Heiðarlega stunduð tölfræði andspænis gífuryrðum SÞ

Tölfræðin er fallegt fag, og vaxandi minnis- og reiknigeta tölvubúnaðar hefur eflt hana í sessi sem notadrjúga grein til að sanna eða afsanna kenningar um efni, þar sem langar raðir mæligagna eru fyrir hendi.  Þetta á t.d. við um hitastig á jörðunni. Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, ritaði þungavigtar grein um meinta hlýnun jarðar, sem birtist í Morgunblaðinu 12.12.2023.  Tölfræðileg greining á hitamæligögnum sýnir, að núverandi skammvint hlýskeið er aðeins eðlilegur breytileiki í hitafari jarðarinnar og að engin fylgni er á milli hækkandi styrks koltvíildis í andrúmslofti og núverandi hlýnunar.  Um þetta síðasta skrifar Helgi í greininni "COP28":

"Aukning koltvísýrings í andrúmslofti, sem sést frá 1960 í röð frá Havaí, getur ekki verið mikilvæg stýribreyta." 

Brezkur stjórnmálamaður sagði um miðbik síðustu aldar, að til væru 3 gerðir lyga: lygar, bölvaðar lygar og tölfræði.  Enginn þarf að draga heilindi og fagmennsku Helga Tómassonar í efa, þegar hann kynnir tölfræðilegar niðurstöður sínar á hvaða vettvangi sem er, enda eru kollegar hans, t.d. norskir, sem hann tilgreinir í téðri grein, á sömu skoðun og hann.  Heiðarlega og kunnáttusamlega stunduð tölfræði lýgur aldrei.  Hún gefur óyggjandi niðurstöður, en áróður Sameinuðu þjóðanna, SÞ, og ráðgjafarhóps þeirra, IPCC (International Panel on Climate Change heldur fram flokki 2 í hópi lyga, sem vitnað var í hjá brezka þingmanninum.  Margir stjórnmálamenn í heiminum hafa látið glepjast af hræðsluáróðri SÞ, þar sem framkvæmdastjóri þeirra hefur gengið svo langt, að mannkyns bíði stiknun í helvíti á þessari jörð, en ekki hinum megin vegna syndanna, eins og í gamla daga. Fer vel á því, að páfi nútíma ofsatrúar hræði fólk til fylgilags með sams konar hræðsluáróðri og páfar fyrri alda.  Munur á staðsetning óskapanna er bitamunur, en ekki fjár.

Það, sem lygalaupar túlka sem upphaf ískyggilegrar þróunar, er aðeins ein af fjölmörgum uppsveiflum frá nánast föstu gildi (meðalgildi), sem menn geta séð í tímaröðum hitastigsmælinga andrúmslofts eða árhringjum langlífra trjáa eða með öðru móti (borkjarnar). 

Athyglisverða og þakkarverða grein sína hóf prófessor Helgi þannig:

 "Olíufursti Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur verið með varkárar yfirlýsingar um hlýnun jarðar.  Varfærni furstans á fullan rétt á sér.  Skoðun á tímaröðum á veðurstofugögnum síðustu 200-300 ár sýnir, að ekki er grundvöllur fyrir yfirlýsingum á borð við hamfarahlýnun allrar plánetunnar."

Þar höfum við það.  Það er enginn grundvöllur fyrir líkangerð með innbyggðan marktækan hitastigul, sem gefur niðurstöður í ósamræmi við tímaröð hitastigsmælinga veðurstofanna.  Þess vegna sætir furðu, að veðurfræðingar heimsins, einnig á Veðurstofu Íslands, sem eru raunvísindamenn með menntun í stærðfræði, skuli vera hallir undir hamfarahlýnunarkenningu SÞ.  Eftir höfðinu dansa limirnir var löngum sagt. 

Prófessor Helgi telur ósannað, að hækkun koltvíildis í andrúmslofti stafi af athöfnum manna, en hann telur freistandi að draga þá ályktun.  Hins vegar veldur eldsneytisbruni ekki hlýnun andrúmsloftts. Það er ekki vegna þess, að gróðurhúsaáhrif koltvíildis séu ekki fyrir hendi, heldur vegna þess, að geislun varma út í geiminn eykst að sama skapi.

"Árangur tímaraðalíkananna stóð fyrir sínu og sýndi fram á ýkjukenndar væntingar manna um nytsemi mikils gagnamagns og flókinna líkana.  Eftir 1980 fer í gang sáttaferli, sem birtist með Nóbelsverðlaunahöfum eins og Granger og Sims (hagfræðingar hafa oft fengið verðlaun fyrir tölfræðiaðferðir).  Í hagrannsóknum nútímans hefur tímaraðafræðin sjálfsagðan sess.  Hagrannsóknarmaðurinn T.C. Mills (hefur skrifað margar kennslubækur um hagrannsóknir) telur, að hugsanlega séu loftslagsvísindin á sama stað og hagfræðin var fyrir 50 árum.  Hann segir: A new climate war brewing: forecasting versus modeling.  Hann nefnir, að hagfræðingar hafi þróað með sér heilbrigðan efa um nytsemi eigin líkana."

IPCC hefur nokkuð gumað af loftslagslíkani sínu, sem mun vera samsuða úr nokkrum líkönum mismunandi landa.  Líkanið er þó ekki betra en það, að stöðugt þarf að laga það að raunhitastigi á jörðunni.  Spágildi þess er með öðrum orðum lítið.  Meginskekkjan er fólgin í því, að endurkast varmageislunar út í geiminn er í líkaninu aðeins helmingur þess, sem er í raunveruleikanum.  Þess vegna birtir IPCC allt of háa hitastigsspá.  Tímaraðir Helga Tómassonar sýna nánast enga tilhneigingu til hlýnunar, eftir að koltvíildisstyrkur andrúmslofts tók að aukast hratt.

 "Á COP 28 koma saman olíuframleiðendur og -kaupendur.  Eflaust verður þar lagður grunnur að ýmsum olíusamningum, vopnasamningum og vonandi friðarsamningum.  Þetta er [aðallega] pólitísk viðskiptaráðstefna.  Allt tal um útfösun jarðefnaeldsneytis er ótímabært, þegar stærðargráðurnar í orkunotkun eru skoðaðar.  Þó [að] ég sé sammála olíufurstanum, vildi ég síður vera honum háður í orkumálum (né Pútín, Írönum og hinum).  Núverandi olíusvæði einkennast mörg af stjórnarfarslegum óstöðugleika.  Þessi óstöðugleiki kallar á nýja valkosti, í Svíþjóð á kjarnorku, á Íslandi virkjun fallvatna, jarðhita o.fl.  Hagfræðin segir, að olíufurstar muni reyna að stýra verðinu, þannig að valkostir verði ekki hagkvæmir. Selt magn er háð verði.  Það er víða neyðarástand, t.d. styrjaldir og mengun í borgum, en það er ekki neyðarástand vegna þróunar og breytileika hitastigs.  Í bók sinni Grænu fötin keisarans rekur danski rithöfundurinn Jens Robdrup (2015), hvernig loftslagsumræða nútímans hefur á sér yfirbragð ofsatrúar með tilheyrandi rétttrúnaði og bannfæringum.  Fólk þarf að skilja stærðargráður, og þar er menntun í lestri og stærðfræði grundvallaratriði."  

Þannig lauk frábærri grein.  Höfundur þessa pistils hefur tekið eftir vaxandi notkun á orðskrípinu "útfösun".  Í málinu er fallegt orð "samfösun" notað um að stilla saman strengi.  Þegar tengja á saman 2 riðstraumskerfi, má það aðeins gerast á því andartaki, þegar kerfin "eru í fasa", þ.e. augnabliksspenna hvers fasa er jöfn.  Annars verður skammhlaup yfir samtengirofann og útleysing, ef allt er með felldu. Þessi gerð samtenginga raforkukerfa kallast "samfösun".  

Útfösun jarðefnaeldsneytis er nú notað um að stöðva notkun og framleiðslu þess á ákveðnu tímabili, m.ö.o. afnám þess í áföngum. Útfösun er óþarft orðskrípi.  Það er hárrétt hjá prófessor Helga, að afnám 80 % af orkunotkun jarðarbúa er óraunhæft í fyrirsjáanlegri framtíð.  Til að losna undan verðstýringu sjeikanna á olíuvörum með hringamyndun þeirra (kartell), sem hafa með sér samráð um framleiðslumagnið, og til að draga úr loftmengun, er góð ástæða fyrir Vesturlönd að draga úr olíuviðskiptum, þegar tækniþróun leyfir.  Að skjóta sig í fótinn með refsigjöldum á sjálfan sig, ef losun er yfir mörkum, sem ákveðin eru út í loftið, er alger óþarfi.  Nú þarf að fara að snúa ofan af vitleysunni.     

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Kolefnistrúarmenn hlusta ekki á rök, og þeim er sama um staðreyndir.

Þeir vilja peningana þína, og að þú deyir.

Ásgrímur Hartmannsson, 21.12.2023 kl. 20:04

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Deyir úr hræðslu ?  Það er ekkert að marka ofstækið.  Það hefur líklega alltaf verið á dögum fólk, sem heldur, að endalokin séu skammt undan vegna synda mannanna.  

Bjarni Jónsson, 23.12.2023 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband