Rotið ráðhús í boði Samfylkingar

Nýr formaður Samfylkingar fer mikinn í því skyni að búa til ímynd jafnaðarflokks með kjörþokka, en Samfylkingin féll ekki af himnum ofan.  Hún er með hugmyndafræðileg og persónuleg lík í lestinni, sem nýr formaður hefur ekki losað sig við.  Því fer fjarri, að æðstu fulltrúar flokksins vinni af einlægni að bættum hag almennings.  Flokkurinn hefur tekið ábyrgð á borgarstjóranum fyrrverandi, Degi B. Eggertssyni, og ekki fett út í ámælisverð vinnubrögð hans, en það hefur aftur á móti fyrrverandi borgarstjóri séð ástæðu til að gera í fjölmiðli, sem hann ritstýrir.  

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 10.05.2024 bar fyrirsögnina:

"Ráðhúsinu breytt í spillingarbæli ?"

Þar var fáheyrður gjafagjörningur borgarinnar til handa olíufélögum, sem láta af sölu jarðefnaeldsneytis á tilteknum lóðum í borginni, gerður að umfjöllunarefni, og birtist þar í hnotskurn spillingareðli jafnaðarmannaflokksins, sem af hræsni reynir að breiða yfir sitt rétta eðli með orðskrúði:

"En samningarnir við þessi félög [olíufélögin] byggðust allir á því, að myndu olíufélögin láta af þeim rekstri, gengju lóðirnar til borgarinnar á ný og hún gæti skipulagt þær að sínum hentugleikum og úthlutað eftir eðlilega samkeppni.  Í Morgunblaðinu hefur margoft verið á það bent, að þessi mál hafi þróazt illa og bragðarefir beggja vegna borðs ákveðið að koma málinu í farveg, sem algjörlega væri sniðinn að persónulegum hagsmunum þeirra félaga, sem bar að skila lóðunum til borgarinnar á ný, þegar eldsneytisstarfsemi þeirra væri úr sögunni.  Stórundarleg væri sú framganga Dags B. Eggertssonar að koma þessu vonda máli "í gegn" og troða því niður kok borgarbúa í fullkomnu heimildarleysi." 

Það er grafalvarlegt spillingareinkenni á fyrrverandi borgarstjóra og samverkamanna hans og í raun á Samfylkingunni, hverrar formaður lætur þessa ósvinnu viðgangast í höfuðborginni, að færa gróðapungum eign borgarbúa á silfurfati gjörsamlega að þarflausu viðskiptalega og lagalega séð. Þetta verður bautasteinninn yfir ráðsmennsku Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Flokkurinn ætti ekki að eiga sér viðreisnar von í borginni eftir þetta baktjaldamakk við peningapúka á kostnað borgarbúa.  Þetta er jafnaðarstefnan í reynd.  Þess vegna flæðir alls staðar í heiminum undan henni. 

"Kerfið, sem þáverandi borgarstjóri lét klambra saman í kringum tilbúning þessa máls, er algerlega óþekkt í borgarkerfinu, þótt einstök dæmi séu til um slíka aðgerð í þinginu [á dögum vinstri stjórnar Samfylkingar og VG - innsk. BJo], en þau lúta öðrum lögmálum.  Hér var allt byggt á því, að koma þyrfti tugum milljarða [ISK] frá borgarbúum til gæðinga og með hinni skrítnu aðferð.  Sett var upp lokað herbergi, sem borgarfulltrúar gátu farið inn í einir (!) og án þess, að neinar upplýsingar væru veittar, eða þeir fengju að bera sig saman við sína samstarfsmenn.  Minnihlutinn átti þannig ekki nokkur tök á því að ræða þetta mikla mál í sínum ranni.  Og engin rök lágu til þessara undarlegheita."

 Þessi ólýðræðislegu vinnubrögð eru kennimörk jafnaðarmanna og annarra sameignarsinna, sem hvorki skilja né virða grundvallaratriði lýðræðisins, og við slíkar aðstæður skýtur alltaf óhugnanlegum krumlum Leníns og Stalíns upp á yfirborðið.  Jafnaðarmenn játast lýðræðinu aðeins af illri nauðsyn á yfirborðinu.  Annars gildir bara hið sama og hjá löglausum einræðisherrum: "Tilgangurinn helgar meðalið".  (Der Erfolg berechtigt das Mittel.) 

Það er óskiljanlegt, að minnihluti borgarstjórnar skyldi láta beita sig þessum fantatökum.  Þetta mál hefði átt að fara til sveitarstjórnaráðuneytisins og til dómstóla.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins dregur reyndar ekkert undan og af uppljóstruninni má álykta, að víðar þurfi að hreinsa til og lofta út.  Sérhagsmunagæzla af þessu tagi er dauðasök í pólitík:

 "Það sárgrætilega var svo til viðbótar, að leiðtogi stærsta minnihlutaflokksins í borgarstjórn tók þátt í því að leiða málið hjá sér, en greiða atkvæði sitt með því á lokapunkti.  Ekki verður séð, að nein önnur skýring sé á svo óábyrgri hegðun en eiginmaður leiðtogans sé sérstakur sendiboði og hlaupastrákur Jóns Ásgeirs Jóhnnessonar, eins af stóru þiggjendunum í þessu sóðalega svindli.  Öllum öðrum borgarfulltrúum var vorkunn, þótt þeim fipaðist, enda refirnir til þess skornir, að hver og einn þeirra gæti ekki rætt þetta mikla mál í sínum hópi, nema eftir minni úr stuttu stoppi í "leyniherberginu". 

 Sjálfstæðisflokkurinn glataði þarna gullnu tækifæri til að sýna kjósendum, að hann hefði burði til að leiða nauðsynlega siðbót í borgarstjórn eftir áralangt sukk Samfylkingar við kjötkatlana.  

Leiðtogi borgaralegs flokks, sem vill sýna, að í honum sé einhver veigur, en tekur þátt í "sóðalegu svindli" á kostnað skattborgaranna, fremur þar með pólitíska kviðristu og glatar siðferðislegum grundvelli til að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni.  Sá hjalli er nógu erfiður samt. 

""Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV.  María Sigrún, fréttamaður, fékk þá umsögn frá  yfirmanni, að hún væri skjáfríð, en kynni ekki "rannsóknarfréttamennsku", eins og það heitir í Efstaleiti.  Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins.  Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttum megin við lögin.  En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt, sem kom við kaunin á Degi, fyrrum borgarstjóra, og vinstri meirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán, útvarpsstjóri, hefur ekki tjáð sig um meferðina, sem María Sigrún sætir.  Áður en Stefán varð útvarpsstjóri fyrir 4 árum var hann staðgengill Dags, borgarstjóra, og bar titilinn borgarritari.""

Í téðu Reykjavíkurbréfi er ofangreind tilvitnun í Pál Vihjálmsson, bloggara og kennara.  Höfundur þessa pistils hér sá umræddan þátt Maríu Sigrúnar og getur vitnað um, að honum þótti vera um afbragðs fréttamennsku að ræða, og þess vegna er úthúðun einhverra montinna "Kveikjara" út í hött og næg ástæða til, að taka ætti í hnakkadrambið á ófaglegum monthananum.  Ummæli af þessu tagi um samstarfsmann eru með eindæmum ruddaleg og í þessu tilviki út í hött.  Þau ættu því að öðru jöfnu að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir fyrir þann, sem lét sér þau um munn fara, en í ormagryfju fréttastofu RÚV gerist það ekki.  Þetta opinbera hlutafélag er ekki hafið yfir siðræn viðmið.  Það er löngu tímabært að draga verulega úr umsvifum þarna, kostnaði skattborgaranna og vandræðum einkarekinna fjölmiðla vegna risans, sem gín yfir markaðinum.  

  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband