Iðnaður í heljargreipum raforkuskorts

Það er til vitnis um breytileika tilverunnar og ófyrirsjánlega framtíð fyrirtækja á þeirri stundu, þegar fjárfesting fer fram, að raforkuskortur ár eftir ár á Íslandi skuli standa framleiðslunni fyrir þrifum og þar með ávöxtun fjárfestinganna. Vitað var, að vatnsrennsli gæti brugðið til beggja vona í u.þ.b. 3 ár á 30 ára tímabili, en nú er orðin regla fremur en hitt, að vatnsskortur herji á Þjórsár/Tungnaár virkjanir Landsvirkjunar.  Þáttur í þessu óeðlilega ástandi er aukning álags á kerfið án nokkurra nýrra "stórra" virkjana síðan Búrfellsvirkjun 2 kom til skjalanna, en henni var ætlað að nýta umframrennsli, sem vart hefur verið fyrir hendi um árabil.

Þessi slæma staða orkuvinnslunnar mun skána árið 2029, þegar Hvammsvirkjun með sín 95 MW kemst loks í gagnið, en hún mun nýta sama vatnið og virkjanirnar ofar í Þjórsá gera. 

Þessi staða sýnir líka, hversu mikilvægar jarðgufuvirkjanirnar eru, en frá gangsetningu Þeistareykjavirkjunar hefur engin slík virkjun verið tekin í notkun.  Þær eru að vísu háðar árlegum niðurdrætti í gufuforðabúri hverrar virkjunar, en hann er mun fyrirsjáanlegri og veldur minni samdrætti í orkuvinnslugetu en slök vatnsrennslisár geta valdið.  Þess vegna þarf að leggja áherzlu á báðar gerðir þessara hefðbundnu virkjana á Íslandi. 

Á seinni árum hefur 3. gerð virkjana náttúrulegra orkulinda verið til umræðu á Íslandi, en það eru vindorkuverin.  Þau eru langóstöðugust allra þessara 3 valkosta, og var þó ekki á óstöðugleikann bætandi.  Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við s.k. Búrfellslund, um 100 MW, sem er raunhæf stærð í því orkuumhverfi, en gjalda verður miklum varhug við stærð "vindmyllugarðs" í Fljótsdal, sem er áformaður 350 MW að uppsettu afli.  Að þessi óstöðuga raforkuvinnsla gangi truflanalaust upp á Austurlandi þarf að sannreyna með keyrslum í hermilíkönum, því að annars er reglunarvandi raforkukerfisins viðbúinn með óstöðugleika í tíðni og spennu sem afleiðingu. Íslendingar eru hvekktir af kostnaðarsömum áföllum í raforkukerfinu bæði af völdum vatnsskorts og snöggra breytinga á álagi eða framleiðslugetu.  Þegar kerskáli Norðuráls á Grundartanga leysti út eða var leystur út haustið 2024, olli það meiri spennuhækkun á svæði Kröflu og Þeistareykjavirkjunar en notendabúnaður réði við, svo að stórtjón varð á rafbúnaði.  Þessa sviðsmynd hefðu Landsnet og Landsvirkjun átt að sjá fyrir og hafa sjálfvirkar mótvægisaðgerðir tiltækar til að varðveita kerfisjafnvægi.  

Í Morgunblaðinu 25. október 2024 gerði blaðamaðurinn Ólafur E. Jóhannsson grein fyrir helztu afleiðingum afl- og orkuskerðinga Landsvirkjunar, sem nú eru hafnar eða á döfinni í vetur, undir fyrirsögninni:

"Milljarða tekjutap vegna skerðinga".

Fréttin hófst þannig:

 "Landsvirkjun hefur boðað skerðingar á forgangsorku [rangt, hér er átt við ótryggða orku-innsk. BJo] til 11 stórnotenda sinna, og þurfa þá fyrirtækin í einhverjum tilvikum að draga úr starfsemi sinni sem því nemur.  Hér er um að ræða álverin á Reyðarfirði, á Grundartanga og í Straumsvík, járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, kísiljárnsverksmiðjuna við Húsavík, 4 gagnaver með starfsstöðvar á nokkrum stöðum á landinu, aflþynnuverksmiðju á Akureyri og fiskeldisfyrirtæki í Þorlákshöfn. Þar við bætast fiskimjölsverksmiðjur á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, sem munu þurfa að keyra vélar sínar á jarðefnaeldsneyti.

 Raforkuskeðingar hófust í gær [24.10.2024] á Suðvesturlandi, en á Norður- og Austurlandi munu þær hefjast eftir mánuð [mánuði síðar].  Í tilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram, að ekki sé hægt að segja til um, hversu lengi þær muni standa, en reikna megi með skerðingum til til næsta vors [2025].  Skerðing á raforku til stórnotenda Landsvirkjunar er bundin í samninga, þannig að þegar staða miðlunarlóna er lág, er heimilt að skerða afhendingu raforku. 

 Ekki er ljóst, hvert tekjutap Landsvirkjunar verður vegna þeirra skerðinga, sem fyrirtækið er nauðbeygt til að grípa til, en tekjutap fyrirtækisins vegna skerðinga fyrr á þessu ári nam hundruðum milljóna ISK." 

Landsvirkjun hefur ekki jafnfrjálsar hendur með að ganga í skrokk á viðskiptavinum sínum, þegar vatnsskortur er, hvort sem vatnsbúskapurinn er í aumara lagi eða látið hefur verið undir höfuð leggjast að bæta við virkjunum, nema hvort tveggja sé, og þarna er gefið til kynna, því að á hverju 5 ára tímabili má orkuskerðingin ekki fara yfir ákveðinn fjölda MWh hjá hverju fyrirtæki.  Landsvirkjun verður þannig skaðabótaskyld, ef hún tekur upp á því að skerða forgangsorku eða ótryggða orku yfir ákveðin mörk, nema um "Force Majeur" ástand eða óviðráðanlega atburði sé að ræða. 

Hér er um gríðarmikið tjón viðskiptavina Landsvirkjunar að ræða, margfalt meira en hjá Landsvirkjun sjálfri. Að svona sé komið á Íslandi 2024 þýðir ekkert minna en orkustefna landsins hafi beðið algert skipbrot.  Þótt fyrirtæki vilji virkja, þá kemur stjórnkerfi orkumálanna í veg fyrir það.  Það verður að ryðja þessum hindrunum úr vegi, og til þess þarf vafalítið atbeina Alþingis.  Hvort stuðningur við verulega aukið framboð raforku í landinu verður meiri á nýju þingi eftir kosningarnar 30.11.2024 en verið hefur á nýrofnu þingi, er ekki sjálfgefið. Þess vegna er ekki sérlega bjart yfir þessum málaflokki, sem er þá ávísun á hækkandi raforkuverð, hagvaxtarstíflu og gríðarlegan kostnaðarauka atvinnulífsins. 

Um þessar mundir er álverð hátt eða um 3000 USD/t með s.k. premíu, sem fyrirtæki fá fyrir sérhæfða framleiðsluvöru.  Fyrirtækin verða ekki einungis fyrir sölutapi og hugsanlegum missi viðskiptavina, heldur eykst rekstrarkostnaður þeirra líka vegna styttri endingar og hærri endurnýjunarkostnaðar framleiðslubúnaðar.  Það má gizka á, að tjón þessara 11 fyrirtækja, sem talin eru upp í fréttinni, nemi a.m.k. 11 mrdISK vegna boðaðra raforkuskerðinga.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband