28.10.2024 | 18:03
Til varnar kapítalisma - auðhyggju
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við HÍ, reit grein í Morgunblaðið 11. október 2024 um áhugaverð grundvallarmál, a.m.k. fyrir íbúa í lýðræðisríkjum heimsins.
Greinina nefndi Hannes:
"Markaðir og frumkvöðlar",
og hófst hún þannig:
"Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi ? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum ? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni ?"
Þetta eru allt mikils verðar spurningar, sem leitazt var við að svara á ráðstefnu Evrópskra frjálshyggjustúdenta, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags og efnahagsmálum o.fl. í Reykjavík 12.10.2024.
Það er ótrúlegu andófi gegn vestrænni menningu, lýðræðisskipulagi og markaðshagkerfi, haldið uppi á Vesturlöndum, og eru íslenzkir furðufuglar þar engin undantekning. Þeir, sem hagsmuna hafa að gæta í því, að þessar moldvörpur nái að grafa undan vestrænum samfélögum, eru Kremlverjar. Þessir heimsvaldasinnar kosta miklu til að koma ár sinni fyrir borð, og einna bezt virðist þeim hafa tekizt til í Bandaríkjunum, þar sem forsetaefni Repúblikanaflokksins virðist með eindæmum hallur undir blóði drifinn einræðisherra Rússlands. Að slíkur siðlaus frambjóðandi skuli samkvæmt mælingum geta náð meirihluta kjörmanna í kosningunum 05.11.2024, er með algerum ólíkindum.
"Einn ræðumaðurinn er dr Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári [2024] út fróðlega bók: "Imperial Measurement: A Cost-Benefit Analysis of Western Colonialism" - Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (e. cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á 19. öld ? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla [ríkið - innsk. BJo], en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna [og ævintýramanna - innsk. BJo]. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur."
Skyld þessari nýlenduskýringu á auði Vesturlanda er kenningin um auðsöfnun standandi á öxlum kúgaðs verkalýðs. Skýringin í auðsöfnun 19. og 20. aldar voru miklu fremur vel heppnaðar fjárfestingar frumkvöðla, iðn- og tæknibylting þessa tíma.
"Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, "Fish, Wealth and Welfare - Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, "free market environmentalism" - umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er t.d. skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi ? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristoteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarbúskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlega hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslenzku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu."
Það hefur ekki verið hrakið, að forsenda raunhæfrar verndar verðmæta sé einkaeignarhald verðmætanna, sem í hlut eiga, hvort sem um náttúruauðlindir er að ræða eða ekki. Þessi óhrakta kenning er vissulega vatn á myllu frjálslyndisafla í þjóðfélaginu, sem aðhyllast öflugt einkaeignarfyrirkomulag, sem varið sé af traustri lagaumgjörð. Reynslan sýnir, að slíkum samfélögum vegnar bezt í tímans rás.
"Hliðstætt dæmi eru íslenzku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því [að] hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á 8. áratug [20. aldar], en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekizt til. Ólíkt öðrum þjóðum, stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.
Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt s.k. afareglu (e. grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt 5 % af heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) 5 % aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarks röskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum."
Þarna eru dregnar upp útlínur árangursríkasta fiskveiðistjórnunarkerfis á jörðunni. Kerfið var sett á út úr neyð til að bjarga sjávarútveginum og sjávarauðlindinni frá algeru hruni af völdum offjölgunar fiskiskipa og fækkunar í hrygningarstofnum af völdum ofveiði. Kerfinu var ekki snýtt út úr nösum ráðuneytissnata, heldur var það afrakstur ráðgjafar aðallega íslenzkra vísindamanna á sviði auðlindanýtingar.
Það er enn verið hérlendis að sá öfundsjúkri tortryggni út í þetta kerfi, svo að vinstri sinnaðir stjórnmálamenn, sem aldrei geta látið vel heppnaða dugnaðarforka í friði við atvinnustarfsemi sína, hafa rembst við að kokka upp niðurrifsaðferðir, sem fela í sér ólöglega þjóðnýtingu í áföngum. Matvælaráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs reyndu að ná fram himinháum álögum á greinina ásamt fiskeldið, en gáfust upp á limminu, þegar nýr formaður VG tók þann vitlausa pól í hæðina, að til þess að komast inn á þing í kosningunum 30.11.2024 væri bezt að höggva stanzlaust í Sjálfstæðisflokkinn. Þetta grunnhyggna viðhorf snerist auðvitað algerlega í höndum Svandísar, sem undirbjó andvana fæddan starfsstjórnar sirkus, og verður vonandi utan þings sem lengst ásamt pakki sínu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heimspeki, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.