisaðgerðum og kostnaðinn af aðgerðaleysi.  Það hefur bara verið hamrað á nauðsyn orkuskipta í samgöngum og iðnaði og landbúnaði og þá litið fram hjá því, að tæknin fyrir stórfelld orkuskipti er enn ekki fyrir hendi, enda fer notkun jarðefnaeldsneytis vaxandi víðast hvar í heiminum og toppinum á brennslu jarðefnaeldsneytis verður líklega ekki náð fyrr en á næsta áratugi.  Loftslagspostular hafa skotið sig í fótinn með árlegum dómsdagsspádómum, og er formaður Loftslagsráðs Íslands dæmi um slíkan hamfarapostula, sem hefur gert sig að ómerkingi.  Hver lofslagsráðstefna (COP) er sögð sú síðasta fyrir mannkynið til að bjarga sér.  Ef raunveruleg hætta væri á ferðum, hefði ekki þótt verjanlegt að setja þessum ráðstefnum algerlega ófaglega og óskilvirka umgjörð. 

"Loftslagsaðgerðasinnar, sem krefjast þess, að við hlustum á vísindin, hafa sjálfir stöðugt hundsað þessar rannsóknir og hvatt ríka leiðtoga heimsins  til að gefa sífellt meiri loftslagsslagorð.  Margir leiðtogar heimsins hafa jafnvel gengið svo langt að lofa núll-marki í kolefnislosun fyrir árið 2050. [Katrín Jakobsdóttir stökk snemma á þann vagn, en hún gösslast áfram án þess að kynna sér málin út í hörgul, þegar kemur að því, að skuldbinda Ísland og ríkiskassann, þótt enginn sé hún heimsleiðtoginn - innsk. BJo.]

Þrátt fyrir að þetta sé líklega dýrasta stefnan, sem leiðtogar heimsins hafa lofað, var hún sett fram án þess að gera nokkurt ritrýnt mat á heildarkostnaðinum.  Fyrr á þessu ári fjallaði sérútgáfa Climate Change Economics um fyrstu slíkar greiningar. 

Þetta undraverða verk hefur nánast hvergi verið kynnt af neinum stórum fréttamiðlum.  Það sýnir, að jafnvel með mjög rausnarlegum forsendum muni ávinningurinn af því að sækjast eftir hreinu núlli aðeins mjakast upp mjög hægt og rólega á öldinni.  Um miðja öld gæti ávinningurinn  - þ.e. kostnaður vegna loftslagsbreytinga, sem verður forðað - orðið um 1 TriUSD/ár.

En kostnaðurinn yrði miklu, miklu hærri.  Þrjú mismunandi líkön sýna sýna öll kostnað langt umfram ávinning hvert einasta ár alla 21. öldina og langt inn í þá næstu.  

Þetta hafa menn upp úr því að láta hjarðeðlið leiða sig í gönur.  Í upphafi skyldi endinn skoða.  Ef menn hefðu setzt niður um 1990 og gert kostnaðarútreikninga, eins og Climate Change Economics hefur nú birt, í stað þess að reka hræðsluáróður um óafturkræfa ofurhlýnun jarðar, þá hefði mátt frelsa mannkynið undan miklu fári falsspámanna og loddara. 

 "Alla öldina er ávinningurinn [árlega - innsk. BJo] 1,4 % af VLF, á meðan kostnaðurinn er að meðaltali 8,6 % af VLF.  Hver króna í kostnaði [við að ná 0 nettó losun CO2 - innsk. BJo] skilar kannski 16 aurum af lofslagsávinningi.  Ljóst er, að þetta er skelfilega illa farið með fé.

Það eina, sem getur komið í veg fyrir, að þessi leiðtogafundur verði endurtekning á 27 öðrum mistökum er, að stjórnmálamenn viðurkenni rauverulegan kostnað af hreinni núllstefnu og í stað þess að lofa meiri kolefnisskerðingu [að] heita því frekar að stórauka rannsóknir og þróun á grænni orku."

Varðandi hið síðast nefnda er brýnt að þróa raunverulega valkosti við jarðefnaeldsneytið, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem skrýtið er, að ekki skuli vera tekið að hilla í. Þess má geta, að þýzkir stjórnmálamenn ræða nú enduropnun úraníum-kjarnorkuvera í Þýzkalandi.  Ef Græningjar samþykkja það, hafa þeir snúizt í hring. 

Hræðsluáróður loftslagspostula er reistur á spá um þróun hitastigs á jörðunni.  Loftslagsfræðingurinn dr John Christy o.fl. hafa sýnt fram á með hitastigsmælingum gervihnatta og loftbelgja, sjá Earth and Space Science við The University of Alabama  á tímabilinu 1979-2014, að líkan IPCC er rangt, sem leiðir til allt of mikillar framreiknaðrar hlýnunar.  Villan er fólgin í endurgeislun frá jörðu og út í geiminn, sem í líkaninu er aðeins helmingur af raunverulegu hitatapi.   

 

                                   

 

                                                                                                      

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband