Loftslagsstefnan er kjánaleg óskyggja

Það hefur sáralítill árangur orðið af þeirri stefnu á heimsvísu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda eykst hún enn, þrátt fyrir allt blaðrið og heimsendaspádóma stjórnmálamanna og loftslagspostula.

Fáir hafa verið ötulli við að benda á fánýti þeirrar stefnu, sem rekin er á Vesturlöndum og víðar, en Björn Lomborg.  Hann hefur þó ekki látið þar við sitja, heldur hefur hann bent á leiðir til að aðlaga mannkynið að afleiðingunum til að draga úr tjóninu, og hann hefur líka bent á leið til að stöðva hlýnunina og jafnvel að snúa þróuninni við.  Það gerði hann í góðri grein í Morgunblaðinu 10. júní 2024 undir fyrirsögninni:

"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda".

Hún hófst þannig:

"Loftslagsrannsóknir eru í auknum mæli orðnar pólitískar.  Harvard-háskóli lagði nýlega niður lykilrannsóknarverkefni í jarðverkfræði vegna mikilla neikvæðra viðbragða, þrátt fyrir drauma háskólans um að verða "alþjóðlegt leiðarljós loftslagsbreytinga".

Jarðverkfræði er ein leið mannkyns til að takast á við raunveruleg vandamál loftslagsbreytinga.  Staðalnálgunin, sem flestir í ríka heiminum einbeita sér að, er að reyna að draga úr kolefnislosun og beina fjárfestingum að sólar- og vindorku. 

 Hins vegar er þessi aðferð ótrólega erfið og dýr, vegna þess að jarðefnaeldsneyti knýr enn í raun mestan hluta heimsins.  Þrátt fyrir áratuga pólitískan stuðning við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eykst útblástur enn, og síðasta ár var hann hinn mesti frá upphafi.  

Aftur á móti snýst jarðverkfræði um að draga beint úr hitastigi jarðar.  Ein leiðin er að losa brennisteinsdíoxíð [SO2] út í heiðhvolfið, sem mundi kæla plánetuna.  Það eru nægar vísbendingar um, að þetta virki.  Gjósandi eldfjöll dæla venjulega ögnum inn í heiðhvolfið, þar sem hver ögn endurkastar smásólarljósi aftur út í geiminn.  Árið 1991 kældi eldgosið í Pinatubo-fjalli jörðina um 0,6°C í 18 mánuði."

Loftslagstrúboðið leggst gegn tilraunum með að losa SO2 í heiðhvolfið; ekki vegna umhverfislegrar áhættu, sem tilraunin e.t.v. felur í sér, heldur vegna þess, að þessi lausn felur í sér að hverfa frá kreddum loftslagstrúboðsins um að draga úr losun CO2 og setja upp vindorkuver og sólarorkuver, hvað sem það kostar.  Sýnir þetta, að loftslagstrúboðið hagar sér eins og staðnað trúarsamfélag, þar sem óvísindalega þenkjandi ofstækisfólk ræður ferðinni.  Þess vegna er árangur erfiðisins sorglega lítill, en kostnaðurinn er samt orðinn gríðarlega mikill. 

"Rannsakendurnir í Harvard voru ekki að reyna neitt svo stórfenglegt.  Þeir vildu einfaldlega skjóta upp einum belg, sem mundi losa örlítið magn af svifryki hátt yfir jörðinni.  Tilraun þeirra hefði safnað gögnum um, hvernig agnir dreifast, og hversu miklu sólarljósi þær endurkasti. 

Vegna þess að heiminum hefur hingað til að mestu mistekizt að takast á við loftslagsbreytingar með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, virðist skynsamlegt að rannsaka einnig aðrar aðgerðir, sem gætu tekið á hluta vandans.  Jafnvel Sameinuði þjóðirnar viðurkenndu árið 2019, að "engin raunveruleg breyting hefði orðið á losun á síðasta áratugi".  Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið frá 2015.  Síðan þá hefur losun gróðurhúsalofttegunda haldið áfram að ná nýjum metum og "enginn endir í sjónmáli á vaxandi þróun", samkvæmt nýrri skýrslu frá Alþjóða veðurfræðistofnuninni."  

Aðgerðasinnar á loftslagssviði mótmæltu fyrirhugaðri tilraun Harvard, og pólitíkusar tóku undir vitleysuna, svo að Harvard sá sitt óvænna og hætti við.  Auðvitað kom Greta Thunberg þar við sögu.  Fátt er svo þröngsýnt á jörðu hér, að slái við þröngsýni loftslagstrúboðsins.  Allt er þetta með endemum sorglegt.  Meira vit verður að víkja fyrir minna viti í þessu tilviki. Er jörðinni þá ekki við bjargandi ?

"Þetta eru ekki vísindi, heldur kredda eða trúarbrögð.  Hugmyndin um, að það sé aðeins ein rétt stefna: að minnka kolefnislosun í 0 á stuttum tíma, er fáránleg.  Sérstaklega þegar þessi eina aðferð hefur hvergi virkað.  Sannleikurinn er sá, að jarðverkfræði gæti verið ótrúlega gagnleg nýjung, jafnvel þó að hún feli í sér áhættu. 

Jarðverkfræði er eina mögulega leiðin, sem mannkynið hefur til þessa fundið til að lækka hitastig hratt.  Ef við mundum sjá íshelluna á vesturhluta Suðurskautsins byrja að renna út í hafið, sem væri hörmung á heimsvísu, gæti engin stöðluð jarðefnaeldsneytisstefna hamlað því með nokkrum hætti.  Jafnvel þótt það ómögulega yrði að veruleika, og allar þjóðir minnkuðu losun sína niður í 0 á nokkrum mánuðum, myndi hitastig ekkert lækka, heldur bara hætta að hækka."

Það er til vanza fyrir Sameinuðu þjóðirnar, enda virðist allt vera á sömu bókina lært á þeim bænum, að IPCC, Loftslagsráð SÞ, skyldi ekki taka upp hanzkann fyrir tilraun Harvard og mæla með tilrauninni, sem fyrirhuguð var.  Það eru margir, sem hanga á spenanum og virðast hafa hagsmuni af, að allt hjakki í sama farinu, skýrslur séu samdar og ráðstefnur haldnar um eilífðarmálefni.  Þetta er auðvitað algerlega óábyrg og óvísindaleg afstaða. Hvers vegna ekki að reyna að brjótast út úr sjálfheldunni og gera tilraun í litlum mæli með vænlega tilgátu ? 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er alveg óhemju góður pistill og er ég honum sammála í einu og öllu.......

Jóhann Elíasson, 24.6.2024 kl. 11:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Jóhann.  Það er engu líkara en múgsefjun ráði ferðinni varðandi koltvíildið.  Hvers vegna ekki að feta inn á nýjar brautir frá þessari vonlausu hugmyndafræði um að ná niður hitastigi andrúmslofts jarðar með því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, sbr pistilinn ?

Bjarni Jónsson, 25.6.2024 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband