Gloppóttur formaður stjórnmálaflokks

Formanni Samfylkingarinnar eru ótrúlega mislagðar hendur, sem ætti að vera tilvonandi kjósendum flokks hennar mikið áhyggjuefni.  Henni tókst ekki betur til við að gera skattyfirvöldum grein fyrir bónusum, sem hún fékk hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, bankastofnun nokkurri, þótt ekki sé fyllilega ljóst, hvaða árangri hún náði í starfi til að verðskulda sérstaka umbun, sem þegar upp var staðið reyndist nema um MISK 100.

Hún fékk athugasemdir frá skattayfirvöldum við það, hvernig hún taldi þennan bónus fram til skatts.  Þá greip hún til leiðréttingar á framtali sínu og var í kjölfarið gert að greiða tugi milljóna ISK til viðbótar.  Kristrún Frostadóttir vill beita þungri skattheimtu á "breiðu bökin", en þegar kemur að henni sjálfri velur hún fremur að freista þess að sleppa með lægri skattheimtu en skattayfirvöld telja eðlilega og rétta.  Þetta bendir til tvískinnungs í eðli Kristrúnar.  Er slíkur formaður trúverðugur ?

Í hámæli komust samskipti, sem hún átti í við væntanlegan kjósanda flokksins.  Sá var með böggum hildar að þurfa að styðja við kjör Dags B. Eggertssonar, fyrrum borgarstjóra, ef hann greiddi lista, þar sem Kristrún trónir í efsta sæti, atkvæði sitt.  Hún benti honum á, að hann gæti strikað Dag út.  Hann væri hvort eð er bara aukaleikari og yrði ekki ráðherra hjá henni.  Þarna hikar Kristrún Frostadóttir ekki við að reka rýting í bak manns, sem hún var nýlega búin að sýna traust og virðingu með því að bjóða honum sæti 2 á lista sínum. Þetta er ómerkileg framkoma við flokksmann hennar.  Sumir mundu kalla þetta svívirðilega hegðun. Þetta er merki um svo alvarlegan persónuleikabrest, að mikið áhyggjuefni ætti að vera fyrir landsmenn, ef slík manneskja hlýtur ráðherradóm eftir kosningarnar 30.11.2024. 

Þá er komið að þætti Þórðar nokkurs Snæs Júlíussonar.  M.v. feril þess manns er með öllu óskiljanlegt, að Kristrún Frostadóttir skyldi bjóða kjósendum lista síns upp á slíkt fúlegg í 3. sæti á eftir   braggaborgarstjóranum.  Verður nú vitnað í umfjöllun Ólafs E. Jóhannssonar um Alþingiskosningarnar 2024 á bls. 6 í Morgunblaðinu 15. nóvember 2024 undir fyrirsögninni:

"Forðast vanvirðu og álitshnekki".

"Nú hafa ýmis ummæli á bloggsíðu Þórðar Snæs Júlíussonar, sem situr í 3. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, verið rifjuð upp, en þar fer hann m.a. ófögrum orðum um fólk og einkum konur.  Sagði þær t.d. "lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur.""

Framhaldið á tilvísunum í þennan dela er óprenthæft.  Það, sem hann gubbar út úr sér, ber vitni um sjúklega hatursfullt hugarfar.  Að maður með svo skítlegt eðli skuli hafa verið valinn ofarlega á framboðslista af Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingar, er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glópsku, flausturshátt og almennt léleg vinnubrögð þessa formanns. Það er ófélegt, ef vinnubrögðin í næstu ríkisstjórn verða af þessu taginu (engin athugun, fljótfærni og flaustur).

"Siðareglurnar, sem finna má á heimasíðu Samfylkingarinnar, eru í 15 tölusettum liðum.  14. grein siðareglnanna er athyglisverð í ljósi ýmissa ummæla Þórðar Snæs, en þar segir: "Við stuðlum að jákvæðum flokksanda og forðumst að aðhafast nokkuð, sem getur orðið okkur sjálfum, kjósendum okkar eða Samfylkingunni til vanvirðu og álitshnekkis."

 Formaður Samfylkingarinnar lét hjá líða að fordæma harðlega vítaverð ummæli gaursins, sem hún af einhverjum mjög undarlegum ástæðum stillti upp í 3. sæti á lista sínum í Reykjavík.  Þar með gjaldfelldi hún flokk sinn og gerði siðareglur flokksins að einskærri dyggðaskreytingu.  Tvöfalt siðgæði einkennir Samfylkinguna og má segja, að hæfi skel kjafti.  

Þetta reginhneyksli komst í hámæli, þegar orðið var of seint að breyta framboðslistum, en hvað verður um téðan gallagrip, ef honum skolar á þing ?  Hvað mun Ríkisútvarpið gera varðandi fasta viðveru Þórðar Snæs vikulega í morgunútvarpi Rásar 1, en oft virðist vera römm taug á milli RÚV og Samfylkingarfólks.

Hér hefur verið drepið á 3 atriði, sem hvert um sig gefur til kynna, að Samfylkingin hafi keypt köttinn í sekknum með núverandi formanni sínum.  Þegar öll þessi atriði koma saman, er rík ástæða fyrir þjóðina til að gjalda varhug við stjórnmálaflokki, sem stjórnað er af Kristrúnu Frostadóttur.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband