Virkjanir fallvatna og jarðgufu eru í þágu almannahags

Það eru viðtekin sannindi í hagfræðinni, að vaxandi orkunotkun, sérstaklega á orku úr innlendum orkulindum (sparar innflutning eldsneytis), eykur hagvöxt, og hið öndverða gildir einnig, að orkuskortur dregur úr hagvexti og getur valdið samdrætti í efnahagslífinu, ef hann er stækur. Þess vegna mun núverandi og fyrirsjáanleg ömurleg staða virkjana og flutningsmála raforku til 2028 hafa mikil áhrif á getu atvinnulífsins til að standa undir launahækkunum í komandi kjarasamningum.  Þess vegna er það undarlegt, en eftir öðru þar á bæ, að verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa mótmælt núverandi stöðnun og óstjórn orkumálanna harðlega.  Hvað dvelur orminn langa ?

Morgunblaðið ræddi 9.12.2023 samhengi orkunotkunar á mann við hagvöxt og lífskjör við þekktan hagfræðing undir fyrirsögninni:

"Skerðir svigrúm til launahækkana":

"Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir orkuskort geta skert svigrúm til launahækkana.  Nýir kjarasamningar gilda frá 1. febrúar [2024].  Spurður í hvaða atvinnugreinum helzt, ef þá nokrum, svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum, segir Jón Bjarki, að almennt sé svigrúm til hækkana nú takmarkað eftir umtalsverða hækkun kostnaðar í rekstri fyrirtækja að jafnaði.  

"Mér sýnist t.d. blasa við, að ekki hafi verið innistæða fyrir þeim ríflegu launahækkunum, sem samið var um fyrir ári og þær hafi átt sinn þátt í, hversu verðbólga er þrálát hér á landi", segir Jón Bjarki."

Þegar farið er fram með kröfugerð í kjarasamningalotu að óathuguðu máli um afleiðingar slíkra launakrafna á hagkerfið, þá væri það slembilukka, ef ekki hrikti í stoðum hagkerfisins, t.d. undan verðbólguþrýstingi.  Það urðu talsverðar verðhækkanir erlendis á árinu líka, en það er áreiðanlegt, að hluti vaxtahækkana ársins 2023 stafar af afleitu vinnulagi verkalýðsleiðtoga við samningaborðið með vinnuveitendum, sem kenna má við gösslaragang. 

Nú ætla þeir í orði að söðla um, en koma þá með fáranlega kröfugerð á hið opinbera, sem er ekki viðsemjandi þeirra, sem talin er munu kosta ríkissjóð allt að 30 mrdISK/ár.  Það er einfeldningsháttur að halda, að þessum kostnaði verði sópað undir teppið. Aukinn hallarekstur ríkissjóðs (þessi ríkisstjórn mun ekki lækka önnur útgjöld á móti) mun valda efnahagsþenslu, og aftur eru þá verkalýðsrekendur valdir að hertri þumalskrúfu peningastefnunefndar Seðlabankans.  Skattahækkun er hin leiðin til að mæta þessum fíflagangi verkalýðsrekenda.  Lendi hún á fyrirtækjunum, mun hún við núverandi aðstæður fara út í verðlagið.  Lendi hún á launþegum, eru skjólstæðingar verkalýðsrekenda engu bættari.  Þessi skollaleikur verkalýðsrekenda með ríkisútgjöld, sem eru alls ekki á þeirra könnu, heldur þjóðkjörins Alþingis, minnir á sögu Münchausen, þegar hann skrökvaði því að lýðnum, að sér hefði tekizt hið ómögulega; að toga sig upp á hárinu.   

""Það er held ég borðleggjandi, að ört vaxandi orkuframboð hér á landi síðustu öldina eða svo á stóran þátt í myndarlegum hagvexti og vaxandi velmegun á tímabilinu.  Þetta samband er líka vel þekkt í fræðunum á alþjóðavísu, og sér í lagi hefur verið sýnt fram á, að aukin notkun endurnýjanlegrar orku tengist hagvexti.  

Góðu heilli hefur undanfarin ár áherzlan farið vaxandi á betri nýtingu orku, ekki síður en aukna framleiðslu. Við stöndum hins vegar fammi fyrir því að reiða okkur í mun ríkari mæli á endurnýjanlega orku í geirum á borð við samgöngur og sjávarútveg en verið hefur, og tíminn fyrir þá umbreytingu er knappur.  Það dugar því ekki til að nýta fyrirliggjandi orku betur, heldur þarf að mínu mati að auka framboð endurnýjanlegrar orku hér á landi umtalsvert, ef bæði markmiðin eiga að nást: að viðhalda og bæta lífskjör í landinu og ná fam kolefnishlutleysi á komandi áratugum"."

Þetta er í aðalatriðum rétt, en ekki er öll sagan sögð.  Orka úr endurnýjanlegum orkulindum veldur ekki meiri hagvexti en hin, nema hún sé ódýrari á orkueiningu að teknu tilliti til nýtni, nema hún spari innflutning á jarðefnaeldsneyti.  Á móti kemur tímabundinn erlendur kostnaður vegna tækjakaupa og lántöku. 

Áherzla á minni orkutöp er meiri í orði en á borði á rafmagnssviðinu.  Þar er þó eftir miklu að slægjast, en regluverkið í landinu fyrir flutningslínur færir sérlunduðum minnihlutahópum tækifæri upp í hendurnar til að þvælast fyrir nýjum 220 kV línum á milli landshluta út í það óendanlega. Ef nú væri 220 kV lína í rekstri á milli Austurlands og Vesturlands, þá væri enginn orkuskortur á landinu um þessar mundir og gruggugt vatn hefði ekki truflað laxveiðimenn við veiðar í bergvatnsánni, sem nú rennur í farvegi foraðsins Jöklu. 

""Getur atvinnulífið farið betur með orkuna og þannig skilað sömu arðsemi og þar með skilað því til launþega [spyr Morgunblaðið] ?"

"Til lengri tíma er það bæði ákjósanlegt og nauðsynlegt að ná fram sífellt betri nýtingu orku, þ.e. meiri verðmætasköpun fyrir hverja einingu orkunotkunar.  Það er hins vegar varla raunhæft að gera ráð fyrir, að slík þróun dugi til að viðhlda þeim hagvexti og þar með bættum lífskjörum í landinu, sem verið hefur undanfarna áratugi og flestir vilja trúlega stefna að áfram.""

 

Spurningin er skrýtin (röng).  Ef atvinnulífið bætir orkunýtni sína, eykst arðsemin venjulega, en það er þó ekki fyrirfram gefið vegna fjárfestinganna, sem bætt orkunýtni útheimtir að jafnaði.  Það er svo síður en svo sjálfgefið, að launþegar eigi að hirða allan ávinninginn.  Fjármagnseigandinn á rétt á umbuninni fyir að leggja í fjárfestinguna, en hafi launþegarnir lagt eitthvað að mörkum, eiga þeir rétt á umbun líka.

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband