Eldsneytisframleiðsla á Íslandi

Samkvæmt Orkustefnu Íslands á öll orka, sem Íslendingar nota hérlendis til að knýja framleiðslutæki sín og til einkanota, að koma úr íslenzkum orkulindum eða jarðvegi.  Hægt er að stórauka t.d. repjuframleiðslu og vinna repjuolíu sem eldsneyti.  Framtaksmenn virðast þó um þessar mundir hafa meiri hug á framleiðslu rafeldsneytis, þótt forstjóri Landsvirkjunar hafi nýlega látið í ljós þá skoðun, að slík framleiðsla yrði of smá í sniðum til að geta keppt við erlenda framleiðslu á eldsneytismarkaðinum.  Þetta rökstuddi hann ekki nánar, og það stingur illilega í stúf við áform Fjarðarorku, sem mun vera í eigu fjárfestingarsjóðsins CI EFT I.

Fjarðarorka hefur kynnt til sögunnar stórkarlaleg áform um vindorkuver í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði, þar sem uppsett afl á að verða 350 MW. Verður athyglisvert að fylgjast með, hvaða sýnileika þessara mannvirkja frá byggð menn telja ásættanlegan.  Þetta afl er tæplega 80 % af aflinu, sem Landsnet áætlar í nýlegri orkuspá sinni, að þurfi fyrir rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi árið 2050, sem er 450 MW.  Það er ekki þar með sagt, að Fjarðarorka muni framleiða tæplega 80 % af íslenzku rafeldsneyti, því að nýtingartími vindorkuvera er innan við helmingur af nýtingartíma hefðbundinna íslenzkra virkjana.  Getur það verið hagkvæmt að fjárfesta í öllum þeim búnaði, sem þarf til að framleiða rafeldsneyti, ef aðeins er hægt að reka hann á fullum afköstum u.þ.b. 3500 klst/ár ? Markaður verður fyrir hendi á Íslandi fyrir rafeldsneyti, en sá markaður mun einnig hafa aðgang að innfluttu rafeldsneyti, sem verður væntanlega framleitt með meiri framleiðni en innlenda rafeldsneytið (hagkvæmni stærðarinnar).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband