29.11.2024 | 16:53
Stefna Samfylkingar hækkar húsnæðiskostnað, verðbólgu og vexti
Það er athyglisvert, að nýlegur formaður Samfylkingar hefur ekki tekið til hendinni og leiðrétt meinloku flokksmanna sinna í borgarstjórn, en þar hafa þeir í meira en áratug rekið stefnu, sem aukið hefur nýbyggingarkostnað í borginni gríðarlega, en það er lóðaskortsstefnan. Hún lýsir sér í mjög litlu framboði nýrra lóða vegna ofuráherzlu á s.k. þéttingarstefnu, þar sem nánast eingöngu er byggt í grónum hverfum, þar sem lóða- og byggingarkostnaður er miklu meiri en þar, sem nýtt land er brotið undir byggð. Þar að auki hefur borgin ýtt undir lóðabrask með uppboði á lóðum.
Nú stendur borgin í vegi fyrir útvíkkun byggingamarka á höfuðborgarsvæðinu, sem þrengir að öllum sveitarfélögunum þar. Hvað á þessi yfirgangur borgarinnar að þýða ?
Pólitískir flautaþyrlar, oft á tíðum ákafir fylgismenn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, hafa þyrlað upp miklu moldviðri um það, að háir vextir á Íslandi valdi háum byggingarkostnaði í evrópsku samhengi. Hér skiptir atvinnustig, hagvöxtur og ráðstöfunartekjur miklu máli fyrir almenning í landinu, þegar bera á saman byggingarkostnað við önnur lönd og sömuleiðis, þegar meta á hagkvæmni þess fyrir landsmenn að ganga í ESB m.v. veru í EFTA/EES eða EFTA og víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.
Grein Jóns Helga Egilssonar, verkfræðings og doktors í hagfræði, í Morgunblaðinu 23. nóvember 2024 varpar ágætu ljósi á þetta. Greinin bar fyrirsögnina:
"Húsnæðiskostnaður í Evrópu og á Íslandi".
Hann birtir graf, þar sem fram kemur, að húsnæðiskostnaður á Íslandi er á meðal hins lægsta í Evrópu, þegar hann er reiknaður sem hlutfall af heildarútgjöldum samkvæmt gögnum hagstofu ESB, Eurostat. Vextir af húsnæðislánum draga yfirleitt dám af almennum umsvifum í þjóðfélaginu, og eru lægri, þar sem hagvöxtur er lítill sem enginn en þar, sem mikil atvinna er og þjóðarframleiðsla á mann vex. Á Íslandi eru ráðstöfunartekjur heimila hærri en í flestum Evrópulöndum. Verði tekin hér upp evra, mun snarast á merinni, og niðursveiflur hagkerfisins verða teknar út með atvinnuleysi, sem hlutfallslega mest er á meðal ungs fólks. Þar með hefst mikill vítahringur. Um þetta samband ritaði Jón Helgi af þekkingu:
"Mikill hagvöxtur á Íslandi er jákvætt vandamál, þar sem hærri vextir eru oft fylgifiskur þróttmikils efnahagslífs og vaxtar. Á sama hátt fara lægri vextir, hnignun og samdráttur efnahagslífsins oft saman.
Landsframleiðsla á Íslandi á hvern íbúa er [á] meðal þess, sem bezt gerist í heiminum. Öflugt atvinnulíf og hagvöxtur er grundvöllur hærri launa og bættra lífskjara. Í aðdraganda kosninga er rætt um upptöku evru, en upptaka evru getur haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni, atvinnustig, þjóðarframleiðslu og lánshæfismat. Kostur við eigin mynt er aðlögunarhæfni að raunverulegri stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma, sem eykur líkur á að viðhalda samkeppnishæfni Íslands, sem er grunnur að öflugu atvinnulífi.
Í nýlegri skýrslu Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, um versnandi stöðu Evrópu í samanburði við Bandaríkin kom einmitt fram, að hlutfallsleg samkeppnisstaða Evrópu hefur versnað stórlega síðustu 25 árin.
Evran var einmitt kynnt fyrir 25 árum. Án eigin gjaldmiðils, sem endurspeglar efnahagslegan veruleika hverju sinni, fer aðlögun efnahagslífsins fram í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi atvinnuleysi og fólksflótta, eins og víða er raunin á evrusvæðinu."
Hér tíundar hagfræðidoktor nokkrar staðreyndir um það, hvers vegna innganga Íslands í Evrópusambandið (ESB) mundi hafa í för með sér lakari lífskjör fyrir almenning á Íslandi en hann býr við núna í EFTA og EES. Grunnristir stjórnmálamenn Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar reyna með eins konar trúarbragðaklisjum að telja þjóðinni trú um hið gagnstæða. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi, að auðlindastjórnun lands og sjávar verði betur fyrir komið í Brüssel og að þá verði lífskjarabatinn hraðari, ef örfáir komast á þing ESB og 1 fái setu í framkvæmdastjórninni. Að bera þessa gömlu lummu á borð fyrir landsmenn nú er hræðileg tímaskekkja, því að nú er óvissan um afleiðingar inngöngu minni en áður. Samt veit enginn, hvort ESB verður sambandsríki með eigin hervarnir eftir 5 ár, 10 ár eða aldrei.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning