Framlag Björns Lomborg

Björn Lomborg hefur lagt margt nytsamlegt til loftslagsmálanna og til baráttunnar við örbirgð í heiminum, t.d. með því að benda á, hvernig fjármunir nýtast bezt við að fást við þessi viðfangsefni.

Hann hefur bent á arfaslakan árangur af loftslagsstefnu Sameinuðu þjóðanna (Sþ), sem fram kemur í aukningu losunar koltvíildis allt fram á þennan dag, t.d. frá kolaorkuverum.

Á Bretlandi hófst kolabrennsla með iðnbyltingunni. 30. september 2024 lauk þessu kolabrennslutímabili á Bretlandi, þegar síðasta kolakynta orkuverinu var lokað þar.  Aðeins þriðjungur ríkja OECD býr nú við kolalausa raforkuvinnslu.  Um þriðjungur af raforkuvinnslu heimsins á sér stað í kolakyntum orkuverum um þessar mundir.  Flest eru þau staðsett í s.k. þróunarríkjum, sem telja þau nauðsynlega undirstöðu hagvaxtar hjá sér.  Þungvæg rök mæla þó gegn rekstri þeirra.  Loftmengun kolaorkuvera verður árlega milljónum manna að aldurtila.  Þau leggja mikið til gróðurhúsaáhrifanna, sem bitna mest á fátækum ríkjum.  Samt hillir ekki undir, að þau verði aflögð. 

Samkvæmt BloombergNEF-rannsóknarfyrirtæki óx kolanotkun heimsins 2023 um 4,5 % og náði hæstu hæðum í sögunni, og kolin fóru að mestu til raforkuvinnslu.  Orkuvinnslugeta kolaorkuvera hefur vaxið um 11 % frá 2015 samkvæmt E3G-ráðgjöfum.  Það eru núna meira en 6500 kolaorkuver í rekstri með uppsett afl um 2245 GW, og enn er verið að reisa slík ver.  Þar sem kolaorkuver losa mun meira kolefni per orkueiningu út í andrúmsloftið en orkuver knúin olíu eða jarðgasi, eru þau sérlega óheppileg til raforkuvinnslu, en þau standa undir 41 % af losun gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis. 

Björn Lomborg hefur skrifað margt af skynsamlegu viti og þekkingu um misheppnaða baráttu Sþ við loftslagsvána.  Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2024 undir fyrirsögninni:

"Nýársheit til framfara - gerum það, sem virkar"

"En hinn grimmilegi [grimmdarlegi] sannleikur er sá, að alþjóðlegt samstarf hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarinn áratug.  Árið 2015 settu Sameinuðu þjóðirnar fram 169 punkta áætlun til að leysa fyrir árið 2030 öll vandamál, sem mannkynið stóð þá frammi fyrir.  [Þessi markmiðasetning er með ólíkindum óraunsæ og sýnir í hnotskurn vitleysuna, sem viðgengst innan Sþ - innsk. BJo.]  Hin svokölluðu heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af öllum leiðtogum heimsins með góðum ásetningi [líklegast þó engum ásetningi - innsk. BJo]. Nú þegar 5 ár eru eftir af þessum 15, erum við hvergi nálægt lagi, hvað snertir öll 169 loforðin.  Baráttan gegn fátækt, sjúkdómum og hungri hefur misst kraftinn.  Af hverju náum við ekki betri árangri ?  Að miklu leyti vegna þess, að við reynum að gera of mikið.  Ef við ætlum að einbeita okkur að öllu, þýðir það, að við höfum engu forgangsraðað og áorkað mjög litlu. 

Nýtt ár býður upp á nýtt tækifæri.  Í stað þess að reyna að gera allt - bæði sem samfélag og sem einstaklingar með okkar eigið framlag - ættum við að einbeita okkur að þeim aðgerðum, sem skila mestum framförum.  Það eru þær aðgerðir, sem skila mestri arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir."

Þetta eru heilbrigð viðhorf og höfundi þessa pistils dettur í hug, að leitun hljóti að vera að verkefnum, sem skila meiri "arðsemi fjárfestinga fyrir fólk, jörðina og komandi kynslóðir" en virkjun íslenzkra vatnsfalla og jarðgufu. Samt hefur afturhaldinu á Íslandi tekizt að drepa þessu máli á dreif með fullyrðingum út í loftið um, að enginn raforkuskortur sé á Íslandi.  Að baki þessari röngu fullyrðingu liggja þau falsrök, að losa megi um mikla raforku og hleypa henni á markaðinn með því að taka núverandi raforkunotendur stóriðju, sem allir eru með langtímasamninga við aðallega Landsvirkjun og OR, kverkataki og draga stórlega úr umsaminni orkuafhendingu þangað. Hér eru á ferðinni draumórar villta vinstrisins á Íslandi, sem skeyta hvorki um skömm né heiður og mundu ekki víla fyrir sér að eyðileggja gjörsamlega orðstír Íslands á alþjóðlegum fjárfestinga- og peningamarkaði. Það er ótrúleg blinda og heimska, sem að baki liggur, enda synjuðu kjósendur þessum pólitísku öflum, sem einnig er að finna í Landvernd, um seturétt á Alþingi í kosningunum 30.11.2024. Mörgu ófélegu skolaði reyndar á land þar, sem landsmenn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með, en þó ekki þessu. 

"Þegar barnshafandi móður skortir nauðsynleg næringarefni og vítamín, verður vöxtur og heilaþroski barnsins hægari.  Börnin hennar eru dæmd til verra lífs.  Jafnlág upphæð og USD 2,31 getur tryggt, að verðandi móðir fái fjölvítamín, sem þýðir, að börnin hennar verða heilbrigðari, klárari og afkastameiri.  Hver USD, sem varið er í fæðubótarefni fyrir barnshafandi konur, getur skilað allt að USD 38 í efnahagslegum ávinningi.  Þetta er ekki fjarlæg útópía.  Þetta er raunhæf, sannreynd lausn, sem hægt væri að útfæra strax á mun stærri skala."

 Þetta er ein af góðum hugmyndum Kaupmannahafnarhugveitunnar um aðstoð við fátækar þjóðir, sem skilar betri árangri en margt það, sem nú er gert í þeim efnum af takmörkuðum skilningi á aðstæðum, svo að ekki sé nú talað um sóunina í nafni loftslagsins.  Á Íslandi hefur draumórafólki t.d. dottið í hug að flytja inn koltvíildi frá útlöndum til að farga því með niðurdælingu með ærnum tilkostnaði í Straumsvík.  Þegar búið er að skilja CO2 frá verksmiðjuafsogi, er komið hráefni, sem nota má hreinsað við ræktun í gróðurhúsum eða sem blöndunargas í vetni við rafeldsneytisframleiðslu.  Skrýtið að láta sér detta í hug mikið fjárfestingarverkefni til að dæla verðmætum ofan í jörðina. 

  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband