3.2.2025 | 17:49
Vatnshlot og þvíumlíkt frá ESB
Það kennir margra grasa í reglugerða- og tilskipanafargani ESB, sem hér er innleitt vegna EES-aðildar Íslands. Gagnrýnileysi og flaustur við þessa innleiðingu og jafnvel blýhúðun getur og hefur þegar orðið Íslandi afar dýrkeypt.
Það vantar í umræðuna um þetta mál, hvað átti raunverulega að verja með þessari lagasetningu um "vatnshlot". Á hún yfirleitt við á Íslandi ? Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð. Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ? Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina.
Fyrrverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra brást þar bogalistin og sama má segja um þingnefndina, sem um málið fjallaði. Þetta verður vonandi víti til varnaðar, því að óvönduð lagasetning hefur oft kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér.
Þann 16. janúar 2025 birtist frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Nýjar vatnsaflsvirkjanir í uppnámi"
Þar kom m.a. fram:
"Samkvæmt dómnum gerði löggjafinn Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipunin var sett í lög árið 2022, en sótt var um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021.
Breyting á vatnshloti þýðir, að verið er að breyta t.d. rennsli, sem gerist, þegar vatnsaflsvirkjanir eru byggðar. Heimild til breytingar á vatnshloti er forsenda þess að fá virkjunarleyfi frá Orkustofnun.
"Hann túlkar lagasetninguna þannig, að Umhverfisstofnun sé ekki heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti fyrir vatnsaflsvirkjun, sem þýðir bara, að það er óheimilt að virkja vatnsafl á Íslandi samkvæmt þessari túlkun", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Morgunblaðið, en tekur fram, að þetta sé mat lögmanna Landsvirkjunar á dómnum við fyrstu sýn."
Það er ástæða til að spyrja um erindi þessarar ESB-löggjafar til Íslands. Streymisstjórnun margra Evrópuþjóða á ám sínum er ekki til fyrirmyndar. Víða hefur verið þrengt svo að ánum, að við miklar rigningar flæða þær yfir bakka sína og valda tjóni og stundum dauða fólks og dýra. Á þessi löggjöf yfirleitt við á Íslandi, þar sem streymi áa hefur í langflestum tilvikum verið breytt með ábyrgum hætti á afmörkuðum stöðum til að nýta fallorkuna til raforkuvinnslu og til að brúa ána ? Áttuðu þingmenn sig á því, hvað þeir gerðu með þessari innleiðingu ? Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar bendir ekki til þess. Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis.
""Ef túlkunin er svona, þá setur það allar vatnsaflsvirkjanir í uppnám", segir Hörður. Hann segir ljóst, að lögunum sé ekki ætlað að vinna gegn vatnsaflsvirkjunum, en dómurinn sé frekar að segja, að annmarkar hafi verið á meðferð málsins á Alþingi. Nefndin, sem var með málið til umfjöllunar, hafi að mati dómsins ekki gert það nógu skýrt, hver vilji stjórnvalda væri - að heimila vatnsaflsvirkjanir. Spurður, hvort ríkisstjórnin þurfi að leggja fram nýtt frumvarp, segir Hörður:
"Ef þau [stjórnvöld] eru sammála þessari túlkun dómarans, að það séu ágallar á frumvarpinu, sem séu þannig, að vilji stjórnvalda sé ekki að koma þar fram, þá held ég, að það sé einboðið, að það þurfi að skoða það", svarar Hörður."
Dómurinn er hæpinn. Að dæma vatnsaflsvirkjunina af á þeim forsendum, að ekki sé í lögunum sérstaklega heimilað að virkja vatnsföll, stangast á við hina hefðbundnu lagatúlkun um, að það, sem ekki er bannað, sé leyfilegt. Að dómaranum detti í hug, að ESB-rétturinn setji hömlur á breytingu streymisþátta til að virkja endurnýjanlega orku eða að Alþingi hafi umræðulaust söðlað um og ákveðið að hverfa af braut vatnsaflsvirkjana, er sérkennilegt. Svona lögfræðilegir loftfimleikar eru óverjandi í ljósi þeirra þjóðarhagsmuna, sem í húfi eru.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
"Það virðist sem öll inngrip í árfarvegi séu óleyfileg, þ.m.t. brúargerð. Hvaða aðstæður voru það í ESB, sem kölluðu á þessa lagasetningu ?"
Stutta svarið er: engar, því þetta fólst ekki í vatnatilskipuninni heldur þeim breytingum sem voru gerðar á frumvarpinu til laga um stjórn vatnamála að tillögu umhverfisnefndar Alþingis og leiddu til rangrar innleiðingar á tilskipuninni (að mati dómarans).
"Þegar svona mikil óvissa ríkir um tilurð og hlutverk lagasetningar frá ESB, er það skylda stjórnvalda og Alþingis að taka af lagaleg tvímæli um túlkunina."
Þetta er alveg rétt en árið 2011 brást þingheimi bogalistin og beinlínis bjó til þau tvímæli sem um ræðir með þeim afleiðingum að héraðsdómur gat túlkað lögin eins og hann gerði (þvert gegn ætlun frumvarpshöfunda).
"Það verður að gera þessa evrópsku lagasetningu óskaðlega hérlendis."
Það er engin "evrópsk lagasetning" í gildi á Íslandi, mistökin voru í þessu tilfelli gerð við Austurvöll en ekki í Brüssel. Ástæðan fyrir niðurstöðu dómarans er að hann dæmdi eftir (gölluðu) íslensku lögunum en ekki tilskipuninni enda hefur hún sem slík ekkert lagagildi á Íslandi.
Eðlilegasta leiðin til að bæta úr þessu ástandi er að gera viðeigandi breytingar á lögum um stjórn vatnamála til að tryggja rétta innleiðingu vatnatilskipunarinnar. Það ætlar ríkisstjórnin einmitt að gera samkvæmt þingmálaskrá sem var birt í dag.
"Dómurinn er hæpinn."
Já hann er það. Eins og sumir fræðimenn hafa bent á virðist ekki hafa verið útilokað fyrir dómarann að túlka hið óskýra orðalag í lögunum á annan veg en hann gerði. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og þessi túlkun verður eflaust tekin til vandlegrar skoðunar þar.
Allra hæpnust var þó málsmeðferð Alþingis, sem klúðraði ekki aðeins innleiðingunni á vatnatilskipuninni heldur voru breytingatillögur umhverfisnefndar svo víðtækar að þær fólu í raun í sér endurritun á öllum greinum frumvarpsins utan einni, eftir að málið hafði farið í gegnum fyrstu umræðu. Fyrir vikið má halda því fram að þá hafi í raun orðið til glænýtt mál sem hafi svo ekki hlotið þrjár umræður heldur aðeins tvær og lögin hafi því ekki verið sett með stjórnskipulega réttum hætti, rétt eins og í svokölluðu búvörulagamáli sem er komið til Hæstaréttar. Það reyndi þó ekki á þetta sjónarmið fyrir héraðsdómi því ríkislögmaður tefldi því ekki fram sem málsástæðu. Vonandi verður tekið betur á því fyrir Hæstarétti og þá gæti jafnvel farið svo að lögin verði dæmd ómerk (eða að vettugi virðandi eins og það kallast í stjórnskipunarrétti).
P.S. Bókun 35 við EES samninginn hefði engu breytt í þessu tiltekna máli því hvorki var um að ræða "réttilega innleiddar" EES-reglur né árekstur við nein önnur íslensk lög, heldur einfaldlega ranga innleiðingu í andstöðu við innleiðingarskylduna samkvæmt 7. gr. EES-samningsins.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2025 kl. 21:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.