20.11.2024 | 16:33
Vestfirðingar í orkusvelti
Aflþörf Vestfirðinga um þessar mundir er um 50 MW og fer enn vaxandi vegna atvinnulífs, mannfjölgunar og orkuskipta. Uppsett afl vatnsaflsvirkjana Vestfjarða er innan við helmingur af núverandi þörf landshlutans, og sér Vesturlína og stofnkerfi landsins fyrir því, sem upp á vantar og jafnvel olíukynt raforkuver. Vestfirðir eru þannig eini landshlutinn, sem ekki nýtur hringtengingar við stofnkerfið. Þess vegna er afhendingaröryggi raforku minnst á Vestfjörðum allra landshluta (að Vestmannaeyjum undanskildum) og olíubrennsla til raforkuvinnslu mest.
Hvernig er þjóðhagslega hagkvæmast að leysa úr þessum vanda ? Það er áreiðanlega ekki með því að bæta við olíukyntum búnaði, eins og tilhneigingin hefur verið undanfarið (á afneitunarskeiði vinstri grænna), heldur með því að hefja sókn á vatnsvirkjunarsviðinu, en þar hefur skort á atbeina orkuráðherrans, sem Vestfirðingar hafa þó leitað til. Með myndarlegri orkuverauppbyggingu þarf jafnvel ekki tvær Vesturlínur.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, telur, að uppsett afl virkjana á Vestfjörðum gæti í framtíðinni numið 150 MW. Slíkt fæli ekki aðeins í sér búbót fyrir Vestfirði, heldur yrði af slíkri raforkuvinnslu mikill léttir fyrir landskerfið.
Með viðtölum við Vestfirðinga gerði Ásgeir Ingvarsson grein fyrir orkumálum Vestfirðinga í Morgunblaðinu 14. október 2024 undir fyrirsögninni:
"Hafa mikinn kraft, en skortir orku".
""Undanfarna 12 mánuði hefur þurft að ræsa varaaflstöðvar Landsnets 26 sinnum eða 2 skipti/mán að meðaltali, og þá er eftir að bæta við, hversu oft Orkubú Vestfjarða hefur þurft að kveikja á sínum stöðvum", segir Þorsteinn Másson. "Fólk bjóst við því, að þessar varaaflsstöðvar yrðu notaðar sjaldan og kæmu kannski til bjargar í verstu vetrarveðrum, ef flutningskerfið skyldi bila, en reyndin hefur verið að ræsa þarf stöðvarnar í tíma og ótíma allan ársins hring. Ég held t.d., að varaaflstöðin í Bolungarvík hafi núna verið í gangi nokkra daga í röð vegna viðhalds á gamalli línu hjá Landsneti."
Þorsteinn er framkvæmdastjóri orkuverkefnisins Bláma í Bolungarvík, en um er að ræða samstarfsverkefni Orkubús Vestfjarða, Landsvirkjunar, Vestfjarðastofu og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis."
Þarna hefði verið gagnlegt að upplýsa um gangtíma hverrar varaaflsstöðvar og heildar raforkuvinnslu þeirra á s.l. 12 mánuðum. Það skiptir máli, hvort keyrslan er vegna brottfalls Vesturlínu, flutningskerfis innan Vestfjarða, dreifikerfis, eða hvort verið er að "keyra niður toppa". Þó er ljóst, að aðgerða er þörf strax. Það þarf að setja 60 kV flutningskerfið í jörðu og dreifikerfið líka. Þá þarf þegar að hefjast handa við tvöföldun uppsetts afls á Vestfjörðum í vatnsaflsvirkjunum. Satt að segja hefur atbeini ríkisvaldsins verið þar skammarlega dauðyflislegur.
""Við þurfum að komast út úr þessari dísilbrennslu, sem er bæði dýr og óumhverfisvæn og ljóst, að fyrirtæki munu eiga erfitt með að byggja upp starfsemi á svæðinu. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið: samfélög, sem hafa ekki aðgengi að nægilegri orku á eðlilegu verði, eiga erfitt með að vaxa og dafna, og helzt hagvöxtur í hendur við orkuframboð og orkuverð.""
Hvað er eðlilegt raforkuverð ? Það er reiknað verð, sem fyrir vatnsorkuvirkjanir fæst m.v. 40 ára fjárhagslegan afskriftatíma og 7 %/ár ávöxtunarkröfu og 1 %/ár rekstrarkostnað af stofnkostnaði. Virkjanirnar, sem Vestfirðingar hafa áhuga á núna að hrinda í framkvæmd, eru allar samkeppnishæfar.
"Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, tekur í sama streng og segir, að orkuskortur og vöntun á afhendingaröryggi skapi flöskuháls fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum. "Vestfirðingar þurfa á meiri orku að halda og eðlilegast er, að orkan verði þá til í fjórðunginum, og ekki er hægt að velta ábyrgðinni yfir á aðra landshluta á að búa til raforkuna, sem Vestfirðir þurfa. Við þurfum að búa til okkar orku sjálf, og til skamms tíma litið er t.d. hægt að stækka Mjólkárvirkjun og hefja framkvæmdir við Vatnsfjarðarvirkjun og Hvalárvirkjun. Til lengri tíma mætti síðan styrkja orkuframleiðslu enn meira með vindorkuverum og sjávarfallsvirkjunum", segir Guðmundur og bendir á, að með fjölgun orkuvera skapist forsendur fyrir eflingu og stækkun dreifikerfisins. Hann segir sóknarhug í Vestfirðingum, en ef [á] orkuna skorti, sé hætt við, að samfélagið standi í stað: "Það er vöxtur hjá Kerecis, í fiskeldinu, í ferðaþjónustunni og aukin fjárfesting í sjávarútveginum, og hefur hlutur Vestfjarða í útflutningstekjum þjóðarinnar aukizt gríðarlega undanfarin ár. Ef við leggjum saman útflutningstekjur Kerecis og fiskeldisins á síðasta ári, þá munu þær slaga hátt upp í heildarverðmæti alls þorskútflutnings landsins, og það er óhætt að segja, að efnahagslegt ævintýri sé hafið á Vestfjörðum."
Af þessum sökum er fyrir neðan allar hellur, að ríkisvaldið skuli ekki reyna að koma Vestfirðingum til aðstoðar við úrlausn orkumálanna, eins og þeir hafa farið fram á, t.d. varðandi Vatnsfjarðarvirkjun. Líklega refsa kjósendur fyrir sleifarlag, og þess vegna skýtur skökku við, að orkuráðherranum sé umbunað með 1. sæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Hefur hann unnið fyrir því ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.