4.1.2025 | 18:25
Hlutverk vindorkuvera á Íslandi
Uppsetning vindorkuvera á Íslandi er afturför í virkjanasögu landsins. Vel hefur tekizt til með að fella núverandi vatnsafls- og jarðgufuver að náttúru landsins, og þótt tekið sé tillit til lands, sem farið hefur undir vatnsmiðlanir virkjana, þá er landþörf þessara virkjana m.v. raforkuvinnslugetu þeirra, GWh/ár, lítil m.v. vindorkuver. Í ofanálag er mesta hæð og fyrirferð spaðanna, sem fanga vindinn og knýja rafalana (>200 m), slík, að mannvirkin verða áberandi í landslaginu langar leiðir. Vindorkustöðvar eru þess vegna neyðarbrauð í íslenzku umhverfi. Uppsetning þeirra er vart réttlætanleg, nema í alvarlegum afl- og orkuskorti, eins og nú hrjáir landsmenn, en allt of hár fórnarkostnaður fylgir þeim, til að uppsetning vindorkustöðva til rafmagnsframleiðslu fyrir rafeldsneytisframleiðslu sé réttlætanleg.
Ástæðan er fyrirferð vindorkuvera og afspyrnu léleg orkunýtni við að framleiða rafeldsneyti með raforku úr vindorku. Sem kunnugt er þá er rekstur vindorkuvera svo slitróttur að líkja má við full afköst í 18 vikur og kyrrstöðu í 34 vikur á ári. Orkuverið stendur á fjallinu eða á heiðinni eða annars staðar gagnslaust og öllum til ama í 65 % af árinu. Nýtni við að breyta raforkunni í hreyfiorku með bruna rafolíu er 16 %, með bruna metanóls 16 %, með bruna ammóníaks 19 %, og til samanburðar með bruna vetnis í efnarafala 48 %.
Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti er verið að breyta háu orkustigi í lágt orkustig, sem segir til um nýtanleika raforkunnar. Raforka er á hæsta orkustiginu, enda er hún notuð til að knýja rafbúnað með litlum töpum í flestum tilvikum (lýsingarbúnaður hefur tekið stórstígum framförum varðandi nýtni (birta á afleiningu). Eldsneyti framleitt með raforku felur í sér lækkun orkustigs, sem að jafnaði ber að forðast, því að stefna ber að beztu mögulegu hagkvæmu nýtni.
Vetni er í öllu rafeldsneyti, og rafgreining þess útheimtir um 23 kWh/kg, sem er um 77 % meira rafmagn en þarf til rafgreiningar súráls, og úr álinu eru smíðaðir nytjahlutir, sem suma má nota í stað annarra málma til að draga úr orkunotkun. Þarna er því ólíku saman að jafna. Til að framleiða rafeldsneyti fyrir einn eldsneytisbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 5 rafmagnsbíla. Sú notkun rafeldsneytis er þess vegna glórulaus. Meira er horft til notkunar rafeldsneytis í vinnuvélum, skipum og flugvélum. Það er ótímabært fyrir Íslendinga að fórna stórum landsvæðum undir vindorkuver til að framleiða rafeldsneyti fyrir þessi tæki, því að ódýrara og umhverfisvænna er að rækta jurtir, t.d. repju, til að vinna olíu úr, og síðan er tækniþróunin í þá átt að nota rafmagn til að knýja æ stærri vélar í framtíðinni.
Íslendingar eru bundnir á klafa Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í þeim mæli, að hækkun hitastigs jarðar frá um 1800 haldizt innan við 1,5°C. Þetta er mjög loðin stefnumörkun, sem mun fyrirsjáanlega fara í vaskinn innan tíðar samkvæmt mælingum Sþ. Á grundvelli þessa var Íslendingum úthlutaður losunarkvóti frá árinu 2020, sem þýðir, að f.o.m. því ári og fram t.o.m. 2030 skulu þeir draga jafnt og þétt úr losun, svo að á árinu 2030 nemi hún 29 % lægra gildi en árið 2005. "Metnaðarfullir" og sanntrúaðir stjórnmálamenn í Evrópusambandinu, ESB, og EFTA-ríkjunum í EES, Noregi og Íslandi (óljóst með Liechtenstein) hækkuðu þetta markmið síðan upp í 41 %, sem gerir markmiðið erfitt viðureignar að óbreyttu. Að jafnaði þarf að draga úr losun hérlendis um 120 kt/ár til að ná þessu stranga markmiði. Það jafngildir 35 k eldsneytisbílar/ár úr umferð, sem er óraunhæft m.v. eðlilega endurnýjun. Aðrir notendur, t.d. fiskiskipin, gætu líklega mörg hver blandað eldsneyti sitt með lífdísilolíu, ef hún verður fáanleg á samkeppnishæfu verði, og landbúnaðurinn og sorphirðan gætu líklega dregið úr losun sinni, svo að í heild mætti sennilega með átaki ná þessum 120 kt/ár CO2.
Í grein Egils Þ. Einarssonar, efnaverkfræðings, sem birtist í Bændablaðinu 19. desember 2024 undir fyrirsögninni:
"Loftslagsmál og orka",
er m.a. fjallað um orkuskipti:
"Í marz 2022 var gefin út skýrsla á vegum Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins með heitinu "Staða og áskoranir orkumálum". Meginniðurstöður skýrslunnar eru nokkrar sviðsmyndir fyrir orkuöflun til áranna 2040-2050 og er metið fyrir hvert tilvik, hver aukningin þarf að vera í raforkuframleiðslu.
Grunnsviðsmyndin krefst 13 % aukningar raforkuframleiðslu [2600 GWh/ár - innsk. BJo] og miðast við að uppfylla grunnþarfir íslenzks samfélags og orkuskipti að hluta. Sú stærsta m.v. grunnþarfir samfélagsins, full orkuskipti á landi, sjó og lofti og þarfir stórnotenda á raforku og orkusækins iðnaðar og krefst 124 % aukningar [25 TWh/ár - innsk. BJo]. Skýrsluhöfundar taka ekki afstöðu til þessara tillagna, en fram kemur, að ef stefnt er að áframhaldandi hagvexti og sókn í útflutningi sé nauðsynlegt að auka raforkuframleiðslu [?!] um 100 MW/ár næstu 20-30 árin."
Þarna er í lokin ruglað saman hugtökum. Uppsett afl 100 MW/ár getur framleitt um 700 GWh/ár af raforku, sem eru 17,5 TWh/ár á 25 árum. Í 124 % sviðsmyndinni er reiknað með talsverðri framleiðslu á rafeldsneyti, sem felur í sér orkusóun og er þess vegna neyðarbrauð. Aðrar leiðir eru færar, og tækniþróunin mun geta af sér lausnir, sem fela í sér minni orkusóun.
Ný ríkisstjórn styðst við loðinn stjórnarsáttmála og "selvfölgeligheder", en samt virðist mega telja, að þessi sólhvarfaríkisstjórn vilji fremur hagvöxt en hitt. Hins vegar virðist henni ekki annt um útflutningsatvinnuvegina, því að í loðbrókinni er gælt við að grafa undan samkeppnishæfni þeirra, sem er grafalvarlegt mál fyrir lífskjör þjóðarinnar. Þjóðinni fjölgar og einvörðungu 3 % hagvöxtur á ári mun krefjast tvöföldunar raforkuvinnslunnar á 30 árum, þótt tekið sé tillit til bættrar orkunýtni með tækniframförum. Það þarf að velja orkuvinnslukosti á grundvelli þessarar þarfar og finna út, hvort hægt er að finna virkjunarlausnir, sem eru viðunandi út frá hófstilltum umhverfisverndarsjónarmiðum. Vonandi þarf að grípa til sem fæstra vindvirkjana.
Um "grænt eldsneyti" hefur Egill Þ. Einarsson m.a. eftirfarandi að segja:
"Við framleiðslu á "grænu" eldsneyti ber að hafa í huga, að verið er að umbreyta hærra orkustigi í lægra. Raforka er hæsta stig orku, og hægt er að nýta hana til að knýja vélar og rafbúnað beint að mestu án taps. Eldsneyti, sem framleitt er með raforku, inniheldur efnaorku, sem er lægra orkustig. Við bruna eldsneytis myndast varmi, sem notaður er til að knýja aflvélar. Aðeins um fjórðungur upprunalegu orkunnar nýtist í þessu ferli, en afgangurinn breytist í glatvarma. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er mjög orkufrek, og fyrir 1 kg af rafolíu þarf 22-24 kWh raforku. Til þess að framleiða eldsneyti fyrir 1 bensínbíl þarf raforku, sem dugir til að knýja 4-5 rafbíla. ..... Þess ber að geta, að ef vetni er notað á efnarafal, er nýtni tvöfalt meiri en fyrir annað rafeldsneyti."
Af þessu sést, hversu gríðarleg orkusóun felst í framleiðslu rafeldsneytis. Það er ekki verjanlegt að nota takmarkaðar orkulindir Íslands til framleiðslu rafeldsneytis í miklum mæli og alls ekki til útflutnings. Þetta ber að hafa í huga við veitingu virkjanaleyfa. Takmörkuðum orkulindum landsins ber að ráðstafa með skilvirkum hætti til orkuskipta og innlendrar atvinnuþróunar. Hvort tveggja leiðir til hagvaxtar, ef vel er á spilunum haldið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning