14.11.2024 | 18:24
Tortímandinn og starfsstjórnin
Stjórnmálamenn á vinstri hliðinni virðast haldnir trúarlegri sannfæringu um nauðsyn þess að þenja út ríkisbáknið og samtímis að sverfa að hagsmunum fyrirtækja og einstaklinga með svívirðilegum gjaldaálögum og aukinni skattheimtu. Vinstri menn kæra sig kollótta um samdráttaráhrif slíks ráðslags fyrir hagkerfið. Verðmætasköpun er fyrir þeim aukaatriði, en skattheimta og endurúthlutun fjármuna er þeim aðalatriði. Þessi pólitík hefur fyrir löngu gengið sér til húðar, en samt er hangið á vonlausum kenningum, eins og hundur á roði. Sósíalistaflokkurinn vill innleiða hér marxískt hagkerfi með þjóðnýtingu sjávarútvegs og endurreisn bæjarútgerða. Þetta fólk gengur ekki heilt til skógar í ljósi sögunnar.
Svandís Svavarsdóttir er dæmi um lánlausan vinstri mann, sem allt of lengi hefur fengið að beita einstrengingslegum og löglausum aðgerðum í ráðherrastóli, en er núna vonandi búin að spila endanlega rassinn úr buxunum. Í Staksteinum Morgunblaðsins 22.10.2024 var þessi dæmalausi ferill lauslega rakinn undir einkennandi fyrirsögn:
"Tortímandinn"
"Svandís Svavarsdóttir hefur verið umdeildur stjórnmálamaður allt frá því hún settist beint í ráðherrastól á Alþingi í miðri búsáhaldabyltingu.
Það var enginn friðarstóll. Einu gilti, hvort hún var umhverfis-, heilbrigðis- eða matvælaráðherra; alls staðar varð hún uppvís að ólögmætri embættisfærslu, en án afleiðinga. Lögin enda bara fyrir litla fólkið, hún er sko í pólitík."
Viðhorf Svandísar eru hefðbundin fyrir kommúnista, þar sem "nómenklatúran", þ.e. flokksbroddarnir, gerir það, sem henni sýnist og skeytir þá hvorki um skömm né heiður og virðir löggjöf hins borgaralega lýðveldis álíka mikið og múhameðstrúarmaðurinn, sem innrætt hefur verið, að kennisetningar Kóransins séu öllu öðru ofar.
"Eftir að Katrín fór úr pólitík, gróf Svandís leynt og ljóst undan ríkisstjórnarsamstarfinu undir forsæti Bjarna Benediktssonar og tilkynnti raunar sem nýkjörinn formaður Vinstri grænna, að það væri á enda. Þegar Bjarna var þá loks ofboðið, gerði hún sig steinhissa í framan og átaldi hann fyrir að slíta samstarfinu ! Og nennti ekki einu sinni að sitja í starfsstjórn."
Dónaleg framkoma Svandísar verður líklega öllum flokkum víti til varnaðar um, að hún er gjörsamlega ósamstarfshæf. Í hana er ekkert spunnið, svo að engin eftirsjá er að henni úr landsmálunum.
"Tortímandinn tekur samt enga sénsa. Því standa yfir hreinsanir í því, sem þó lifir eftir af flokknum og búið að flæma burt 3 oddvita og 1 þingmann. Svandís er beðin um að slökkva á perunni á eftir sér."
Það verður að kalla kraftaverk, ef stjórnmálaflokkur, sem glatað hefur allri skírskotun til samfélags nútímans, lifir þessa gjörningahríð af. Farið hefur fé betra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning