Ríkisbúskapur í hönk

Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar.  Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum.  Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.  

Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð.  Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu.  Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:

"Þörf áminning".

"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi.  Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi.  Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""

Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  

Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð.  Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist.  Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. 

Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði.  Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt.  Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns.  Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum.  Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga.  Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.   

Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.

"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu.  Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar.  Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum.  Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""

Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum.  Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital".  Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á.  "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.  

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Held að ég sé ekki sammála því að landbúnaður hafi eflst á undanförnum árum. Sérstaklega fjárbúskapurinn. Hann hefur líka verið rekinn með ríkisstyrkjum eins og í öðrum löndum og lítil hvatning til að gera betur. Flest búin eru lítil og óhagkvæm. Þau þurfa að vera miklu stærri og nýta tæknina betur til að hlutirnir gangi. Myndi ætla að keyra niður ríkisstyrkina á einhverju árabili eða áratugum myndi skila sér í betri afkomi bænda og ódýrari og betri vörum til neytenda.

Jósef Smári Ásmundsson, 2.2.2024 kl. 13:10

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er rétt hjá þér, Jósef Smári, þegar á heildina er litið.  Ég var með í huga vaxtarsprotana, sem nú hafa skotið rótum og eru afar áhugaverðir.  

Bjarni Jónsson, 2.2.2024 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband