29.5.2024 | 17:42
Sérstaða Vestfirðinga í orkumálum
Vestfirðingar njóta ekki teljandi jarðhita og eru þess vegna nánast alfarið háðir raforku á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda landsins. Þetta er svipuð staða og Austfirðingar búa við, en mismunurinn er sá, að hinir síðarnefndu búa við öfluga vatnsaflsvirkjun, 690 MW, og hringtengingu við stofnkerfi landsins.
Núverandi aflþörf Vestfirðinga er a.m.k. 44 MW og vex hratt. Vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum gefa nú 21 MW afl, þegar bezt lætur. Þá vantar 23 MW um vetrartímann, þegar veður mæða mest á Vesturlínu, og hún lætur oft undan. Það er gjörsamlega óviðunandi, hversu oft á ári íbúar og gestir Vestfjarða þurfa að sitja í myrkrinu. Alþingismenn vita þetta. Sumir kæra sig kollótta, og hinir láta orðin tóm duga. Þetta er óskiljanlegt ábyrgðarleysi.
Þann 4. maí 2024 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Orkuskortur hrjáir Vestfirðinga".
"Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti, sem fannst á Drangsnesi, sem ætlað er, að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum. Orkusjóður greiddi tæpar MISK 20 í styrk til jarðhitaátaksins þar, þess fyrsta á öldinni."
Doði í jarðhitaleitinni er dæmi um það algera fyrirhyggjuleysi, sem ríkir í orkumálunum. Orkustofnun ætti auðvitað að vera í fararbroddi við að leggja drögin að orkuöflun með rannsóknum, þótt orkufyrirtækin sjái um virkjunarstig og rekstur. Orkustofnun virðist ekki vera þannig mönnuð, að hún sé í stakk búin til að sýna merkilegt tæknilegt frumkvæði. Æðsti koppur þar hefur ekki meiri áhuga á starfinu en svo, að hún flúði í forsetaframboð, þar sem hún dreifði um sig frösum og froðusnakki. Henni virðast vera mislagðar stjórnunarhendur, því að framboði hennar hafa orðið á 2 fingurbrjótar. Það er allt á sömu bókina lært. Almennilegar hugsjónir og verklega þekkingu vantar. Samt þenur Orkusetur, sem er á snærum Orkustofnunar, sig yfir því, að orkuskiptin skuli hafa staðnað. Það er ekki hægt í raunheimum að geyma kökuna og éta hana.
"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í nýtingarflokki rammaáætlunar eiga talsvert í land, en þar er einkum horft til Hvalárvirkjunar, sem samþykkt var í öðrum áfanga rammaáætlunar árið 2013, og Austurgilsvirkjunar, sem samþykkt var í 3. áfanga 2022. Þó eru horfur á, að úr rætist með Hvalárvirkjun á næstu árum, en HS Orka vinnur að undirbúningi virkjunarinnar og stefnir að því að sinna skipulagsmálum og verkfræðivinnu á þessu ári [2024]. "Vonandi getum við hafið framkvæmdir í lok næsta árs", segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við Morgunblaðið. Gangi það eftir, gæti orkuframleiðsla hafizt árið 2029."
Vonandi ganga þessi áform eftir, því að hvorki Vestfirðingar né aðrir landsmenn mega við frekari töfum á verkefnum, sem uppræta munu þá ósvinnu að þurfa að brenna olíu á Íslandi til að framleiða rafmagn eða heitt vatn. Kostnaðurinn af þessu er þó aðeins brot af tekjutapinu, sem hlotizt hefur af glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar. Þá eru 2030 - markmiðin um losun gróðurhúsalofttegunda gjörsamlega komin í vaskinn, og mun það ástand skapa þjóðinni gríðarlegan kostnað, sem skrifa verður á kostnað hégómagirni forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.
"Á meðan þannig háttar til, að Orkubú Vestfjarða sætir skerðingum frá Landsvirkjun, er fyrirtækið nauðbeygt til að framleiða rafmagn með með dísilolíu með tilheyrandi taprekstri."
Þetta er mótsögn aldarinnar. Silkihúfur státa af "hreinni" orku Íslands, en það má helzt ekki virkja hana til að efla velsæld í landinu og draga úr losun koltvíildis. Hvers konar sálarháski og meinlokur eru hér eiginlega á ferðinni ? Hér hefur angi sjálfseyðingarhvatar náð undirtökunum með mjög alvarlegum fjárhagslegum, umhverfislegum og félagslegum afleiðingum. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur það ekki einvörðungu á sínum svarta lista að hafa saltað umsókn Hvals hf um veiðileyfi á tilgreindum hvölum ofan í skúffu í matvælaráðuneytinu, þegar hún var þar í vetur, heldur beitti hún sér þannig sem forsætisráðherra, að hún hefur kallað stórfelldan orkuskort yfir þjóðina með viðeigandi hörmungum. Að verðlauna hana síðan sem yfirsilkihúfu Íslands á Bessastöðum væri eftir annarri dauðans dellu og er ekki einu sinni fyndið.
"Á vegum Landsnets er unnið að undirbúningi tengipunkts í Ísafjarðardjúpi um hvern raforku frá Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun verður miðlað, þegar þar að kemur, og áformar Landsnet, að tengingar verði tilbúnar, þegar þeirra verður þörf, en sú dagsetning er eðlilega óviss, enda framkvæmdir við hvoruga virkjunina hafnar."
Þetta eru góð tíðindi af Landsneti og rós í hnappagat þeirra, sem nú stjórna þar áætlanagerð. Hvernig áformað er að flytja orkuna til álagspunktsins Ísafjarðar, verður spennandi að sjá.
"Þá hefur Orkubú Vestfjarða farið þess á leit við Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aflétt verði friðlýsingarskilmálum á afmörkuðu svæði innan friðlandsins í Vatnsfirði, svo [að] unnt verði að undirbúa þar umhverfismat á 20-30 MW virkjun. Erindið er til skoðunar í ráðuneytinu. "Þetta er gott dæmi um, hvernig ástandið er á Íslandi. Þegar verkefni eru vanrækt í 15-20 ár, er engin töfralausn til", segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
"Það er í forgangi hjá okkur að leysa úr þessum málum, og við munum halda áfram að vinna að lausn þeirra með Vestfirðingum, því [að] ástandið er mjög alvarlegt. Það er hægt að leysa það, en þá þurfa allir að leggjast á eitt, sveitarfélög, orkufyrirtæki og stjórnvöld", segir Guðlaugur Þór."
Það er kominn tími til, að þessi ráðherra láti hendur standa fram úr ermum í stað þess að draga lappirnar gagnvart Vestfirðingum og bulla um, að ekkert hafi verið gert í 15-20 ár eða síðan 2004. Nær væri að segja, að engum stórum orkuframkvæmdum hafi verið hleypt af stokkunum í tíð hans sem orkuráðherra. Hins vegar komu 3 umtalsverðar virkjanir í gagnið á öðrum áratuginum, og nægir að nefna þar Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfell 2.
Það er skrýtið, að ekkert skuli heyrast af beiðni Orkubúsins til ráðherrans um Vatnsfjörðinn. Það er lítilmannlegt, ef ráðherra ætlar að skýla sér á bak við neikvæða umsögn eins sveitarfélags, sem tæplega á mestra hagsmuna að gæta í þessu máli.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.