Stungið á kýlum

Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, stakk á nokkrum kýlum, sem kalla má þjóðfélagsmeinsemdir, í merkri grein í Morgunblaðinu 20. september 2024.  Það má velta fyrir sér, hvers vegna vitleysa og augljós fíflagangur virðast orðin svo algeng í þjóðfélaginu núna.  Líklegt er, að gæði stjórnunar verkefna og stefnumótunar haldist í hendur við gæði skólakerfisins.  Það einkennist nú um stundir af metnaðarleysi og einhvers konar útþynningu á raunverulegri menntun, eins og ömurlegur árangur 15 ára nemenda á samræmdum prófum OECD, s.k. PISA-prófum, gefur til kynna.  Það er ekkert gamanmál eða einkamál barnamálaráðherra, að menntunarstig grunnskólans hefur hrapað á nokkrum áratugum, þótt keyrt hafi um þverbak, eftir að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, læsti klónum í ágæta námsskrá frá 1999 og gaf út aðra, sem einkennist af metnaðarleysi. 

Téð gagnrýnigrein Jóhannesar bar yfirskriftina:

"Þjóð á rangri leið".

Hún hófst þannig:

"Það er eitthvað skrítið í gangi í íslenzkum stjórnmálum. Tökum umhverfisstefnuna sem dæmi.  Eftir að hafa barizt sérstaklega fyrir því að bæta kolefniskvótaviðskiptakerfi ESB inn í EES-samninginn, eru íslenzk yfirvöld nú allt í einu hissa á, að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og því eina þjóðin, sem borgar slíkan skatt fyrir flug yfir Atlantshafið, og sú þjóð, sem borgar mest fyrir skipaflutninga. Þetta frumkvæði hefur stórskaðað samkeppnishæfni landsins og lífskjör almennings." 

Téð kerfi ESB er til að beina stórflutningum til járnbrautalesta, sem búrókratar hafa fundið út, að sé með minnst sótspor.  Þetta er þó hæpið, þegar vistvæn raforka er aðeins um þriðjungur heildarraforkunotkunar og þegar allur ferill flutningatækjanna er krufinn til mergjar. Að láta þetta gilda um eyjarskeggja lengst norður í ballarhafi er óréttlátt, því að þeir eiga enga valkosti aðra en flugvélar og skip.  Íslenzkir embættismenn og stjórnmálamenn, sem um þetta véluðu, annaðhvort sváfu á verðinum eða eru liðleskjur, þegar standa þarf fast í lappirnar, til að verjast ósanngirni eða hagsmunaátroðslu. 

"Í "land og líf"-stefnu yfirvalda á að breyta 13 % af ræktarlandi (156 km2) í mýrar og 12 % (150 km2) í skóga. Þó að þetta hljómi mikið, eru áhrif skógræktarinnar ekki nema rétt á pari við þá útblástursminnkun, sem ein 10 MW vatnsaflsvirkjun á Íslandi býr til með því að flytja álframleiðslu frá kolaorku-Kína til hreinorku-Íslands.  En í stað þess að líta slíkt jákvæðum augum, hefur hér ríkt virkjanastopp síðustu 2 áratugi, og nú er komin orkukreppa.  Stórir 100 MW virkjanakostir voru settir á bið í 2 áratugi (Hvammsvirkjun) eða friðaðir í pólitískum skollaleik (Norðlingaölduveita).  Það má ekki einu sinni tengja orkuframleiðslu milli landshluta, og allt að ígildi 200 MW frá Kárahnjúkavirkjun sóað, því [að] notandinn fær ekki orkuna. 

 

Skyndilega eiga vindmyllur að leysa allt.  Þær snúast þó ekki í logni og þurfa helzt að vera staðsettar við hlið vatnsorkuvers (sem yfirvöld hata) til að forðast risafjárfestingu í dreifikerfi og varaafli.  Fyrir vikið er hætt við, að rafmagnsreikningur allra rjúki upp, þegar borga þarf brúsann." 

Þetta er þörf ádrepa. Það er engin glóra í því að moka ofan í skurði til að endurskapa mýrar, sem undir hælinn er lagt, hvort draga úr losun koltvíildis, eða hvort meint minnkun verði viðurkennd alþjóðlega.  13 % af ræktarlandi er tífalt það, sem verjandi er að leggja undir þessa vafasömu hugdettu. 

 

Að taka ræktarland undir skógrækt í stórum stíl orkar líka tvímælis.  Skógrækt ætti að vera þáttur í landgræðslu, að koma upp skjólbeltum og að skapa störf við hirðingu og nýtingu skóganna. 

Stærsta meinlokan í þjóðfélaginu um þessar mundir er andstaðan við nýjar virkjanir, þótt þær séu umhverfisvænstu fjárfestingar, sem í boði eru á Íslandi vegna náttúru landsins.  Hér er átt við hinar hefðbundnu virkjanir. 

Andstæðingar nýrra vatnsafls- og jarðgufuvirkjana hafa gripið þau falsrök algerlega úr lausu lofti, að enginn orkuskortur sé í landinu.  Nýlega heyrðist í Vikulokunum á Gufunni frá einum þingmanni, sem að vísu er á þingi fyrir pírata, sem eru hreinir ratar í málflutningi sínum, að ekki skipti máli fyrir þjóðarbúið, hvort lokað væri einu álveri með öllu því tekjutapi og kostnaði, sem því fylgir, því að það væri líka dýrt að virkja.  Sá aumkvunarverði maður, sem þarna átti í hlut, skilur ekki muninn á fjárfestingu og rekstrarkostnaði.  Þegar fólk af þessu "kalíberi" slæðist inn á Alþingi, er ekki von á góðu.  Það leiðinlega er, að margt þekkingarsnautt og dómgreindarlaust fólk telur sig vel í stakkinn búið til að hafa vit fyrir öðrum og setja lýðnum lög. 

Nýlega lagði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, orð í belg út af því, að honum þótti of mikið gert úr orkuskortinum.  Það er furðuhjal hjá þessum forstjóra, sem hefur ekki getað orðið við neinum umtalsverðum óskum um forgangsorku í a.m.k. hálfan áratug nú.  Rökstuðningur hans lýsti ekki djúpri þekkingu á sögu afgangsorkunnar ("secondary energy"), sem nú kallast ótryggð orka.  Það var alls ekki reiknað með, að þyrfti að skerða hana til kaupenda á hverju ári, heldur var reiknað með vatnsskorti í lónum í u.þ.b. 3 árum af 30.  Ef þarf að skerða nokkur ár í röð, minnka skerðingarheimildir Landsvirkjunar á hverju ári eftir fyrsta ár skerðingarlotu.  Nú um stundir fyllist Þórislón ekki ár eftir ár vegna mikils álags, sem á kerfinu er.  Sem betur fer fylltist Hálslón á þessu hausti, en lítil flutningsgeta Byggðalínu hamlar orkuflutningum á milli landshluta, eins og Jóhannes Loftsson drepur á. Forstjóri Landsvirkjunar setti sig á háan hest og ætlaði að áminna "krakkana", m.a. hjá Landsneti, en datt strax af baki. 

"Hitaveitureikningurinn gæti farið sömu leið, því [að] samkvæmt fjárhagsspá OR 2024-2028 á að fjárfesta fyrir mrdISK 68 í kolefniskvótasprotaverkefni, þar sem mengun er dælt niður í jörðina.  Varhugavert er, að opinber fyrirtæki standi í slíkri áhættufjárfestingu, því [að] þá er almenningur ábyrgur, og hitaveitureikningurinn mun hækka, ef tilraunin misferst og allt tapast."

Það er hægt að taka heils hugar undir þetta með Jóhannesi Loftssyni, því að verkefnið, sem um ræðir, er afar varhugaverð viðskiptahugmynd og felst í að dæla uppleystu koltvíildi, bæði erlendu og innlendu, niður í jörðina.  Ferlið er orku- og vatnsfrekt, og undir hælinn verður lagt, hvaða verð þarf að greiða fyrir koltvíildið, því að einangrað er það verðmæt vara, t.d. til að hraða vexti í gróðurhúsum og sem hráefni í s.k. rafeldsneyti, sem koma á í stað jarðefnaeldsneytis og unnið er úr vetni og koltvíildi með rafmagni.  Það er fífldirfska að leggja almannafé undir af þessu tilefni, og ætti stjórn OR, þar sem Samfylkingin lengi hefur ráðið miklu, að hætta við þessi áhættusömu áform.  Þetta er langt fyrir utan það, sem OR er ætlað að fást við. 

Forstjóri Landsvirkjunar lagði líka orð í belg um rafeldsneytið.  Hann taldi, að erlendis yrði rafeldsneyti framleitt með rafmagni á verði, sem Íslendingar gætu ekki keppt við.  Það er með ólíkindum og sýnir einvörðungu, að búið er að spenna raforkuverð til iðnaðarverkefna allt of hátt hér, og hann á mesta sök á því.  Þá taldi hann markaðinn hér vera of lítinn fyrir þessa framleiðslu.  Það er harla ólíklegt, ef vinnuvélar, skip og flugvélar eru teknar með í reikninginn. Landsnet hefur í orkuspá sinni reiknað með raforkuþörf fyrir rafeldsneytisframleiðslu hérlendis. Hörður Arnarson er ekki beint uppörvandi og genginn í björg með afturhaldinu, sem viðurkennir engan orkuskort á Íslandi. 

"Það er að fjara undan frelsinu. Rétttrúnaðurinn hefur tekið yfir stjórnmálin, og sýndarmennska gervilausna er látin draga athyglina frá raunverulegu vandamálunum.  Slíkur veruleikaflótti gengur þó aldrei til lengdar, og á síðustu 2 áratugum hafa vandamálin hrannazt upp og skert lífsgæði okkar til frambúðar.  En vont getur lengi versnað, og hnignunin mun því halda áfram, og nýtt lífsgæðahrun blasir við.  Eina leiðin út er,  að þjóðin finni aftur jarðtenginguna, sem var áður en ábyrgðarlausu stjórnmálin tóku yfir."  

Þetta virðist vera dómsdagsspádómur, en Jóhannes hefur greint stöðuna nú rétt.  Stjórnmálin eru látbragðsleikur, þar sem hæfileikarýrt fólk án leiðtogahæfni er allt of áberandi, og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem kynti gömlu foringjana, er vart nema svipur hjá sjón.  Menntakerfið getur ekki framleitt afburðafólk, þegar allt er steypt í mót lítillar getu og metnaðarleysis. 

"Íslenzk yfirvöld eiga ekki að borga skatta til útlanda.  Íslenzk yfirvöld eiga ekki að búa til orkuskort.  Íslenzk yfirvöld eru ekki sprotafjárfestar, og rafbílavæðing er ekkert nema rándýr, gagnslaus dyggðaflöggun.  Umferðarvandi verður ekki leystur með draumórum, og fara þarf aftur í hagkvæmar, raunhæfar lausnir, eins og t.d. mislæg gatnamót.  Það leysir heldur enginn húsnæðisvanda með því að byggja bara dýrt fyrir borgarlínu, sem enginn tímir að borga fyrir.  

Er ekki kominn tími á að fá aftur ábyrgð í stjórnmál á Íslandi ?  Gerum Ísland ábyrgt aftur."

Það er grundvallaratriði að koma böndum á vöxt opinbera báknsins, því að innan þess eru sterkir kraftar til fjölgunar starfsfólks og nýrra viðfangsefna (lögmál Murphys).  Við getum vel verið án sumra þeirra og önnur væru betur komin hjá einkageiranum, því að opinber rekstur og góð og skilvirk þjónusta fara einfaldlega ekki saman.  Um það vitna mýmörg dæmi og koma mörg hver fram í fréttum hverrar viku. 

Þá þarf meðferð opinbers fjár að batna stórlega, og er þar s.k. samgöngusáttmáli hrópandi dæmi.  Sérvizkuhópar á vinstri vængnum hafa náð allt of miklum áhrifum m.v. fylgi í þjóðfélaginu, og má þar nefna bílaandstæðinga, sem móta afspyrnu þröngsýna, dýra og óhagkvæma stefnu Reykjavíkurborgar í umferðarmálum og virkjanaandstæðinga, sem samkvæmt nýlegri skoðanakönnun njóta stuðnings 3 % þjóðarinnar. Haldið er dauðahaldi í vonlaust og niðurdrepandi kennslufyrirkomulag skóla án aðgreiningar, sem engum nemendum hentar, og hælisleitendalöggjöfin og framkvæmd hennar hefur valdið miklu meiri kostnaði og vandræðum innanlands en þetta litla samfélag getur afborið.  

 

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband