23.11.2024 | 16:32
Grobb og froða í stað innihalds
Grobb forystusauðs Samfylkingar ríður ekki við einteyming. Það vellur upp úr pottunum hjá henni í Morgunblaðsgrein 15. nóvember 2024. Hún þykist hafa til að bera hæfni í hagstjórn, en nákvæmlega ekkert í málflutningi hennar bendir til einhverrar nýbreytni til hins betra. Þá er hún drýgindaleg yfir "plani" Samfylkingar, en það er hvorki fugl né fiskur. Henni væri nær að útlista fyrir kjósendum, hvernig Samfylkingin ætlar að breyta ríkisbúskapnum, ef hún kemst til valda eftir kosningarnar 30.11.2024.
Téð grein bar digurbarkalega yfirskrift:
"Neglum niður vextina".
Hún hófst þannig:
"Samfylkingin ætlar að negla niður vextina. Með hæfni í hagstjórn. Við munum lækka kostnað heimila og fyrirtækja í landinu - fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember [2024].
Þetta er stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi eftir óstjórn síðustu ára. Fráfarandi ríkisstjórn brást fólkinu í landinu með því að passa ekki upp á efnahagsmálin. Nú er kominn tími á breytingar."
Þetta er ótrúlega grautarlegur texti, þar sem ægir saman inantómum fullyrðingum um eigið ágæti og órökstuddum ávirðingum í garð annarra.
Það er út í hött að halda því fram, að Samfylkingin muni "negla niður vextina". Ætlar hún að negla þá fasta ? Það er Seðlabankinn, sem tekur ákvörðun um stýrivexti, og þenslustefna Samfylkingar í ríkisfjármálum mun vinna gegn lækkun stýrivaxta. Aðaldrifkraftur verðbólgu undanfarið hefur komið frá húsnæðisgeiranum, en fáránleg þéttingarárátta Samfylkingar í borginni hefur valdið lóðaskorti og keyrt upp byggingarkostnað. Samfylkingin þrjózkast við að samþykkja útvíkkuð vaxtarmörk á höfuðborgarsvæðinu, sem setur lóðafjölda á hverjum tíma skorður. Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur einfaldlega gert það, sem á hennar valdi hefur verið til að kynda verðbólgubálið. Nú er Kristrún með téðan Dag í aukaleikarahlutverki á sínum lista í Reykjavík, og það er fullkomlega ótrúverðugt, að Samfylkingin muni með ráðstöfunum sínum í ríkisstjórn viðhalda núverandi vaxtalækkunarhraða, hvað þá að auka hann.
Í hverju er óstjórn síðustu ára fólgin ? Er hún fólgin í því að fylgja í einu og öllu ofstækisfullum tillögum Ölmu Möllers, landlæknis, og sóttvarnalæknis hennar í Kófinu, en téð Alma skipar nú efsta sæti á einum lista Samfylkingar fyrir Alþingiskosningarnar 30.11.2024 ? Var það sök ríkisstjórnarinnar, að stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar fór á hliðina í Kófinu ? Íslenzka ríkisstjórnin brást við Kófinu með svipuðum hætti og víða átti sér stað. Það ásamt tekjutapi og dúndrandi halla á ríkissjóði olli hárri verðbólgu ? Hvaða athugasemdir gerði Samfylkingin við það á sínum tíma ? Það er lítilmannlegt að koma eftir á og gefa í skyn, að Samfylkingin hefði staðið öðru vísu að málum. Það er einfeldningslegt og ótrúverðugt að halda því fram, að efnahagsstjórnin hefði farið betur úr hendi Samfylkingar í Kófinu og í kjölfar þess.
"Samfylkingin er eini flokkurinn með plan um að negla niður vexti og verðbólgu. Allir flokkar tala um að gera þetta - en hverjum er treystandi ? Alla vega ekki þeim, sem hafa stjórnað landinu síðustu árin, og ekki þeim, sem lofa öllum öllu alls staðar.
Plan Samfylkingar til að negla niður vextina er þríþætt. Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til að fjölga íbúðum strax. Stöðugleikaregla í ríkisfjármálum til að ríkissjóður hætti að valda verðbólgu. Og tiltekt í ríkisrekstri ásamt tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum - án þess að hækka skatta á almenning."
Hvers konar bull er þetta eiginlega í bankaprinsessunni. Verðbólga hjaðnar nú tiltölulega hratt, og 20. nóvember 2024 voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 %. "Plan" Samfylkingar er hvorki fugl né fiskur. Það sem þarf að gera í húsnæðismálum er einfaldlega að brjóta nýtt byggingarland í miklu magni og selja lóðaafnotin á verði sem næst kostnaði. Húsnæðisverð er nú svo hátt, að spurn eftir slíkum lóðum mun verða gríðarleg. Klunnaleg forræðisinngrip Samfylkingar munu aðeins gera illt verra.
Það er fyrir hendi stöðugleikaregla í ríkisfjármálum, en Samfylkingin ætlar að finna upp hjólið. Það er þvættingur, að aukin skattheimta af fjármagni og fyrirtækjum komi ekki niður á almenningi. Aukin skattheimta af sparnaði mun draga úr sparnaði, sem hefur tilhneigingu til að hækka vexti. Aukin skattheimta af fyrirtækjum er líka verðbólguhvetjandi. Ef fyrirtækin geta ekki sett kostnaðarauka sinn út í verðlagið, minnkar geta þeirra til launahækkana og fjárfestinga, sem getur valdið ólgu á vinnumarkaði og samdrætti í byggðum, þar sem fyrirtækin starfa. Samfylkingin ætlar að hrifsa í stýri ríkisfjármálanna með skatta- og gjaldahækkunum, sem draga munu úr hagvexti og vera verðbólguhvetjandi. Þetta eru eins viðvaningsleg vinnubrögð og hugsazt getur og algerlega óþörf.
Kristrún Frostadóttir er úti á túni sem formaður stjórnmálaflokks. Hún heldur því fram, að stýrivextir hafi verið 9,00 % í meira en eitt ár. Þeir voru lækkaðir í 9,00 % við vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans næstu á undan þeirri 20.11.2024. Þá er villandi hjá henni að tala um hallarekstur á ríkissjóði í 9 ár. Ríkisstjórnin reiknar með 2 árum í viðbót, þ.e. afgangi 2027, sem verður fyrr, ef ríkisstjórn búhygginda og hagvaxtar tekur hér við eftir næstu kosningar, en það er borin von með ríkisstjórn viðvaninga með þenslu ríkisbúskapar á stefnuskrá sinni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.