Stjórnsýsla Reykjavíkur á sviði mannvirkjagerðar er í molum

Samfylkingin og píratar hafa undanfarinn áratug rekið lóðamál, byggingamál og samgöngumál út frá kenningu, sem reist er á fölskum forsendum og stendst þess vegna ekki tæknilega rýni, eins og margoft hefur komið fram.  Þetta er kenningin um það, að umferðaröngþveiti í Reykjavík og nærsveitum verði aðeins leyst með "borgarlínu", sem eru miðjusettar 2 akreinar, 1 í hvora átt, enda slík lausn augljóslega sett til höfuðs fjölskyldubílnum. Þetta er langdýrasta lausnin og kallar að mati þeirra, sem þessa lausn bera fyrir brjósti, á að þvinga fólk bókstaflega vegna þrengsla út úr fjölskyldubílnum og upp í vagna "borgarlínu" og aðra vagna og jafnframt á þéttingu byggðar út frá ásum "borgarlínu".  Hér er misheppnuð og stórkarlaleg forræðishyggja vinstri flokkanna að verki, sem felur í sér lífsháttabreytingu borgaranna til hins verra og stenzt ekki tæknilega og fjárhagslega rýni.  

Ekki nóg með þetta, heldur hefur s.k. "þéttingarstefna" rýrt lífsgæði íbúanna, sem fyrir eru, þar sem borgaryfirvöldum dettur í hug að bera niður, jafnvel með stórhýsi, sem aðalskipulag veitir engan ádrátt um.  Þetta hefur komið áþreifanlega fram í umræðunni um vöruhús í Suður-Mjódd, sem er u.þ.b. jafnhátt fjölbýlishúsi þar í 14 m fjarlægð.  

Píratinn, sem stjórnar umhverfis- og skipulagssdviði borgarinnar, kom af fjöllum og fór að kenna verkferlum um.  Hún er ljóslega óhæf til þessa ábyrgðarhlutverks og ætti þegar í stað að segja af sér.  Píratar axla ekki ábyrgð, enda sjá þeir bara flísina í annarra auga, en ekki bjálkann í eigin auga. 

Í Morgunblaðinu 18. desember 2024 birti Baldur Arnarson frétt um Álfabakka 2 undir fyrirsögninni: 

"Margir komið að framkvæmdinni".

Hún hófst þannig:

"Halldór Þorkelsson, lögfræðingur framkvæmdaaðila í Álfabakka 2, segir þá hafa átt í miklum samskiptum við fulltrúa borgarinnar vegna vöruhússins í Suður-Mjódd.  Þeir eigi því bágt með að sjá, hvernig útkoman eigi að koma fulltrúum borgarinnar á óvart.

Tilefnið er fréttaflutingur af nýbyggingu í Álfabakka 2, en af því tilefni vill félagið, sem byggir og á húsið, Álfabakki 2 ehf, árétta nokkur atriði.  Í fyrsta lagi sé framkvæmdin unnin í samræmi við allar gildandi heimildir."

Þegar óhæfir pólitískir stjórnendur skipulags- og mannvirkjamála Reykjavíkur voru staðnir að verki að virða hagsmuni íbúanna ekki viðlits í ákafa sínum að leggja höfuðáherzlu á þéttingu byggðar, þá fóru þeir undan í flæmingi, voru hissa og kenndu jafnvel framkvæmdaaðilanum um, hvernig komið var.  Þetta sýnir, að stjórnsýsla Reykjavíkur á þessu sviði er í molum. Það er brýnt að kasta óhæfum sérvitringum út úr borgarstjórn, eins og Alþingi 30.11.2024, í næstu sveitarstjórnarkosningum. Farið hefur fé betra. 

Úrdráttur viðtals við Halldór Þorkelsson:

"Hvernig var málið kynnt fyrir haghöfum og nágrönnum ?  "Skuldbindingar framkvæmdaaðila eru gagnvart skipulags- og byggingaryfirvöldum, og gagnvart þessum aðilum eru allar teikningar, áformaður frágangur, útlit og fyrirkomulag kynnt.  Það er síðan á vegum borgarinnar, hvernig staðið er að nánari kynningu gagnvart nærliggjandi aðilum og öðrum hagaðilum.  Borgin var alfarið með það." " 

Hin pólitíska ábyrgð í þessu máli liggur hjá hinum pólitíska kommissar, sem settur var yfir umhverfis- og skipulagssvið. Þar er um að ræða óhæfan pírata, silkihúfu, sem algerlega hefur brugðizt starfsskyldum sínum í þágu íbúanna og verður að láta þegar í stað af þessu hlutverki, sem hún ræður ekki við.  Hún hefur bætt gráu ofan á svart með því að fara undan í flæmingi og kenna öllu öðru um en sjálfri sér.  Þarna hafa menn það, sem auðvitað var vitað fyrir, hvers konar stjórnendur píratakjánarnir eru, og hvernig þeir umgangast lýðræðislega ábyrgð sína. 

"Er rétt, að byggingarheimildir hafi ekki verið fullnýttar, en framkvæmdaaðili hafi engu að síður greitt fyrir þær allar ?

"Já, það er laukrétt.  Og ekki bara það, heldur lögðum við fram beiðni í ljósi þess, að byggingarlóðarhafi er krafinn um greiðslu byggingarréttar fyrir allt að 15 þús. m2 byggingu ofanjarðar.  Það varð fljótlega ljóst, að það væri ekki talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd á stærra húsi en sem nemur 11.500 m2.  Og þá fást þau svör hjá borginni, að það yrðu ekki gerðar breytingar á þessari greiðsluskyldu, nema gildandi diliskipulagi yrði breytt.  Þar af leiðandi fórum við fram á breytingar á gildandi deiliskipulagi, þannig að byggingarmagn á þessari lóð yrði fært niður í 11.500 m2.  Það var ekki fallizt á þá beiðni.""

Á umhverfis- og skipulagssviði var forystan sem sagt gallhörð á því að byggja 30 % meira á umræddri lóð en raumin varð.  Borgin samþykkti líka hæð byggingarinnar.  Það er við hana að sakast í þessu máli.  Að enginn skuli vera látinn taka hatt sinn og staf við þessar aðstæður sýnir, að stjórnkerfi borgarinnar, lengstum undanfarinn áratug undir forystu Samfylkingarmannsins Dags B. Egertssonar og nú framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar, er gegnumrotið. Það vakti athygli á dögunum, að Dagur B., sem hafði talið sér þingflokksformennsku hjá Samfylkingu vísa, var ekki talinn verðugur þeirrar stöðu af formanni flokksins.  Spurning vaknar, hvaða erindi maður, sem er í frystingu hjá Kristrúnu Frostadóttur, átti á þing ?   

 

   


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband