6.10.2024 | 16:34
Meingallaður og varasamur samgöngusáttmáli
S.k. Samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið er reistur á röngum forsendum, enda hefur hann hlotið alvarlega og málefnalega gagnrýni fagfólks. Hann er hugarfóstur og óskhyggja stjórnmálamanna, en án jarðtengingar við raunveruleikann að talsverðu leyti. Hann opnar fyrir stórhættu á bruðli með almannafé vegna kolrangrar forgangsröðunar verkefna, og bráðnauðsynleg verkefni um allt land munu fyrir vikið líða fyrir enn meiri fjárskort en ella. Amatörar í verkefnastjórn virðast síðan eiga að höndla með þennan sáttmála í stað þess að framkvæma rökrétta forgangsröðun með ströngum reglum verkefnastjórnunar, sem tryggja eins góða meðferð opinbers fjár og kostur er.
Miðjusett borgarlína leysir engan umferðarvanda. Hún magnar hann, því að hún mun þrengja að almennri bifreiðaumferð, og hún mun ekki ná að draga til sín nógu marga farþega til að fækka svo bílum í umferðinni, að auknar tafir hennar vegna verði vegnar upp. Því mun fara fjarri. Borgarlínan mun fara úr böndunum fjárhagslega m.v. hvert stefnir nú, og hún verður hræðilegur fjárhagslegur myllusteinn um háls sveitarfélaganna, sem hafa ekki efni á þessu bruðli. Bruðl er það, þegar offjárfest er m.v. þörfina, og þessi offjárfesting slær líklega öll slík met í landinu. Það er algert dómgreindarleysi að hleypa þessu afkvæmi Samfylkingarinnar jafnlangt og raun ber vitni um núna.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, ritaði ítarlega og rökfasta grein um þennan dæmalausa sáttmála, sem birtist í Morgunblaðinu 12. september 2024 undir fyrirsögninni:
"Alvarlegir ágallar samgöngusáttmálans".
"Ágallar samgöngusáttmálans eru m.a. þessir:
1. Fyrst ber að geta þess, að samgöngusáttmálinn er út frá fræðum verkefnastjórnunar ekki verkefni (e. project), heldur verkefnaáætlun (e. program). Í verkefnaáætluninni er listi af verkefnum, sem ná yfir a.m.k. 16 ár, þ.e. til ársins 2040. Á þessu tímabili munu fara fram fjórar sveitarstjórnarkosningar. Það skiptir öllu máli, að verkefnaáætlunin byggi á vönduðu stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu (e. project governance framework). Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á opinberum framkvæmdum hér á landi á síðari árum sýna fram á, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, þegar kemur að verkefnastjórnsýslu."
Skilningur "Betri samgangna" á verkefnastjórnsýslu virðist því miður ekkert skárri en almennt hjá hinu opinbera, og það er ávísun á fjárhagslegt fúafen. Sum einkafyrirtæki kunna góð skil á kerfisbundinni verkefnastjórnun allt frá verkefnishugmynd að afhendingu framkvæmdarinnar til eigandans eftir vel heppnaða ræsingu og frágengnar úrbætur.
Forgangsröðun verkefna í tímaröð er heldur ekki reist á almennri skynsemi, því að samkvæmt almennri skynsemi ætti að ráðast fyrst í afmarkaðar aðgerðir, sem bæta augljóslega umferðarflæðið og eru þess vegna arðsamastar. Enn ríkir í Reykjavík forkastanlegt og sérvizkulegt bann við mislægum gatnamótum, sem leiðir til klúðurslegra lausna með ljósastýringum og þar af leiðandi hættu á gatnamótum. Fordild og ofstæki Samfylkingarvitringanna um umferðarmál lætur ekki að sér hæða.
"Þannig hafa nær allar opinberar stórframkvæmdir hér á landi farið umtalsvert fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum. Nægir að nefna Hörpu, nýjan Landsspítala og Vaðlaheiðargöng. Lítil viðleitni hefur verið í opinbera stjórnkerfinu, m.a. í fjármálaráðuneytinu, til að bæta úr þessu.
Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og einstökum verkefnum vantar í gögn um sáttmálann. Það virðist m.ö.o. ekki vera gert ráð fyrir faglegri verkefnastjórnsýslu í samgöngusáttmálanum."
Þeir, sem halda um taumana í apparatinu Betri samgöngum, virðast m.ö.o. ekki hafa þá verkþekkingu, hvað þá sérþekkingu á verkefnastjórnun, til að gera sér grein fyrir mikilvægi hennar við undirbúning, framkvæmd og frágang stórverkefna. Það er stórhættulegt að spyrða saman svona mörg verk í eina verkefnasyrpu án þess að hafa nokkra þekkingu á því, hvernig bezt er og hagkvæmast að standa að stjórnuninni. Hvers vegna er verið að búa til þetta pólitíska apparat, Betri samgöngur, þegar Vegagerðin er fyrir hendi og á lögum samkvæmt að sjá um stofnbrautir í þéttbýli ? Er það til þess að koma hinu pólitísk gæluverkefni Borgarlínunni á koppinn, þótt fjárhagur borgarinnar sé nú með þeim endemum, að hún hefur ekki efni á Strætó, hvað þá "strætó á sterum", og er að koma þessu vonlausa fyrirbæri yfir á ríkið. Samfylkingin og fylgihnettir hennar í borgarstjórn er ekki bara fjárhagslegt vandamál vegna báknsútþenslu og bruðls, heldur samgönguvandamál, því að hún hefur gelt aðalskipulagið með fíflagangi eins og að fjarlægja mislæg gatnamót þaðan. Í mörgum tilvikum eru þau hagkvæmasti og öruggasti kosturinn, og þess vegna fyrsti valkostur Vegagerðarinnar. Þarna er sama sagan og í orkumálunum. Rugludallar vinstrisins standa í vegi framfara. Til að höggva á hnútinn þarf þá að koma til kasta Alþingis.
"Við samanburð á upplýsingum Vegagerðarinnar frá 2023 og gögnum samgöngusáttmálans kemur í ljós, að forsendur, verk- og tímaáætlanir sáttmálans byggja á veikum grunni."
Sáttmálinn og Betri samgöngur eru pólitísk hugarfóstur, þar sem umferðartæknileg þekking og almenn verkefnastjórnunarþekking koma lítið sem ekkert við sögu. Slíkt ber eðli málsins samkvæmt feigðina í sér og ætti að spara skattgreiðendum stórfé með því að leysa hvort tveggja upp.
"Fjármögnun verkefna samgöngusáttmálans er forsenda þess, að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu geti með góðri samvizku axlað fjárhagslega ábyrgð á sáttmálanum. Sveitarfélögin eru öll illa stödd fjárhagslega eftir að hafa tekið við fjölda verkefna frá ríkinu á síðustu áratugum án þess, að tilsvarandi fjármagn hafi fylgt. Rekstur sveitarfélaganna, sem bera eiga þessa fjárhagslegu skuldbindingu, er þegar í járnum, og munu þau varla ráða við þann aukakostnað, sem hlýzt af samgöngusáttmálanum, hvorki á framkvæmdatíma né síðar, þegar rekstur kerfisins tekur við."
Þetta er skýringin á draugaganginum í kringum borgarlínu, sem lýst hefur sér í furðuvendingum á borð við samgöngusáttmála og Betri samgöngur, sem hvort tveggja er óþarft, ef allt er með felldu. Hvort tveggja verður hengingaról sveitarfélaganna og Samgönguáætlunar Alþingis, sem sveltur illu heilli fyrir vikið.
"5. Í uppfærðum samgöngusáttmála er gert ráð fyrir, að Betri samgöngur ohf. fari fyrir verkefnum sáttmálans og fái heimildir til lántöku. Annars vegar verða það lán, sem sveitarfélögin ábyrgjast til framkvæmda og hins vegar lán með ríkisábyrgð til að fjármagna nauðsynleg húsnæðis- og lóðakaup og niðurrif vegna framkvæmda við stofnvegi. Þar sem fjárhagur sveitarfélaganna allra er bágur, er nokkuð ljóst, að framkvæmdir verða að mestu fjármagnaðar með lántöku. Sú ábyrgð, sem sveitarfélögin undirgangast í því efni, er gríðarlega mikil og óvissan einnig mjög mikil. Auk þess virðist ekki vera gert ráð fyrir fjármagns- og vaxtakostnaði í kostnaðaráætlunum. Sveitarfélögin eru hér sett í mjög erfiða stöðu, því [að] gríðarleg fjárhagsleg áhætta fylgir því að undirrita sáttmálann."
Þetta nær engri átt. Með allt á hælunum, hvað áætlanagerð varðar, á að þröngva sveitarfélögunum út í skuldafen, sem mun standa þeim fyrir þrifum í marga áratugi, á meðan örfáar hræður munu nota hugarfóstur Samfylkingarinnar, "strætó á sterum", sem er allt of fyrirferðamikill á samgönguásum höfuðborgarsvæðisins m.v. þær örfáu hræður, sem nota hann allt árið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Samgöngur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.