Átrúnaðargoðið gallað

Á Alþingi er margt fólk, sem ákallar evruna með svipuðum trúarhita og sameignarsinnar ákölluðu Ráðstjórnarríkin og blóði drifið alræðisstjórnkerfi þeirra á sinni tíð.  Af máli evrusinna í Viðreisn og Samfylkingu má ráða, að þeir telji inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB) og upptöku evrunnar sem lögeyris frelsun Íslendinga undan ánauð hárra  vaxta og verðbólgu.  Jafnvel þetta fer þó á milli mála, þegar þróun þessara mála í löndum ESB, t.d. í Eystrasaltslöndunum, er skoðuð.  Hitt er þó aðalatriðið, að það er grunnhyggið viðhorf að reisa skoðun sína á yfirborðslegri athugun í stað þess að kryfja málið til mergjar. 

Það hefur lengi verið áhyggjuefni í Evrópu, hversu mjög verg landsframleiðsla og lífskjör í ESB hafa dregizt aftur úr Bandaríkjunum.  Framkvæmdastjórn ESB fékk þess vegna fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt am Main og fyrrverandi ítalskan forsætisráðherra, Mario Draghi, til að greina ástæður hagvaxtarvanda ESB-ríkjanna og gera tillögur til úrbóta.  Draghi benti á, að frá upptöku evrunnar hefur framleiðni vinnuafls í ESB sem hlutfall af framleiðni vinnuafls í Bandaríkjunum minnkað.  Það er freistandi að nota tölfræði til að slá fram bólgnum fullyrðingum.  Þetta er vissulega sláandi samhengi, þótt fleiri skýringar megi tína til, sem þá magna afturförina í ESB. 

 

Nú hefur komið fram gagnrýni á Draghi fyrir að minnast ekki á evruna sem eina af fleiri skýringum á afturför eða stöðnun í hagkerfum ESB-landanna.  Kannski vill bankastjórinn fyrrverandi ekki kasta rýrð á evruna, því að staða hennar er viðkvæm og veikari en Bandaríkjadalsins, á meðan evru-ríkin eru ekki með sameiginlegan ríkissjóð og fjárlög, en það verður líklega eftir að frýs í helvíti. Þann 30. september 2024 birtist í Morgunblaðinu viðtal Ásgeirs Ingvarssonar við dr Jón Helga Egilsson undir fyrirsögninni:   

"Aukin samvinna krefst ekki evru".

"Dr Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða, en þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi.  Jón Helgi bendir á, að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi, en sú staðreynd sé ekkert rædd.  "Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum.  Það vita það allir, að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa, og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni.  Af hverju má ekki ræða það, ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu."

Það er skiljanlegt, að fyrrverandi aðalbankastjóri evrubankans í Frankfurt am Main eftirláti öðrum að benda á hinn augljósa sökudólg, til að hann verði ekki sakaður um að grafa undan evrunni, en hann birtir í staðinn graf, sem sýnir, að framleiðni vinnuafls í ESB hætti að vaxa, þegar Maastricht-sáttmáli evrunnar sá dagsins ljós, og hefur lækkað síðan.  Þetta eru a.m.k. ekki meðmæli með evrunni.  Hagsveiflan á Íslandi er ekki í góðum takti við hagsveiflu þungamiðju evrunnar, og þess vegna mundi íslenzkt hagkerfi verða á meðal þeirra, sem líða fyrir að nota evru sem lögeyri. Pólitískum sprelligosum er ekki gefin rökhugsun, en telja sig geta flotið á tilfinningum sínum og upphrópunum.  Almenningur sér í gegnum innantóman fagurgalann.

"Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum, sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins.  Í umræðunni, sem spunnizt hefur um skýrslu Draghis, hefur m.a. verið bent á, að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan."

Það er þó fleira, sem hér kemur við sögu, og ber fyrst að nefna fleiri og öflugri árangurs og afkastahvata efnahagskerfis BNA en ESB, lægri skattheimtu og minni opinber umsvif, sem alls staðar eru dragbítar á hagkerfið.  Orkuverð, bæði á jarðefnaeldsneyti og rafmagni, er lægra í BNA en í ESB.  Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga, sem glíma við háa skattheimtu og mikil opinber umsvif.  Það, sem bjargar lífskjörunum á Íslandi, er há framleiðni grunnatvinnuveganna (ekki túrismans) og lágt raforkuverð til almennings. Með ríkisstjórn undir forystu Samfylkingar og án Sjálfstæðisflokks verður skattheimtan aukin, ríkisbáknið þanið enn meira út og ríkissjóður látinn safna enn meiri skuldum.  Þessi stefna jafnaðarmanna, sem hefur t.d. verið stunduð undanfarinn áratug við stjórnun Reykjavíkurborgar, mun raska jafnvæginu í hagkefinu, kynda undir verðbólgu og reka hagvöxt niður að núlli. Allt þetta lækkar ráðstöfunartekjur heimilanna.

"Að mati Jóns Helga má samt ekki hunza áhrif evrunnar.  "Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðla, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og famleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun ?  Sameiginlegur gjaldmiðill er eðli málsins samkvæmt ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja.  Lönd, eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla, sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar", segir hann.  Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun, nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum, sem slíku fylgja, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.""

Íslendingar urðu illilega fyrir barðinu á téðri fjármálakreppu 2007-2009, en lífskjaraáfallið hefði orði enn stærra en sem nam 6 % samdrætti landsframleiðslu og varað lengur en 4 ár, ef landið hefði þá verið í ESB og með evru sem lögeyri.  Þótt ISK (og seðlabanki hennar) sé ekki lamb að leika sér við, er hún þó eins konar öryggisloki fyrir hagkerfið og lífskjör almennings. Samfylking og Viðreisn eru fús til að fórna hagvexti og þar með lífskjörum almennings til að fullnægja pólitískri meinloku sinni. 

"Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um, að aðildarríki verði að nota evru.  "Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu, og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli ?  Hann skiptir heldur betur máli", segir Jón Helgi og bætir við, að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað."  

Þetta eru tímabærar umræður á Íslandi nú í aðdraganda kosninga, þegar sumir líta öfundaraugum til þjóða með evru sem lögeyri og benda á lægra vaxtastig en hér tíðkast.  Á þeim peningi eru þó 2 hliðar.  Þjóðverjar, sem eru miklir sparendur, eru óánægðir með lágt vaxtastig evrubankans, sem hefur gefið þeim afar lága raunvexti m.v. það, sem tíðkaðist á dögum DEM.  Á Íslandi eru líka margir sparendur, einkum í eldri kantinum, þrátt fyrir vinstri dellu um fjármagnstekjuskatt og skattheimtu af verðbótum. Ráðstöfunartekjur launa á Íslandi eru með þeim hæstu, sem þekkjast í Evrópu, og veitir ekki af vegna hás verðlags.  Allur samanburður á milli landa er flókinn.    

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband