Er kolefnisbinding í bergi fýsileg ?

Carbfix hefur stundað niðurdælingu á uppleystum gastegundum í vatni við Hellisheiðarvirkjun.  Tekizt hefur að draga úr mengun af völdum hinnar ætandi gastegundar H2S, sem er þarfur gjörningur.  Meiri áhöld eru um að festa stórfelldar fjárhæðir í bindingu CO2, koltvíildis, í jarðlögum í Straumsvík á vegum Carbfix, og fyrirtækið undirbýr nú móttöku- og geymslustöð fyrir CO2 þar, s.k. Coda Terminal. Viðskiptahugmyndin er, að útlendingar sendi gasflutningaskip frá sér til Straumsvíkur.  Þar verði því dælt í geymslurými, gasið leyst upp í vatni og síðan dælt niður í bergið.

  Ef tekið er mið af Morgunblaðsviðtali við fjölfræðinginn David Friedman, sem lagt var út af í síðasta pistli á þessum vef, "Margt er orðum aukið um loftslagsbreytingarnar", er engin glóra í þessari hugmynd, hún er "futile" eða gagnslaus, af því að afleiðingar hlýnunar verða ekki sérlega alvarlegar og kostnaður við mótvægisaðgerðir viðráðanlegar.  Það er hins vegar ein lykilbreyta á markaði, sem öllu máli skiptir fyrir arðsemi þessa verkefnis, og hún er verðið á markaði fyrir koltvíildisheimildir í EUR/t CO2.  Ef kostnaður við að einangra CO2, flytja það til Coda Terminal og kostnaðurinn við bundið fé í Coda Terminal ásamt upplausn gassins og niðurdælingu, er hærri en þessi markaðsbreyta, þá verður tap á þessari starfsemi og betur heima setið en af stað farið.  Fjárfestingar eru miklar, orkuþörf mikil og vatnsþörf mikil og það er dýrt að ná CO2 út úr efnaferli verksmiðja.  Þess vegna er augljós fjárhagsleg áhætta á ferðum, sem minnkar þó eitthvað, ef styrkveitingar úr vösum skattborgara fást, en hversu siðlegt er það ?

Þann 2. maí 2024 birtist í Morgunblaðinu grein eftir 2 höfunda, sem ætla má, að viti mest um þessi mál, en þar var þó ekkert minnzt á auðlindaþörfina (vatn, rafmagn) á hvert t koltvíildis, sem sent hefur verið niður í iður jarðar, né áætlaðan kostnað við það.  Þetta er galli á annars góðri grein höfundanna Eddu Sif Pind Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix, og Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, yfirvísindakonu Carbfix.  Greinin bar yfirskriftina: 

"Raunverulegar loftslagsaðgerðir í hlýnandi heimi".

Þar stóð þetta m.a.:

"Jafnvel þótt hraði hlýnunar haldist óbreyttur, er aðeins tímaspursmál, hvenær við þurfum að takast á við afleiðingarnar af fullum þunga.  [Afleiðingarnar eru óvissar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en virðast verða tiltölulega auðveldar viðfangs á Íslandi, sbr David Friedman - innsk. BJo.]

Hlýnun jarðar heldur áfram.  Viðbrögðin við þessari stærstu ógn samtímans [!?] eru hins vegar ekki í neinum takti við alvarleikann.  [Coda Terminal á að taka til starfa á fullum afköstum árið 2032, sem eru áætluð allt að 3 Mt/ár CO2.  Um þessa niðurdælingu munar ekkert, þ.e. engin mælanleg áhrif á hlýnun jarðar - innsk. BJo.] 

Á meðan hitametin falla, er losun Íslands á koldíoxíði  (CO2) enn að aukast, þvert á öll markmið, og losun á hvern íbúa með því mesta, sem gerist í heiminum."  

Þetta er villandi framsetning, sem setur Ísland í verra ljós en efni standa til.  Ísland er strjálbýl eyja með háa landsframleiðslu á mann, og miklar fiskveiðar eru stundaðar við landið.  Af þessu leiðir tiltölulega mikla jarðefnaeldsneytisnotkun, en hún er þó með tiltölulega hárri nýtni í alþjóðlegum samanburði.  Stóriðjan (málmframleiðslan) í landinu sparar losun á meira en 12 Mt/ár af koltvíildi út í andrúmsloftið, sem eru ferföld áætluð hámarksafköst hjá stöllunum í Straumsvík.  Til hvers eru þær með þennan málflutning ?

"Lausnin við [svo ?] loftslagsvánni er til: Hún felst m.a. í því að beita fjölmörgum lausnum, sem allar miða að því að koma í veg fyrir losun milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundum, aðallega CO2, út í lofthjúpinn.  Til að sporna við þessari hamfarahlýnun þurfum við að breyta okkar neyzlumynztri. [David Friedmann segir tal um hamfarahlýnun af mannavöldum vera "þvætting".  Það er skrýtið af stöllunum að skipa sér í slíkan hóp - innsk. BJo.]
Orkuskipti vega þar þyngst, auk bættrar orkunýtni, enda er stærsti orsakavaldur loftslagsbreytinga gríðarlegur bruni jarðefnaeldsneytis, en auk þess þarf að fanga, binda og hagnýta CO2 og bæta landnýtingu.  Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð, nema með umfangsmiklum aðgerðum og samstarfi þvert á landamæri."
Mikilvægasta framlag Íslands núna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda væri að virkja fleiri vatnsföll og meira í sömu á, þar sem þess er kostur, og meiri jarðgufu, en alger doði ríkir á þessu framfarasviði um þessar mundir.  Ástæðan fyrir aukningu losunar undanfarið er raforkuskortur í landinu, en afturhaldið lemur hausnum við steininn og viðurkennir engan raforkuskort.  Það sýnir við hvílíka hrímþursa er að eiga.  Þegar þursaflokkurinn missti forsætisráðherrann yfir í forsetaframboð, var mynduð ný ríkisstjórn, sem setti 3 mál á oddinn, þ.á.m. orkumálin.  Ef enn fæðist bara lítil mús, verða margir vonsviknir.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Sem aðferð til þess að næla sér í kolefnispeninga er þetta afar fýsilegt.

Sem aðferð til einhvers annars er þetta bara alger sóun á auðlindum.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.5.2024 kl. 18:13

2 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll síðuhöfundur.

Þetta er sama bábyljan, við í skítamálum en losuðum okkur við bleyjuna í Marshallaðstoðinni. Það vill greinilega enginn vita það í dag. En varðandi skip, veiðar og allt sem því kemur er ljóst að hægt er að gera betur og það er gert í fiskveiðum. EN aftur, eitt skemmtiferðaskip tekur nú eins og gott þorp með bílum og öllu á heilu ári. Hvað er að frétta þar á bæ? Prump okkar er skattlagt en hitt þjóðfélagið (c.a. þrisvar heimafólkið)? Eigum við bara að skeina og brosa?

Sindri Karl Sigurðsson, 19.5.2024 kl. 20:30

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er þarft að fjalla um þessi mál, en persónulega tel ég ekki mikla framtíð í því að "grafa" CO2 i jörð.  Ég tel að þeir verði ofan á sem koma til með að ná að búa til verðmæti úr þessari "hötuðu" lofttegund, sem er þó svo mikilvæg lífinu.

Annað Íslenskt fyrirtæki CRI (Carbon Recycling International) er að ég hygg að rökréttari braut, býr til eldsneyti úr útblæstri.  https://vb.is/frettir/reisa-verksmidju-i-kina-fyrir-10-milljarda/

Aðrir telja sig geta búið til demanta úr CO2 ..  https://www.scientificamerican.com/article/modern-alchemists-turn-airborne-co2-into-diamonds/ og svo eru ýmis önnur not s.s. að dæla beint eða óbeint co2 inn í risastór gróðurhús og svo framvegis.  Við erum næsta víst ekki búin að sjá síðustu hugmyndina hvað þetta varðar.

Ég yrði ekki hissa þó að það kæmi að því að setja yrði kvóta um hvað mikið af CO2 má taka út úr andrúmsloftinu....  :-)  Og alls ekki nota það í vitleysu.

G. Tómas Gunnarsson, 20.5.2024 kl. 19:55

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þó að að vísindin séu góð, þá hef ég ekki trú á því að "grafa" CO2 í jörðu sé framtíðarlausn.  Ég hef miklu meiri trú á þeim sem ná að búa til vöru úr lofttegundinni, sbr:  https://vb.is/frettir/reisa-verksmidju-i-kina-fyrir-10-milljarda/  En þar er á ferð annað Íslenskt fyrirtæki sem framleiðir eldsneyti úr CO2.  Aðrir telja sig geta búið til demanta úr "loftinu" https://www.scientificamerican.com/article/modern-alchemists-turn-airborne-co2-into-diamonds/

Fjölmargar aðrar lausnir eiga líklega eftir að koma fram og t.d. er þörf á því að dælka CO2 inn í gróðurhús beint eða óbeint.  Þau eiga mjög líklega eftir að stækka og fjölga.

Ekki yrði ég hissa ef í framtíðinni yrði settur á kvóti um hvað heimilt yrði að taka mikið af CO2 úr andrúmsloftinu  : -)   En þeir verða að mínu mati ofan á sem koma með lausnir sem búa til verðmæti.

G. Tómas Gunnarsson, 20.5.2024 kl. 20:27

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ásgrímur;

Sammála þér.  Ég hef ætíð haft efasemdir um skynsemina í því að dæla uppleystu CO2 niður í berglög, og ég er alls ekki sannfærður um arðsemi þessa verkefnis í Straumsvík. 

Bjarni Jónsson, 21.5.2024 kl. 16:59

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er hræddur um, að Marshallaðstoðina hefði mátt nýta miklu betur til framfara þjóðarinnar en raunin varð á.  Norðmenn hafa sett stífar kröfur á skemmtiferðaskip um minnkun losunar, en hér er losarabragur á því.  Hvers vegna ?  Vanþekking ?  Doði ?  Græðgi ?

Bjarni Jónsson, 21.5.2024 kl. 17:09

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

G. Tómas Gunnarsson: ég er sammála þér.  Það er dýrt að draga CO2 út úr andrúmsloftinu vegna afar lítils styrkleika þess þar.  Líklega ódýrara úr kerreyk vegna hærri styrks þar.  Þegar kominn er geymir með CO2, er auðlind þar, sem hægt er að breyta í matjurtir, eldsneyti fyrir sprengihreyfla eða eitthvað annað.  Í ljósi þessa skýtur skökku við að kosta stórfé til að farga lofttegundinni.  

Bjarni Jónsson, 21.5.2024 kl. 17:17

8 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll Bjarni.

Það má ekki gleyma því að það er ekki hægt að farga þessari lofttegund, eingöngu breyta sambandi hennar við önnur efni. Ég myndi veðja á trjárækt til að binda koltvíoxið, það má velja trjátegundir sem vaxa í þúsundir ára til þess. Umræðan er á villigötum.

Sindri Karl Sigurðsson, 21.5.2024 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband