Afar árangurslítil loftslagsstefna

Mannkynið hefur gert orkubyltingar áður með árangursríkum hætti, en þá að frumkvæði markaðarins og hið nýja orkuform hefur verið tilbúið til að taka við. Nú er staðið öðruvísi að málum, enda hefur þeim verið klúðrað.  Stjórnmálamenn hafa ákveðið að venja mannkynið af að nota jarðefnaeldsneyti, og bera því við, að ella geti andrúmsloft jarðar hitnað meira en svo, að lífvænlegt verði á jörðunni fyrir mannkyn.  Koltvíildi, CO2, sem losnar úr læðingi við bruna jarðefnaeldsneytis, er gróðurhúsalofttegund, þ.e. hún endurvarpar og/eða sýgur í sig hitaendurkast frá jörðu.  Um þetta er ekki deilt, en það ríkir ágreiningur á meðal vísindamanna um það, hversu hratt andrúmsloftið hitnar af þessum völdum, og það hefur áður orðið hlýrra, þó að styrkur koltvíildis hafi ekki aukizt.  Ýmsar gervihnattamælingar hitastigs andrúmslofts, sem unnið hefur verið úr við Alabama-háskólann í Bandaríkjunum, sýna mun lægri hitastigul en þann, sem Milliríkjaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál heldur fram, að sé við lýði. Þá eru kenningar á lofti um, að styrkur koltvíildis hafi þegar náð hámarkseinangrunargildi, svo að frekari losun hafi ekki áhrif á hitastig andrúmslofts.

Hitt atriðið, sem er frábrugðið nú m.v. fyrri orkuskipti, er, að nýtt orkuform er ekki fyrir hendi til að taka við af jarðefnaeldsneytinu. Eðlilegt viðbragð hefði verið að leggja höfuðáherzlu á þróun nýrrar orkulindar, en í staðinn hefur fjármagni verið beint að gölluðum orkulindum, vindi og sól.

Kaupmannahafnarhugveitan undir forystu Björns Lomborg hefur lengi haldið því fram, að opinberu fé í þennan málaflokk væri bezt varið til rannsókna í því skyni að leiða fram frambærilega valkosti.  Til að geta kallazt frambærilegur valkostur, þarf nýja orkuformið að endast í a.m.k. 100 ár m.v. fulla notkun, og nýting þess verður að vera ódýrari en nýting jarðefnaeldsneytis.  Eftirlæti stjórnmálamanna hingað til sem valkostir eru vindhverflar, sem knýja rafala, og sólarhlöður tengdar rafölum, en hvorugur þessara kosta getur óniðurgreiddur keppt við jarðefnaeldsneyti, hvorki í orkumagni né verði.  Líklegast er, að þróunin leiði fram einhvers konar kjarnorkuhverfla, sem knýja rafala. 

Björn Lomborg skrifaði grein, sem birtist í Morgunblaðinu 02.12.2024, undir fyrirsögninni:

"Dýr loftslagsstefna er dauð - og það gæti verið stórt tækifæri".

Hún hófst þannig:

"Nýliðin lofslagsráðstefna var jafnhræsnisfull og gagnslaus og allar fyrri slíkar ráðstefnur, þar sem fæstir stjórnmálaleiðtogar heimsins nenntu ekki einu sinni að mæta.  Samt flugu um 50 k manns hvaðan æva að úr heiminum á ráðstefnuna og sögðu okkur hinum um leið að hætta að fljúga. Leiðtogar frá fátækari löndum skipulögðu sýndargjörning, þar sem þeir "gengu út", og ríkar þjóðir enduðu á að lofa loftslagssjóði upp á 300 mrdUSD/ár. 

 Fjárhagsaðstoð vestrænna þjóða við s.k. vanþróaðar þjóðir hefur að miklu leyti farið í súginn og ekki gagnast alþýðunni í þessum ríkjum.  Það er ekki einfalt fyrir aðkomumenn frá Vesturlöndum að reyna að skilja gang mála í hinum s.k. Þriðja heimi, og þess vegna má gera því skóna, að ráðstefnur "elítanna", sem fjalla um miklar fjárhagslegar yfirfærslur, séu svikamylla sett á til höfuðs ofkeyrðum skattborgurum Vestrænna ríkja.  Öllu meira vit er í, að Alþjóðabankinn styrki og láni til framkvæmda við mótvægisaðgerðir gegn afleiðingum hlýnunar, hækkunar sjávarborðs o.þ.h. og hafi með þeim strangt eftirlit.

"Koltvísýringslosun heldur áfram að aukast vegna þess, að ódýr og áreiðanleg orka, sem kemur að mestu frá jarðefnaeldsneyti, knýr hagvöxt.  Rík lönd eins og Bandaríkin og aðildarríki Evrópusambandsins eru byrjuð að draga úr losun, en aðrir heimshlutar eiga fullt í fangi með að fást við fátækt.

Ríku löndin hafa reynt að múta þeim fátæku til að samþykkja minni losun, aðallega með því að taka hefðbundna þróunaraðstoð og gefa henni nafnið loftslagsskuldbindingar.  Ekki kemur á óvart, að yfirborðskennd loforð ríkra þjóða hafa leitt til yfirborðskenndrar þátttöku fátækra landa í loftslagsleikritinu, á meðan þau auka í raun hagvöxt sinn með sívaxandi notkun jarðefnaeldsneytis.  Að lofa hundruðum milljarða [USD] til viðbótar, sem ríku löndin hafa í raun ekki efni á, er aðeins ávísun á meiri leikaraskap frá öllum aðilum."

Loftslagsstefna Sameinuðu þjóðanna er sorgarleikur, reistur á vanhugsaðri hugmyndafræði stjórnmálamanna, sem aldrei gat gengið upp, hreinn kjánaskapur, því að tæknin er ekki tilbúin.  Verðandi Bandaríkjaforseti boðaði í kosningabaráttunni, að hann myndi draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, næði hann kjöri.  Það verður væntanlega banabiti þessarar vonlausu stefnu, því að sáralítið munar um Evrópu eina.  Þar að auki hefur hún ekki ráð á þeim viðbótar kostnaði, sem af stefnunni leiðir fyrir einstaklinga og fyrirtæki.  Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar, hefur í viðamikilli skýrslu varað alvarlega við lélegri og versnandi samkeppnishæfni Evrópusambandsins (ESB), og hátt orkuverð og kolefnisgjöld eiga þar hlut að máli.  Draghi hefur komið auga á, að reglugerðafargan ESB er dragbítur á samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland er bundið á klafa ESB í þessum dæmalausu loftslagsmálum.

"Grænir aðgerðasinnar halda því fram, að alþjóðleg orkuskipti frá jarðefnaeldsneyti séu óstöðvandi, en á síðasta áratugi og jafnvel bara á síðasta ári, hefur notkun orku frá jarðefnaeldsneyti aukizt tvisvar sinnum meira en notkun grænnar orku.  Jafnvel bandaríska orkumálastofnunin, sem starfar undir stjórn Bidens, spáir því, að notkun jarðefnaeldsneytis muni aukast fram til ársins 2050."

Það er himinn og haf á milli þess, sem gerist á árlegum  ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna, þangað sem tugþúsundir fljúga, og raunveruleikans. Sameinuðu þjóðunum virðast mjög mislagðar hendur við úrlausn hvers kyns verkefna.  Þar eru skrifaðar langar skýrslur, en þær virðast ófærar um að móta raunhæfa stefnu í nokkru mikilvægu máli.  Reksturinn er rándýr, og þar grasserar spilling.  Hvenær verður þetta misheppnaða  eftirstríðsfyrirbrigði (1945) lagt niður í sinni núverandi mynd ? Stóryrði og hræðsluáróður núverandi framkvæmdastjóra (Sþ) orka mjög tvímælis. 

Þýzkaland þykir vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og er það á mörgum sviðum, en þrátt fyrir öll vindorkuverin og sólarhlöður á þökum húsa mundi það taka Þjóðverja hálfa öld að losna úr viðjum jarðefnaeldsneytis með núverandi framvindu. 

"Áætlunin um enga nettólosun gróðurhúsalofttegunda, sem reist er á gríðarlegum ríkisstyrkjum og kostnaðarsömum lagasetningum, mun kosta TriUSD 27/ár á þessari öld  [Tilljón USD = 1000 mrdUSD], sem gerir hana fullkomlega fráhrindandi fyrir flest lönd.  Trump mun henda þessum áætlunum í ruslið.  Án gríðarlegra millifærslna peninga munu Kína, Indland og mörg önnur þróunarlönd einnig hafna þessari áætlun.  Þá er eftir sundurleitur hópur, aðallega frá Evrópusambandinu, sem hefur í raun varla efni á eigin áætlunum og enga getu til að fjármagna önnur lönd."  

Þetta verkefni þarf að eftirláta "frjálsum" markaði og liðka fyrir tæknilegri þróun á raunhæfum valkostum við jarðefnaeldsneytið með rannsóknarstyrkjum og skattaafslætti vegna slíks þróunarkostnaðar, en draga úr opinberum stuðningi við vindrafstöðvar og sólarhlöður.  Eitt af því, sem vonir eru bundnar við núna, eru 4. kynslóð kjarnorkuvera. 

"Þróun grænnar orku, þannig að hún verði ódýrari en jarðefnaeldsneyti er eina leiðin til að fá alla til að breyta um stefnu.  Þessi aðferð getur jafnvel sannfært stjórnmálamenn, sem eru fullir efasemda um loftslagsbreytingar, þar sem þeir sjá mikla möguleika í ódýrari orku."

Íslendingar eru í einstakri stöðu varðandi, hvað mun leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á Íslandi, á láði, legi og í lofti.  Það eru nýjar virkjanir vatnsfalla og jarðgufu.  Ef nóg framboð verður af nýjum virkjunum þessara orkulinda, verður spurn eftir vindorku ekki mikil.  Hún kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við hinar orkulindirnar tvær, hvað kostnað, rekstraröryggi og umhverfisrask varðar.  Rafeldsneyti er afar kostnaðarsamt í framleiðslu m.v. orkuna, sem úr því fæst, svo að sjálfsagt er að beina sjónum að lífeldsneyti, t.d. repjuolíu, og efla þannig innlendan landbúnað. Hagkvæm tækni til að knýja minni loftför með rafmagni og jafnvel flugvélar til að halda uppi innanlandsflugi, gæti komið fram í lok þessa áratugar. 

Landsmönnum hefur tekizt að koma sér upp miklu sjálfskaparvíti, þar sem er undirbúningsferli og leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir.  Vonandi tekst fljótlega að vinda ofan af því, þar sem reginafturhaldinu og sérvitringastóðinu, VG og pírötum, var hent úr af Alþingi í síðustu kosningum, en vafalaust þarf að glíma við skoðanasystkini þeirra í embættismannastóðinu. 

"Loftslagsaðgerðasinnar geta eytt næstu 4 árum í áframhaldandi stuðning við áætlun, sem hefur mistekizt síðustu 3 áratugi og mótmælt stefnu Trump-stjórnarinnar.  Hinn kosturinn er að nýta tækifærið til að endurhugsa skynsamlegri og mun ódýrari græna nýsköpunarstefnu - og sinna öllum hinum brýnu vandamálum heimsins." 

Hin ósjálfbæra og óskynsamlega viðtekna loftslagsstefna er borin uppi af fjölda möppudýra á opinberu framfæri og einhvers konar trúarhetjum, sem tala og skrifa eins og heilaþvegnir hafi verið.  Þetta fólk mun þess vegna halda uppteknum hætti, berja hausnum við steininn og sópast á fundi og alþjóðlegar ráðstefnur, sem engu skila fyrir skattborgarana.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband