25.10.2024 | 18:00
Skattheimta í refsingarskyni
Skattheimtuárátta vinstri grænna er ofstækisfull og efnahagslega fullkomlega glórulaus. Þeim dettur ekki í hug að gaumgæfa, hvaða skattheimtustig er þjóðhagslega hagkvæmast, þ.e. gefur stærstu kökuna til skiptanna. Þá virðist skorta þroska til að hugsa á slíkum rökréttum brautum, en bleyta í þess stað vinstri þumalinn og stinga honum upp í loftið til að finna út, hvers konar lýðskrum hentar þeim bezt í hvert skiptið. Þetta er fullkomlega ábyrgðarlaus hegðun gagnvart launþegum, sem eiga atvinnuöryggi sitt undir fjárfestingum í fyrirtækjunum, en þegar jafna má skattheimtunni við eignaupptöku, en það eru hreðjatökin, sem VG leggur til, að sjávarútvegurinn verði tekinn, er skörin tekin að færast upp í bekkinn. Hingað og ekki lengra !
Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað úr hófi fram og heldur enn áfram að hækka. Þessari skattheimtu verður auðvitað að stilla í hóf á útflutningsatvinnugreinar og taka mið af því, sem lagt er á samkeppnisfyrirtækin erlendis. Það er ekki gert hérlendis og vitnar um ruddalegar aðfarir skilningslítilla embættis- og stjórnmálamanna. ESB hóf þessa skattheimtu til að beina fyrirtækjum í umhverfisvænni kosti, en á tímum raforkuskorts í boði stjórnvalda geta vinnuvélaeigendur og útgerðarmenn ekki keypt rafeldsneyti í stað jarðefnaolíu. Kerfið setur undir sig hausinn og lemur honum við steininn, enda breytir það engu um stjórnvizku hins opinbera.
Þann 19. september 2024 birtist fróðleiksgrein eftir kunnáttukonurnar Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá SFS, og Hildi Hauksdóttur, sérfræðing í umhverfismálum hjá SFS, undir fyrirsögninni:
"En að létta róðurinn ?"
"Kolefnisgjald er eitt þeirra gjalda, sem stjórnvöld leggja á íslenzkan sjávarútveg. Engar undanþágur eru veittar frá gjaldinu, en þar sker Ísland sig frá öðrum Evrópuþjóðum. Kolefnisgjaldinu er ætlað að hvetja til orkusparnaðar, notkunar á vistvænni ökutækjum, samdráttar losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum, sem í dag eru af skornum skammti.
Olíukostnaður hefur að jafnaði verið annar stærsti kostnaðarliður í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á eftir launum. Allar breytingar á olíuverði hafa því mikil áhrif á rekstrarskilyrði sjávarútvegs - líka, ef þær verða til með hækkun kolefnisgjalds.
Kolefnisgjaldið stendur nú í 13,45 ISK/l ol, en það hefur hækkað um 364 %, síðan það var fyrst lagt á árið 2010. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 70 %. Kolefnisgjaldið hefur þannig hækkað langt umfram verðlagsbreytingar, og það hefur óhjákvæmilega mikil áhrif á rekstrarskilyrði í sjávarútvegi. Í liðinni viku [v.37/2024] kynnti ríkisstjórn Íslands svo enn frekari hækkanir á kolefnisgjaldi.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa greitt tæpa mrdISK 19 í kolefnisgjald á árunum 2011-2023. Heildartekjur ríkissjóðs vegna gjaldsins námu tæpum mrdISK 60 á sama tímabili. Sjávarútvegurinn hefur þannig staðið undir greiðslu á á um þriðjungi kolefnisgjaldsins á Íslandi."
Þetta er dæmi um tillitslausa og skattheimtugríð íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna, því að yfirleitt er sjávarútvegi hlíft við henni. Þarna er um þjóðhagslega óhagkvæma skattheimtu að ræða, því að hún skekkir samkeppnishæfnina. Þarna er verið að gera íslenzkum atvinnuvegi erfitt fyrir með svipuðum hætti og með s.k. blýhúðun ESB-reglugerða og tilskipana.
"Íslenzkur sjávarútvegur er í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, og það stendur ekki á atvinnugreininni að ná enn frekari árangri í þeim efnum. En næstu skref í átt að markinu eru snúin. Þegar miklum samdrætti í olíunotkun hefur verið náð, verða frekari skref fram á við bæði vandasamari og kostnaðarsamari. Af þeim sökum skiptir sköpum, að stjórnvöld tryggi svigrúm til verulegra fjárfestinga í greininni næstu árin, m.a. með hóflegri gjaldtöku og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi."
Þetta skilja ekki vinstri grænir, og þess vegna er í meira lagi umdeilanlegt að fela þeim forsjá atvinnuvegaráðuneytis. Þeir skilja ekki, að í atvinnugrein, hverrar velgengni er reist á miklum fjárfestingum í framleiðniaukandi og gæðaaukandi búnaði ásamt nýsköpun til að skáka samkeppnisaðilum, þarf framlegðin frá rekstri að vera há. Núna er sérstök skattheimta á útgerðir 33 % af hagnaði og almenni tekjuskatturinn leggst ofan á þetta. Þarna er augljóslega teflt á tæpasta vað, enda einsdæmi í heiminum. Nei, vinstri græna ofstækið ætlar ekki að láta þar við sitja, heldur hækka sértæku skattheimtuna verulega. Það er ótækt, enda setur slíkt fjölda fyrirtækja í uppnám og þar með lífsafkomu fjölda fólks. Ábyrgðarleysið er algert, og sjálfstæðismenn geta ekki fallizt á þessi vinnubrögð.
"Hafa verður í huga, að kolefnisgjald úr hófi stendur í vegi fyrir því, að ná megi háleitum markmiðum um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi og veikir sömuleiðis samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendri grundu.
Ný aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum mætir því miður ekki þeim áskorunum, sem sjávarútvegur stendur frammi fyrir og varðar ekki leið að frekari samdrætti í olíunotkun. Áherzlan er enn á óraunhæfar og íþyngjandi aðgerðir tengdar sjávarútvegi í stað þess að treysta betur fjárhagslegt svigrúm til fjárfestinga og aukinnar verðmætasköpunar með hóflegri gjaldtöku ýmiss konar og traustari innviðum. Markmiði um 55 % samdrátt í losun frá sjávaútvegi verður ekki náð, nema stjórnvöld og atvinnulífið hafi sameiginlegan skilning á verkefninu."
Það er ekki nóg með, að stjórnmálamenn, svífandi í lausu lofti, setji landsmönnum óraunhæf markmið í loftslagsmálum, heldur hafa embættismenn svo lítið vit á að smíða aðgerðaáætlun, að hún hjálpar heilli atvinnugrein ekkert við að ná markmiðinu, heldur torveldar það fremur. Hrokinn og minnimáttarkenndin er svo ríkur í þessu slekti, sbr "vér einir vitum", að ekki er borið við að ráðfæra sig við samtök atvinnugreinarinnar um það, hvernig bezt má verða að liði við að leysa verkefnið. Niðurstaðan er fyrirsjáanleg: það eru bara lagðir steinar í götu atvinnugreinarinnar.
Fyrir hvað er þá verið að refsa þessari öflugustu atvinnugrein landsins ? Jú, það er verið að refsa útgerðarmönnum fyrir að eiga aflahlutdeildirnar, sem ríkið úthlutar þeim árlega á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar um heildarveiði úr mismunandi nytjastofnum við Ísland. Þetta einkaeignarréttarlega fyrirkomulag er grundvöllurinn að góðum árangri fiskveiðistjórnunarkerfisins íslenzka, hvort sem litið er til framleiðni og hagræðingar kerfisins, sótspors sjávarútvegsins eða ábyrgrar umgengni hans við auðlindina. Einkaeignarréttarlega fyrirkomulagið hámarkar stöðugleikann, sem greinin getur búið við, og fjárfestingargetu hans, en sameignarsinnar o.fl. hafa mikið reynt til að gera þetta fyrirkomulag tortryggilegt í augum almennings. Kerfið er uppnefnt gjafakvótakerfi. Hvílíkur uppspuni. Þeir, sem stunduðu útgerð, þegar kerfið var sett á, og gátu sýnt fram á 3 ára aflareynslu, fengu úthlutað aflahlutdeild í byrjun. Hverjir aðrir áttu meiri rétt á þessu ? Kerfið er nefnt "grandfathering" á ensku og er vel þekkt erlendis. Síðan hafa aflahlutdeildir gengið kaupum og sölum, svo að yfir 90 % þeirra hafa verið keyptar. Auðvitað fellur þetta kerfi ekki að afdankaðri og vonlausri sameignarhugmyndafræði vinstri grænna, og það hefur komið vel fram hjá ráðherrum þeirra í matvælaráðuneytinu. Þar hefur greinilega verið efst á dagskrá að bregða fæti fyrir útgerðirnar, enda stendur góður árangur þeirra undir þessu markaðsdrifna kerfi eins og fleinn í holdi vinstri manna (Samfylkingin meðtalin.). Nú ætla þessir sjálfskipuðu alþýðuleiðtogar með hugmyndafræði, sem alls staðar leiðir til ófara, þar sem hún er reynd, að jafna hlut alþýðunnar. Hvílík sjálfsblekking, fáfræði og grunnhyggni. Þetta ofstjórnar- og ríkisbákns fyrirbrigði, sem vinstri grænir eru, verður að stöðva í skemmdarverkum þess á hagkerfi landsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Tilgangur VG er að eyðileggja. Það er útskýringin. Punktur
Ásgrímur Hartmannsson, 25.10.2024 kl. 22:21
"óraunhæf markmið í loftslagsmálum," trúir þú því semsagt að ríkið geti stjórnað veðrinu með því að heimta meiri pening?
Manni, það er óraunhæft að ríkið hafi "loftslagsmarkmið." Það er trúarsetning, ekki veruleiki.
Ásgrímur Hartmannsson, 27.10.2024 kl. 10:45
Ég er sammála þér, Ásgrímur.
Bjarni Jónsson, 27.10.2024 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.