10.11.2024 | 15:36
Beturviti (Besserwisser) afhjúpaður
Kristrún Frostadóttir er óttalega regingslegur formaður "Skattafylkingarinnar". Hún gerir sér far um að setja sig á stall sem vel undirbúinn formann til að taka við stjórn landsins. Þetta eru þó einvörðungu umbúðir utan um flaustur, fávísi og yfirborðsmennsku, eins og komið hefur fram í formannaumræðum í Sjónvarpssal um ríkisfjármálin, og nú hefur Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flett ofan af fávísi téðrar Kristrúnar um gjaldtöku fyrir auðlindaafnot. Kristrún þessi hefur látið í veðri vaka, að "Skattafylkingin" hafi "Plan" um stóraukna gjaldtöku með samræmdu aðlindagjaldi að hætti hinna Norðurlandaþjóðanna, en þar stendur ekki steinn yfir steini hjá henni, því að á Íslandi er greitt miklu meira fyrir afnot sjávarauðlindarinnar en þar.
Þann 7. nóvember 2024 birtist í Morgunblaðinu fróðleg afjúpunargrein eftir Heiðrúnu, sem hún nefndi:
"Norska leiðin í auðlindagjaldtöku".
Hún hófst þannig:
""Við erum að tala um sanngjörn, réttlát auðlindagjöld á sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu og orku. Þetta eru leiðir, sem nágrannar okkar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi, hafa farið og samfélagsleg sátt er um."
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2. Hún ítrekaði þetta svo í leiðtogakappræðum á RÚV á föstudagskvöldið [01.11.2024]."
Guð forði okkur frá sanngirni og réttlæti Samfylkingarinnar. Dómgreindarleysi téðrar Kristrúnar, þ.e. vandkvæði við að skilja á milli rétts og rangs, opinberaðist, þegar í ljós kom, að hún hugðist skjóta tugum milljóna ISK undan skatti af bónusi, sem hún þáði ofan á laun sín hjá fyrrverandi vinnuveitanda.
Heiðrún Lind rekur síðan, hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í Noregi af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Af þeirri lýsingu að dæma, hafði téð Kristrún ekki hugmynd um, hvernig þeim málum er háttað, sem hún þó kvað til fyrirmyndar fyrir flokkinn sinn. Kristrún þessi siglir undir fölsku flaggi. Hún er ekki bara krati; hún er "hippókrati".
"Í Noregi er ekkert auðlindagjald í sjávarútvegi. Það, sem kannski meira er um vert; Norðmenn flytja nánast allan fisk úr landi óunninn, mest til láglaunalanda, eins og Póllands. Þeir skapa því fá störf í landi, ólíkt því sem tíðkast hér á landi, og laun við veiðar og vinnslu eru mun lægri en á Íslandi. Verðmætasköpun - og þar með framlag til hagvaxtar og lífskjara - er því til muna minni en á Íslandi."
Af þessari lýsingu sést, að sjávarútvegur á Íslandi er ósambærilegur við sjávarútveg í Noregi. Norski sjávarútvegurinn er að vissu leyti á opinberu framfæri, en íslenzki sjávarútvegurinn, þar sem veiðar og vinnsla eru tengd, verður að keppa á mörkuðum við norskan fisk, sem ríkið styður við og unninn er í láglaunalöndum. Það er ekki víst, að "Besserwisserinn" skilji, hvað þetta þýði. Það þýðir, að íslenzk yfirvöld verða að fara mjög varlega í sérskattheimtu á sjávarútveginn, ef þau ætla ekki að stórskaða þjóðarbúið með því að grafa undan honum til langs tíma litið (draga óhóflega úr fjárfestingargetu hans og launagreiðslugetu). Nú er langt gengið í þessum efnum.
"Í sjókvíaeldi í Noregi var nýlega lagt á auðlindagjald, sem er 25 % skattur af hagnaði. Ekkert gjald er þó greitt af tæplega fyrsta milljarðinum, sem félög hagnast um. Það gerir það að verkum, að áætlað er, að um 70 % fiskeldisfyrirtækja í Noregi greiði engan auðlindaskatt. Að auki miðast þessi skattur eingöngu við þann virðisauka, þegar fiskurinn er í sjónum. Stór hluti starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna er því undanþeginn skattheimtunni, eins og fóðurframleiðsla, seiðaeldi, vinnsla, sala og flutningar. Vegna þessara víðtæku undanþága þá hefur verið áætlað, að skattheimtan sé nær 10 % af hagnaði stærri fyrirtækjanna. Þá eru dæmi um stór fyrirtæki, sem hafa ekki þurft að greiða neinn skatt og áunnið sér yfirfæranlegt rekstrartap vegna takmarkaðs hagnaðar á framleiðslu í sjó. Þetta er þá væntanlega norska leiðin, sem Samfylkingin vill fara."
Kratar og fylgifiskar þeirra í vinstri villunni hafa tamið sér að tala niður til atvinnuveganna og sá tortryggni í þeirra garð. Þannig hefur viðkvæðið verið, að ríkið geti og eigi að láta greipar sópa um eigur sjávarútvegs og fiskeldis, því að erlendis, þ.m.t. á hinum Norðurlöndunum, sé auðlindagjaldið hærra en hér. Þetta er bull og vitleysa, eins og þessi upptalning Heiðrúnar sýnir. Kristrún Frostadóttir er algerlega úti að aka í auðlindamálum og að því er virðist í skattamálum yfirleitt.
"Fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi greiða auðlindagjald, sem er 33 % af reiknuðum hagnaði við veiðar. Á meðan íslenzka ríkið tekur þriðjung af hagnaði í auðlindagjald af sjávarútvegi, þá tekur norska ríkið ekkert.
Þegar kemur að sjókvíaeldinu, greiða íslenzku fyrirtækin auðlindagjald, sem kallað er fiskeldisgjald. Gjaldið er tekið af alþjóðlegu markaðsverði á laxi og er þannig hlutfall af áætluðum tekjum án nokkurs tillits til raunkostnaðar. Þetta gjald hefur 20 faldazt undanfarin 4 ár og á eftir að hækka meira. Íslenzku fyrirtækin greiða einnig umhverfisgjald, sem er ætlað að greiða kostnað við rannsóknir, vöktun og önnur verkefni, sem hafa það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif. Svo greiða íslenzk fyrirtæki hafnargjöld, sem eru mun víðtækari og hærri en þau, sem greiða þarf í Noregi.
Þegar aðeins þetta er lagt saman, greiddu íslenzku fyrirtækin yfir mrdISK 1,2 í fyrra [2023], og þessi upphæð nær líklega mrd 2,0 í ár. Við þetta bætist svo að sjálfsögðu kolefnisgjald, tryggingargjald, tekjuskattur og sitthvað fleira.
Stóri munurinn á íslenzku og norsku leiðinni í auðlindagjaldtöku af fiskeldi er þó sá, að íslenzku fyrirtækin þurfa að greiða þessa skatta óháð afkomu. Í Noregi er aðeins greitt af hagnaði. Í raun er staðan sú, að íslenzk fiskeldisfyrirtæki greiddu 8 sinnum hærri fjárhæð í auðlindagjald á árinu 2023 en þau hefðu greitt samkvæmt norsku leiðinni !
Það þarf líka að hafa í huga, að fiskeldi á íslandi er ung grein. Eftir erfið ár erum við farin að sjá til sólar. Ef greinin fær að vaxa og dafna, mun hún skila miklum útflutningstekjum komandi ár og vissulega ríkulegum skatttekjum. En þá þarf að gæta hófs og sanngirni í skattheimtunni. Fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í rekstri og svigrúm til víðtækra fjárfestinga til þess að leggja grunn að þessari verðmætasköpun."
Á Íslandi hefur verið gengið lengra í sértækri skattheimtu undir merkjum auðlindagjalds en góðu hófu gegnir, því að hún er svo miklu hærri en í samkeppnilöndunum, að samkeppnistöðunni og þar með undirstöðu gjaldeyrisöflunar er ógnað. Þetta skilur Kristrún Frostadóttir ekki, því að hún heldur, að hún geti í næstu ríkisstjórn hækkað s.k. auðlindagjöld mikið með vísun til þess, sem tíðkast annars staðar í Evrópu. Hér gerir hún sig seka um að bulla út í eitt. Að taka upp á að blaðra um málefni, sem varða afkomu fyrirtækja miklu og atvinnuöryggi og vaxtarmöguleika á mörgum stöðum á landinu, áður en hún hefur kynnt sér málin, er algert ábyrgðarleysi. Hún gortar mikið af, að Samfylkingin hafi unnið heimavinnuna sína fyrir þessar kosningar og sé eini flokkurinn "með Plan", en á fyrstu beygju keyrir hún beint út í skurð, gjörsamlega óundirbúin og fávís um málefnið, sem hún gasprar um.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góð grein Bjarni. Ég get því miður ekki hakað við "kann að meta" í færslunni einhverra hluta vegna annars mundi ég gera það oft varðandi þínar færslur. Kærar þakkir.
Jón Magnússon, 11.11.2024 kl. 07:55
Takk fyrir þetta, Jón. Mér dugar alveg, að þér þyki greinin góð.
Bjarni Jónsson, 11.11.2024 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.