Fyrirbærið Donald Trump

Það varð ýmsum Evrópumönnum og e.t.v. fleirum nokkurt áfall, að Repúblikaninn Donald Trump skyldi bera sigurorð af Demókratanum Kamölu Harris í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 05.11.2024.  Ekki nóg með það, heldur varð "alslemma" hjá Repúblikönum með jafnframt meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings.  Höfundur þessa pistils hefur oftast fylgt Repúblikönum að málum, en gat það ekki núna.  Hegðun Donalds á lokadögum síns fyrra kjörtímabils, þegar segja má, að hann hafi sigað æstum og tapsárum lýð á þinghúsið, var siðlaus og löglaus.  Munnsöfnuður hans í þessari kosningabaráttu var smánarlegur.  Utanríkisstefna hans er þröngsýn og skammsýn, og á eftir að valda Vesturveldunum miklum vandræðum, ef og þegar henni verður hrint í framkvæmd. 

Hann virðist vilja verðlauna stríðsglæpamanninn og heimsvaldasinnann Vladimir Pútín með því að láta hann komast upp með stórfellda og dýrmæta landvinninga af Úkraínu með ólöglegri og villimannslegri innrás í Úkraínu 24.02.2022 og landvinninga árið 2014.  Þarna voru alþjóðlega viðurkennd landamæri virt að vettugi og friður, sem að mestu hefur ríkt í Evrópu síðan 1945, rofinn.  Þegar Úkraínumenn höfðu samið við vestrænt jarðefnaeldsneytisfyrirtæki um vinnslu í Austur-Úkraínu árið 2014, þá lét Pútín til skarar skríða. Hann veit, að velmegun almennings í Úkraínu grefur undan einræðisstjórn hans og tangarhaldi ólígarkanna á auðæfum Rússlands. 

Að semja við rotinn einræðisherra um landvinninga honum til handa er siðlaust og skammsýnt, því að jafnskjótt og rússneski björninn hefur sleikt sárin, fer hann aftur af stað með vopnaskak.  Það er enga varanlega samninga hægt að gera við Rússa á pólitíska og hernaðarlega sviðinu.  Þegar Úkraínumenn afhentu Rússum kjarnorkuvopn sín, var skrifað undir plagg, þar sem Rússar, Bandaríkjamenn og Bretar ábyrgðust óbreytt landamæri Úkraínu.  Hvernig fór ?   

Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur, hefur velt fyrir sér sigri Donalds Trump í nóvember 2024, og reit um hann grein í Morgunblaðið 8. nóvember 2024 undir fyrirsögninni:

"Af hverju sigraði TRump ?"

"Launabilið í Bandaríkjunum hefur aukizt umtalsvert undanfarna hálfa öld.  Það þýðir, að raunlaun hafa stöðugt dregizt aftur úr vinnuaflsframleiðni.  Vinnandi fólk hefur því ekki fengið réttlátan skerf af auknum afköstum sínum, en hagnaður fyrirtækja hefur aukizt jöfnum skrefum. Það sést einnig á Dow-Jones hlutabréfavísitölunni, sem hefur hækkað úr um 700 stigum árið 1970 í yfir 42.000 í dag.  Raunlaun vinnandi fólks hafa staðið í stað eða hækkað lítillega, en lágmarkslaun þeirra verst settu hafa hins vegar lækkað stórlega að raungildi. 

Þetta ástand skýrist annars vegar af útvistun vel launaðra framleiðslustarfa til fjölmennra láglaunaríkja eins og Kína og Mexíkó upp úr 1970, sem leiddi til þess, að milljónir manna færðust yfir í verr launuð þjónustustörf, og hins vegar af ógnarsterkri stöðu stórfyrirtækja á bandarískum vinnumarkaði."

 Það var mjög neikvæð þróun fyrir vinnumarkað á Vesturlöndum, þegar framleiðslustörf fluttust til Þriðja heims landa vegna þess, að af þessu hlauzt atvinnuleysi og síðar störf, sem ekki studdust við tæknigreinar og mikla framleiðni, en tækniþróunin var undirstaða raunlaunahækkana. Hins vegar olli þessi þróun kjarabyltingu í Þriðja heiminum og varð undirstaða endurreisnar Kína eftir Menningarbyltingu Maos, formanns kínverska kommúnistaflokksins. Ójöfnuður óx jafnframt í Bandaríkjunum við þetta, þ.e. launabilið óx.  Ríkur lögfræðingur fyrirtækis getur haft meira en MUSD 1,0 fyrir skatta og önnur opinber gjöld og er í 1 % efsta tekjulaginu.  Við hinn enda tekjustigans, í 20 % lægsta tekjulaginu, er einstæð móðir með árstekjur kUSD 25.  Á milli þeirra getur verið fjölskylda, t.d. vélvirki og kennari í hlutastarfi, með árstekjur alls kUSD 80 við miðgildið. Launamunur efsta 1 % og miðgildis launþega er gríðarlegur, enda er launamunur mestur í Bandaríkjunum af hinum stærri Vesturlöndum, sem gefur Gini stuðul tæplega 0,4. Þessi mikli munur knýr að einhverju leyti mikla auðsæld Bandaríkjamanna, en tekjumillifærslur hafa þó farið vaxandi.  Tekjur lögfræðingsins jukust um 110 % frá 1990-2019 samkvæmt "Congressional Budget Office - CBO".  Árið 2019 ráðstöfunartekjur hans líklega lakari en kollega hans 2007.  Hins vegar voru ráðstöfunartekjur einstæðu móðurinnar hærri árið 2019 en 2007 sem nemur 25 % eftir að millifærslur til hennar hafa verið reiknaðar með samkvæmt The Economist 19.10.2024 - "The downsides of outperformance".  Þess vegna fer á milli mála, að ójöfnuður í Bandaríkjunum hafi farið vaxandi undanfarið, þótt Þorsteinn Þorgeirsson fullyrði það í grein sinni:

 "Þessi þróun til aukins ójafnaðar hefur myndað stétt fólks, sem áður tilheyrði miðstéttinni, en telst nú til lág-miðstéttar eða lágstéttar vegna skorts á viðeigandi menntun og atvinnutækifærum. 

Ástandið hríðversnaði í fjármálakreppunni 2007-2009, og þá tók fólk að andæfa ástandinu opinberlega.  Teboðshreyfingin (2009-2010) og "Occupy Wall Street"-mótmælin (2011) voru undanfari forsetaframboðs Donalds Trumps árið 2015.  Hann gaf sig út fyrir að vilja endurreisa hag þessa þjóðfélagshóps.  Hillary Clinton kallaði hávært stuðningsfólk Trumps "hin ömurlegu" (the deplorables).  Hún virðist ekki hafa áttað sig á, að stuðningsmenn Trumps um allt landið tóku þau orð til sín og að það var stjórnarstefna Bills Clintons, forseta, eiginmanns hennar, sem hafði úrslitaáhrif í þessum efnum.  Í hans forsetatíð tók NAFTA-samningurinn gildi (North American Free Trade Agreement/Fríverzlunarsamningur Norður-Ameríku), sem átti stóran þátt í efnahagslegum hrakningum þessa fólks og síðar í aukinni skautun í samfélaginu." 

 Það er ekki tilviljun, að í þetta skiptið hlutu Rebúblikanar góða kosningu í Bandaríkjunum út á einfalda, en róttæka stefnu Donalds, sem jarðvegur var fyrir, og þessum jarðvegi lýsir Þorsteinn Þorgeirsson hér að ofan.  Flokkurinn hlaut meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og Donald fékk meirihluta greiddra atkvæða núna, en ekki síðast, þegar hann þó hlaut meirihluta kjörmanna.  Núverandi heimsfyrirkomulag alþjóðastofnana og viðskiptahátta ásamt landamærum í Evrópu og víðar eru aðallega verk sigurvegaranna í Síðari heimsstyrjöldinni, og þar lögðu Bandaríkjamenn þyngstu lóðin á vogarskálarnar.  Ef það verður nú hlutskipti Bandaríkjamanna að rífa þetta kerfi frjálsra og sem mest óheftra viðskipta, leyfa landvinninga með hervaldi í Evrópu og jafnvel útgöngu Bandaríkjanna úr varnarbandalaginu NATO, þá eru heimsmálin komin í mikil óefni og óstöðugleika. Við þessar aðstæður mun Þýzkaland undir kanzlara Friedrich Merz axla ábyrgð á óskiptu forystuhlutverki í Evrópu.  NATO-ríkin munu verða að stórauka útgjöld sín til hermála, þótt sum hafi ekki mikla burði til þess.

"Þegar Trump tók við forsetaembætti árið 2017, var loks stigið á bremsurnar með víðtækri stefnubreytingu.  Tollar voru settir á kínverskan varning árið 2018, NAFTA-samninginum var breytt í USMCA-samninginn (samning Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó) árið 2020, og skattar voru lækkaðir í viðleitni að byggja upp framleiðslustörfin á ný.

Á sama tíma var hægt á óheftu innstreymi fólks inn í landið til að draga úr undirboðum á vinnumarkaði.  Fyrir vikið tóku raunlaun þeirra lægst launuðu að hækka í stjórnartíð Trumps.  Í verðbólgukúfnum í kjölfar covid lækkuðu raunlaun hins vegar mikið, og það ýtti undir óánægju í stjórnartíð Bidens.  Það háði Kamölu Harris, að hún var talin samdauna efnahagsstefnu Bidens, forseta, sem hafði ekki skilað árangri fyrir þorra kjósenda." 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband