Að hrapa ekki að niðurstöðu

Það er auðvelt að draga fljótfærnislegar ályktanir út frá tölfræðilegum gögnum, ef viðmiðið er ekki ljóst.  Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, reit grein í Morgunblaðið 3. október 2024, þar sem hann t.d. varaði við að draga viðamiklar ályktanir af PISA-útkomunum í fljótu bragði.  Hins vegar þyrftu skólar að viðhafa próf.  Höfundur þessa pistils telur, að til að sanngirni við nemendur og framhaldsskólana sé gætt, sé s.k. "námsferill" ófullnægjandi. Það er síðan hægt að velta fyrir sér, hvers vegna ekki eigi að gilda hið sama um stúdentspróf, að prófað sé með samræmdum hætti í nokkrum greinum á stúdentsprófi.  Mundi það ekki vera til bóta t.d. fyrir Verkfræðideild og Læknadeild HÍ ?

Grípum niður í grein Helga, sem bar fyrirsögnina:

 "Viðmið og markmið":

"Eðlileg viðmið eru eru skynsömu fólki í blóð borin.  Þetta virðist hafa misfarizt, þegar Íslendingar voru að stilla markmið sín í Parísarsamkomulaginu. Eðlilegt viðmið hefði t.d. getað verið, að útblástur miðaðist við, að öll orka landsins væri búin til með jarðefnaeldsneyti.  Félagsfræðingurinn og tölfræðikennarinn Björn Lomborg hefur talað af skynsemi um viðmið.  Þegar sagt var, að aldrei hefðu fleiri milljónir [manna] soltið á jörðinni, benti hann á, að aldrei hefði jafn lágt hlutfall jarðarbúa soltið. (Verdens sande tilstand.)

 Í stað þess að miða við útblástur gróðurhúsalofttegunda frá heildarorkunotkun þjóða, þá var sett markmið um samdrátt m.v. ákveðið ár.  Þetta gerir Íslendingum erfitt fyrir, því að aðeins um 15 % heildarorkunotkunarinnar er jarðefnaeldsneyti, en víða erlendis er það 70 % - 80 %.  Yfirleitt verður kostnaðarsamara að draga úr þessum útblæstri, þegar hann lækkar.  Það er ekki minnzt á þetta í Parísarsamkomulaginu. Líklega eigum við ekki erindi inn í þetta Parísarsamkomulag.  

"Í skólum eru próf nauðsynleg, og kennslan þarf að fara þannig fram, að nemendur einbeiti sér.  Einhver sagði, að einstaklingur þyrfti að ná að einbeita sér í 10 þúsund tíma fyrir tvítugt.  Starf kennara þarf að verða hnitmiðaðra.  Viðleitni í þá átt reyndum við í hagfræðideild HÍ með því að vera með inntökupróf. Ýmis tæknivandræði komu þá fram.  Ég hafði t.d. kennt 200 manna hópi á 1. ári með misjafnan undirbúning.  Þriðjungurinn var óhæfur til náms, þriðjungur gat vel fylgzt með, og þriðjungur var það góður í stærðfræði, að námið var leiðinlegt.  Hér hefði mátt fara betur með mannauðinn, tíma kennarans og nemenda.  Próf þurfa að mæla réttu atriðin, og nemendur verða að leggja sig fram í prófinu.  Til að kennsla sé markviss, þurfa nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Yfirfært á grunnskóla held ég, að þetta geti þýtt, að kennari lesi framhaldssögu í nestistímanum, sem nemendur skilja og hlakka til framhaldsins."

Það sýnir meinloku gallaðs menntakerfis, að prófessorinn telur þriðjung nemendanna, sem leituðu hófanna í hagfræðinni, hafa verið óhæfa til náms.  Þetta hefst upp úr þeim misskilningi skólamanna, að hlífa eigi nemendum við alvöru prófum.  Prófin eru til að leiðbeina nemendum og kennurum, en þarna bregðast skólamenn illilega nemendum og samfélaginu, þar sem óhæfir nemendur til náms banka á dyr háskólanna. Svona var þetta ekki í "den tid", þegar höfundur þessa pistils var í þessu sama skólakerfi til undirbúnings háskólanámi á 7. áratugi 20. aldar.  Að slaka á þessum kröfum er óskynsamlegt og leiðir til ófarnaðar. 

Þá er það vafalaust rétt athugað hjá prófessornum, að til að kennsla geti orðið hnitmiðuð þurfi nemendur að vera nokkurn veginn á sömu blaðsíðunni.  Þar með fellur kenningin um æskileika skóla án aðgreiningar um koll.  Þegar mikill munur er á getu og kunnáttu nemenda í deild, fer kennslan að miklu leyti fyrir ofan garð og neðan.  Hvílík endemis sóun á mannauði, tíma og fé. 

"Ef einhver óárán í náttúrunni á sér stað, er iðulega klifað á hlýnun jarðar af mannavöldum sem sökudólgi.  Í nýlegri umfjöllun CNN um slys á Breiðamerkurjökli er í 90 s innslagi þrisvar minnzt á vaxandi hitastig af mannavöldum og einnig, að hlýnun á Íslandi sé þreföld heimshlýnunin.  Til að átta sig á þeirri stærðargráðu má benda á, að þróun meðalmánaðarhita í Stykkishólmi í 200 ár sýnir ekki dramatískar hitabreytingar.

Menntun komandi kynslóða og umhverfisvernd eru mikilvæg mál.  PISA-kannanir og Parísarsáttmáli eru ekki góðir áttavitar í þeim málum, og notkun þeirra er ávísun á sóun.  PISA og Parísaraðgerðapakkar eru opinber inngrip af skaðlegri gerðinni.  Við þurfum betri viðmið, sem við skiljum betur."  

Loftslagskirkjunni er mikið í mun í áróðri sínum að benda á dæmi um öfgar í náttúrunni, en hún skýtur sig í fótinn með því að láta eins og öfgar séu nýmæli.  Öfgar í náttúrunni hafa alltaf verið fyrir hendi, og ef ástæða er til að óttast einhverjar slíkar öfgar, er það fimbulkuldi, ný ísöld.  Íslendingar fengu smjörþefinn af þessu í 500 ár á tímabilinu 1400-1900, en á því skeiði fór landið mjög illa, missti mikið af gróðurþekju sinni.  

 PISA og Parísarsamkomulagið eru dæmi um alþjóðasamstarf, sem Íslendingar taka gagnrýnilítið þátt í.  Alþjóðasamstarf er vandmeðfarið, ef það á að gagnast landsmönnum.  Samstarfið við Evrópusambandið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sýnir það vel.  Það hefur nú leitt til kolefnisgjalda á flug til og frá Íslandi og sjóflutninga, af því að hingað ganga engar járnbrautarlestir.  Er hægt að kokgleypa hvaða vitleysu sem er frá diplómatíunni ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband