Ræður hann við starfið ?

Það er ekki góð latína, að ráðherrar verði uppvísir að lögbrotum og haldi samt ráðherrastarfi.  Þetta á þó við um matvælaráðherra vinstri grænna, bæði fyrrverandi og núverandi. Morgunblaðið hefur í sumar haldið uppi lofsverðri gagnrýni á vinnubrögð barnamálaráðherrans, sem einnig er lögbrjótur vegna ótrúlegs sleifarlags í embætti. Hann hefur enga burði haft til að veita neina forystu í uppbyggilegum viðbrögðum við svo hræðilegum niðurstöðum samræmds menntamálamats OECD, s.k. PISA-prófum, að íslenzka grunnskólakerfið virðist hafa hrapað niður í ruslflokk.  Hann hefur ekki beitt sér fyrir endurskoðun námskrárinnar, sem er hluti vandamálsins, ekki slakað á kreddunni um skóla án aðgreiningar, sem allt er að drepa í dróma, en hann hefur hins vegar beitt sér fyrir afnámi samræmdra prófa í landinu, sem er til bölvunar. 

Allt traust er lagt á fyrirbærið matsferil, sem fáir skilja til hlítar, en gæti verið hugbúnaðarkerfi eða gervigreind, sem er í þróun, en verklokin eru í þoku, eins og margt hjá þessum ráðherra.  Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur ítrekað kvartað undan sleifarlagi ráðherra, og hann er brotlegur gagnvart Alþingi með skýrslugjöf um starfsemi þriggja skólastiga.  Margir kjósendur draga líklega þá ályktun af störfum þessa ráðherra, að hann valdi ekki embætti sínu, en hann virðist munu sitja svo lengi sem þessi ríkisstjórn er við völd, svo misheppnaður sem hann er.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir birti 9. september 2024 frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

 "Áform ráðherrans enn óskýr":

"Salvör Nordal, umboðsmaður barna, telur, að áform mennta- og barnamálaráðherra um tímasetningu innleiðingar á nýju námsmati og útfærslu þess séu ekki nógu skýr.  Ráðherrann, Ásmundur Einar Daðason, vill afnema endanlega samræmdu könnunarprófin með lagasetningu í haust.

Nýja námsmatið, s.k. matsferill, á að leysa könnunarprófin af hólmi, en sérfræðingar í menntamálum eru ekki á einu máli um, hvort námsmatið verði samræmt, eins og því er þó lýst í áformum ráðherra.  Salvör segir áhyggjuefni, að sérfræðingar túlki á mismunandi vegu, hversu samræmt hið nýja námsmat muni verða.  

Óvissa hefur einnig ríkt um, hvenær matsferillinn í íslenzku og stærðfræði verði innleiddur, en stjórnvöld segjast nú áforma, að hann verði gerður skyldubundinn í þessum tveimur fögum skólaárið 2025-2026.  Ekki liggur þó fyrir, hvenær matsferill í fögum á borð við ensku og náttúrufræði verði tilbúinn til notkunar."

Það er búið að fara illa með nemendur grunnskólans með alls konar illa ígrundaðri tilraunastarfsemi, og ekkert lát er á óreiðunni.  Það er þess vegna ekki kyn, þótt umboðsmaður barna hafi áhyggjur og reyni að halda ráðherra við efnið, en hann virðist falla á hverju prófinu á fætur öðru.  Honum hefur mistekizt að kynna þetta nýja tól kennaranna, matsferil, almennilega, og þess vegna er erfitt að gera sér grein fyrir, hvort hann komi í stað samræmdra prófa.  Hvernig er þessu háttað á meðal þeirra þjóða, sem eru í efsta fjórðungi árangurs á PISA ? Aðalatriðið er þó, að staðreynd er, að íslenzka skólakerfinu hefur hrakað hrikalega, og núverandi árangur þess er fyrir neðan allar hellur m.v. fjármunina, sem hellt er í grunnskólann.  Þessi staða er örlagarík fyrir þjóðfélagið, og felur í sér sóun hæfileika ungviðisins og framleiðslu á of fáu afburðafólki til að bera uppi samfélagið. 

"Í lögum um grunnskóla er kveðið á um, að ráðherra menntamála skili skýrslu um framkvæmd grunnskólastarfs á þriggja ára fresti.  Ásmundi Einari bar að leggja slíka skýrslu fyrir þingið í byrjun árs 2022, en það gerði hann ekki, eins og Morgunblaðið hefur áður fjallað um.  Salvör hefur tvívegis minnt ráðherra á að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu, fyrst árið 2022 og svo nú í sumar [2024].  Í svari við fyrirspurn mbl.is kvaðst Ásmundur Einar mundu leggja skýrsluna fyrir þingið í haust [2024].  Í samtali við Morgunblaðið bendir Salvör á, að fyrirlagning skýrslunnar hafi einnig verið á síðustu þingmálaskrá, en ekkert hafi orðið af því.  "Ég á von á, að skýrslan verði lögð fram í haust, eins  og ráðherra hefur boðað.""

 Hvað má segja um þessa frammistöðu ráðherrans ?  Hún lýsir slóðahætti, og sleifarlag virðist fylgja ferli hans. Slíkir menn eru yfirleitt ófærir um að veita nokkru máli skelegga forystu, hvað þá stórum málaflokki.  Það sætir furðu að dubba slíkan einstakling upp í ráðherraembætti. 

"Ráðherrann hefur einnig ekki virt lögbundinn skilafrest á skýrslu um framkvæmd framhaldsskólastarfs.  Ekki heldur skýrslu um framkvæmd leikskólastarfs, en frá því hefur ekki verið greint áður.  Spurð, hvort það rýri traust til ráðuneytisins, að það vanvirði ítrekað skilafresti, segir Salvör, að vitaskuld sé það mikilvægt, að ráðuneytið standi við það, sem lög kveði á um. "Þetta er sett í lög og er liður í eftirliti Alþingis með þessum mikilvæga hornsteini í okkar samfélagi, sem menntakerfið er."

Spyrja má, hvort þessi ráðherra falli um hverja þúfu, sem í vegi hans verður.  Kemst hann ekki skammlaust frá neinu máli ?

Umboðsmaður barna talar um menntakerfið sem hornstein í samfélaginu, en í stað þessa hornsteins er komin froða vegna vegna ónýtrar námskrár Katrínar Jakobsdóttur frá 2009, sem henti ágætri námskrá frá 1999, skaðlegrar stefnumörkunar um skóla án aðgreiningar og metnaðarlauss afnáms samræmdra prófa.  Fyrir vikið er grunnskólakerfið ekki nema svipur hjá sjón, sem lýsir sér í mjög gloppóttri þekkingu nemandanna m.v. við jafnaldra þeirra t.d. á 7. áratugi 20. aldarinnar.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ásmundur Einar Daðason hefur margsinnis sýnt fram á það að hann ræður engan veginn við þetta starf og mér finnst alveg stórfurðulegt að hann skuli enn hanga inni.......

Jóhann Elíasson, 19.9.2024 kl. 08:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hann er afsprengi metnaðarleysins, sem grunnskólinn innrætir æskulýðnum með því að gera allt of litlar formlegar kröfur til nemendanna um árangur.  Nú sjáum við afleiðingar þess út um allt í þjóðfélaginu.  

Bjarni Jónsson, 20.9.2024 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband