Stríð í Austur-Evrópu

Grimmdarlegt árásarstríð rússneska sambandsríkisins á hendur sjálfstæðu ríki nágranna þeirra, Úkraínumanna, hefur sýnt heimsbyggðinni fram á ömurlegt eðli rússneskra ráðamanna.  Eldflaugum hefur verið látið rigna yfir borgir Úkraínu og engu eirt, hvorki stærsta barnasjúkrahúsi landsins í Kænugarði né stíflu raforkuvers í suðurhluta landsins. Straumleysi hrjáir íbúa landsins á hverjum degi, og komandi vetur er verulegt áhyggjuefni. Kjarnorkuver í Zaphorizhzhia hefur verið í uppnámi, og hernámsliðið hefur stöðvað rekstur þess.  Á vígvöllunum hefur allt gengið á afturfótunum hjá rússneska hernum, herskipulagið verið lélegt, miklu herliði fórnað fyrir litla landvinninga, og í átökum við úkraínska herinn hefur óhemju magn rússneskra vígtóla verið eyðilagt.  

Vart er hægt að tala um úkraínskan flota, svo að sérstaka athygli hafa vakið ófarir rússneska Svartahafsflotans, en segja má, að hann hafi verið hrakinn frá Krímskaga og til hafna við Azovshaf.  Nýjasta dæmið, þegar þetta er ritað, er um kafbátinn Rostov við Don, sem var nýkominn úr þurrkví í Sevastopol, þegar hann varð fyrir úkraínskri Neptúnus eldflaug og sökk.  

Úkraínumenn hafa sýnt mikið baráttuþrek gegn ofureflinu, hugmyndaauðgi og herkænsku. Leiftursóknin inn í Kúrsk mun komast í sögubækurnar.  T.d. hafa þeir orðið frumkvöðlar í notkun dróna bæði til könnunarferða og árásarferða.  Er skemmst að minnast árásar á herflugvöll í Murmansk, um 1800 km leið frá víglínunni í Úkraínu, þar sem rússneskar sprengjuflugvélar, sem notaðar höfðu verið til árása á Úkraínu, voru eyðilagðar.  

Vestrænir bandamenn Úkraínumanna hafa í orði stutt þá á þeim forsendum, að einræðisherra mætti ekki enn einu sinni takast að leggja undir sig nágranna sinn og þar með að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi.  Í verki hefur þessi stuðningur verið mun minni en efni standa til, og þeir hafa af ótrúlegri ragmennsku bannað notkun vopnanna á rússnesku landi, þrátt fyrir þá staðreynd, að Rússar ráðast bæði á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk í Úkraínu frá rússnesku landi. Undantekning frá þessu eru þó Kúrsk, Belgorod og Bryansk-héruð.  Ef þetta þetta bann væri ekki í gildi, og t.d. Þjóðverjar hefðu látið Úkraínumönnum í té hinar langdrægu Taurus flaugar, þá væri þessu stríði sennilega lokið núna, með því að aðdrættir Rússahers hefðu verið gerðir svo erfiðir, að þá hefði brostið örendið og hörfað yfir landamærin.  Þá hefði og verið unnt að lama rússneska flugherinn í enn meira mæli en gert hefur verið.

Gríðarleg eyðilegging blasir við í Úkraínu, og ríkið rambar á barmi greiðslufalls. 

Það hefur algerlega skort skelegga forystu að hálfu Vesturlanda í baráttunni við heimsvaldastefnu Rússa.  Stjórn Bidens er hálfvolg, Trump er eins og handbendi Pútíns og ólígarka hans, og í forystu öflugasta ríkis Evrópu reyndist vera gúmmíkarl, þar sem er kratinn Olaf Scholz.  Þjóðverjar hafa þó stutt hraustlega við bakið á Úkraínumönnum, og hafa nú látið á sér skilja, að þeir styðji Úkraínumenn til sigurs. Pólverjar eru að taka forystuna í bráttunni við rússneska hernaðarógn uppbyggingu eigin hers varðar, dyggilega studdir af Eystrasaltsríkjunum.

  Það, sem nú er mikilvægast, er að mynda "stálhjálm" yfir Úkraínu, eins og er yfir Ísrael, með fjölgun loftvarnakerfa og með því að hrekja rússneska flugherinn nógu langt frá landamærunum, m.a. með F16 orrustuþotum, svo að loftvarnarkerfin hafi meira svigrúm til að skjóta árásarflaugar niður í tæka tíð. 

Þann 24. júlí 2024 birtist merkileg forystugrein í Morgunblaðinu um þessi mál undir fyrirsögninni:

"Glataðir leiðtogar".

Hún hófst þannig:

"Í liðinni viku [viku 29/2024] komu 45 leiðtogar Evrópuríkja saman til að ræða vanda álfunnar.  Þeir hittust í Blenheim-höll á Englandi, glæstu ættaróðali Winstons Churchills, sem var vel til fundið í ljósi ófriðar í Evrópu og þess, að víðar eru blikur á lofti.  

Mönnum lærðist um síðir að taka mark á varnaðarorðum hans um alræðisöfl Evrópu og keyptu þann lærdóm dýru verði.  En þeir lærðu og á þeim lærdómi Churchills um, að lýðræðisríki yrðu að standa saman gegn ágangi einræðisríkja [og þannig] var Atlantshafsbandalagið stofnað og í raun má segja, að hugmyndin um "Vesturlönd" sé á honum reist. 

Úkraína á í langvinnu og hatrömmu stríði fyrir tilverurétti sínum, en fáum dylst, að lyktir þess verða afdrifaríkar fyrir Evrópu alla.  Ekki er því aðeins verið að rétta grönnum hjálparhönd, heldur verja menn einnig eigin hagsmuni, frið og frelsi.

Samt er stuðningur Evrópuríkjanna naumur, en Bandaríkin hafa borið hitann og þungann af hernaðarstuðningi við Úkraínu.  Í Evrópu tala nú aðeins Bretar og Pólverjar afdráttarlaust um stuðning við Úkraínu og standa við stóru orðin, svo [að] um muni."

Það er vel til fundið að minna á Sir Winston núna, þegar Evrópa horfir framan í blóðþyrstan forseta Sambandsríkisins Rússlands, sem er sambærileg ógn við lýðræðisríkin nú og ríkisleiðtogi Stór-Þýzkalands var á dögum Þriðja-ríkisins.  Sá rak skefjalausa útþenslustefnu og hugðist skipta heiminum á milli Berlínar og Tókýó.  Frá 2014 hefur forseti Rússlands sent rússneska hermenn til árása inn í Úkraínu og frá 24. febrúar 2022 rekið allsherjar stríð gegn Úkraínumönnum með það í hyggju að leggja land þeirra undir sig.  Rússar reka útrýmingarstríð í Úkraínu og fremja þar hvern stríðsglæpinn öðrum verri.  Pólverjar og þjóðir Eystrasaltsríkjanna vita mæta vel, að Rússar reka skefjalausa útþenslustefnu og hafa gert í 300 ár.  Núverandi forseti Rússlands gefur ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir sjálfsákvörðunarrétt ríkja og landamærin, sem sigurvegarar Seinni Heimsstyrjaldarinnar sömdu um í Evrópu.  Hann hefur lýst vilja sínum til að endurreisa Ráðstjórnarríkin landfræðilega.  Þetta brjálæði verður að stöðva, og fyrsta skrefið er að kenna Rússum þá lexíu, að landamærum í Evrópu verður ekki lengur breytt með hervaldi. 

"Vestanhafs bendir margt til, að Donald Trump verði senn forseti á ný, en hann talar enga tæpitungu um, að Evrópuríkin verði sjálf að bera kostnaðinn af eigin vörnum.  Hann segist líka geta bundið enda á Úkraínustríðið á fyrsta degi í embætti, sem þá myndi eflaust kosta Úkraínu mestallt hernámssvæði Rússa.

 Það væri ömurlegt, ef Pútín auðnaðist þannig að semja sig til sigurs, réttlæta allar blóðsúthellingarnar, en auka um leið freistingu sína til frekari landvinninga."

Eins og nú horfa sakir (um miðjan ágúst 2024) er engan veginn víst, að monthananum og einangrunarsinnanum Trump takist að viðhalda forskoti, sem hann öðlaðist í skoðanakönnunum, á meðan hrumur Biden var enn í framboði.  Framboð Kamölu Harris hefur lánazt vel fram að þessu og hún náð forskoti á landsvísu, sem jafnvel dugar til meirihluta kjörmanna fylkjanna.  Vonir eru bundnar við, að Bandaríkjamenn bregðist ekki skyldum sínum gagnvart bandamönnum sínum í NATO og Úkraínumönnum, sem eðlilega dreymir um að tryggja öryggi sitt gegn uppivöðslusömum nágranna í austri með því að ganga í NATO.

Eftir þann stóratburð, sem innrás úkraínska hersins(ÚH) í Kúrsk 6. maí 2024 var, hafa orðið þær vendingar á meðal bandamanna, að Þýzkaland hefur tekið opinbera forystu í stuðninginum við Úkraínu, en Bandaríkin draga lappirnar.  Þýzkaland hefur lýst því yfir, að samkvæmt alþjóðalögum hafi Úkraína fulla heimild til að ráðast inn í Rússland.  Þar getur ÚH valdið rússneska hernum miklu tjóni og hefur þegar gert það.  Skömm Rússa er mikil, því að varnarlínan á landamærunum reyndist engin fyrirstaða, og er fjármálaspilling rússneska hersins líkleg skýring.  Pólitískur hnekkir blóðþyrsts einræðisherra í Kreml er mikill, þegar næstöflugasti er í Rússlandi reynist vera sá rússneski.

"Allt blasir það við Evrópuleiðtogunum.  Samt var ekkert um það rætt, að Evrópuríkin yrðu öll að auka eigin varnarútgjöld hraustlega og bæta í ofanálag verulega við aðstoðina til Úkraínu.  Og engum Evrópuleiðtoganna datt í hug, að rétt væri að eiga orð við Trump um lærdóma Churchills. 

Því [að] ef Úkraína verður látin sigla sinn sjó vegna stefnubreytingar vestra og sinnuleysis og sérgæzku í Vestur-Evrópu, þá missir hið pólitíska hugtak "Vesturlönd" merkingu, og heimurinn verður mun hættulegri."

Rússar vöktu mikla reiði í Þýzkalandi 2022, þegar þeir reyndu að ýta Þjóðverjum ofan í holu myrkurs og kulda (orkuleysis).  Nú gjalda Þjóðverjar gráan belg fyrir svartan með því að lýsa yfir stuðningi Þýzkalands við úkraínskan sigur, nokkuð, sem Bandaríkin hafa ekki gert enn þá.  Mun Kamala Harris taka af skarið ?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband