27.3.2025 | 18:00
Metnaðarlaust viðhorf til samræmds námsmats
Þann 23.03.2025 var Ríkisráðsfundur á Bessastöðum, þar sem hinn hvatvísi 1. þingmaður Suðurlands, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, úr Flokki fólksins, lét af embætti. Hún hafði orðið ber að dómgreindarbresti bæði fyrr og síðar. Viðhorf hennar til menntamála eru með þeim hætti, að segja má, að farið hafi fé betra. Hún hefði ekki unnið þeim málaflokkum, sem hún var sett yfir, nokkurt gagn.
Í Morgunblaðsgrein 1. marz 2025 vitnaði fyrrverandi háskólakennari og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum, Meyvant Þórólfsson, til þessa lánlausa og e.t.v. hæfileikalausa þingmanns Sunnlendinga í grein sinni:
"Samræmt námsmat við lok skyldunáms".
Greinin hófst þannig:
"Í viðtali við mbl.is 12. febrúar síðastliðinn [2025] sagðist nýskipaður ráðherra menntamála ætla að fylgja fordæmi forvera síns [framsóknarmannsins Ásmundar Einars, sem féll af þingi í síðustu Alþingiskosningum] og mæla gegn fyrirlögn samræmdra prófa, enda teldu "allir sérfræðingar" slík próf óheppileg, þau hefðu lítinn tilgang og væru flókin og dýr."
Þessi alhæfing og fimbulfamb án rökstuðnings er dæmigert fyrir þennan þingmann, sem aldrei átti neitt erindi á Alþingi. Þessi málflutningur kennarans er óvandaður og sæmir ekki ráðherra. Mun betra taka við hjá Flokki fólksins ? Meyvant færir gild rök gegn staðleysum fyrrverandi ráðherra:
"Daginn eftir viðtalið var nýtt frumvarp kynnt á vef Stjórnarráðsins um svonefndan Matsferil, sem á að koma í stað "gömlu samræmdu prófanna, sem voru hætt að þjóna sínum tilgangi", eins og það var orðað þar.
Allt voru þetta kostulegar fullyrðingar ráðherra og meintra sérfræðinga hennar um eina árangursríkustu leið, sem völ er á til að meta námsstöðu og námsárangur á heiðarlegan hátt. Gildi hennar hefur verið staðfest með fjölda rannsókna. Athyglisverðar niðurstöður Ludger Wössmann, háskólaprófessors í München, byggðar á gögnum úr PISA og TIMSS, leiddu í ljós jákvæða fylgni á milli miðlægrar stýringar (samræmds námsmats samfara hóflegri sjálfstjórn skóla) annars vegar og markverðs námsárangurs hins vegar. Kerfi, eins og það íslenzka, án miðlægrar stýringar og samræmds námsmats, bjuggu á hinn bóginn við slakan námsárangur samkvæmt þessum stóru samanburðarrannsóknum."
Þarf frekari vitnana við ? Ásmundur Einar og Ásthildur Lóa eru algerlega úti að aka í þessum efnum, éta upp innantómar fullyrðingar hlaðnar skammsýnu pólitísku gildismati, sem ekki styðst við vandaðar rannsóknir. Þegar metnaðarleysi af þessu tagi ríður húsum í menntamálaráðuneytinu, er ekki kyn, þótt keraldið leki, og botninn sé suður í Borgarfirði í íslenzla grunnskólanum, eins og PISA-prófin gefa til kynna.
Skilningsleysið í menntamálaráðuneytinu og víða í skólakerfinu opinberast í tali um, að "Matsferill" (hugbúnaðarkerfi fyrir kennara) geti komið í stað lokaprófs. Hér er um ósambærilega þætti að ræða, sem einhverjum pólitískum blekkingameisturum hefur tekizt að leggja að jöfnu. Ef "Matsferill" kemst á koppinn, getur hann reynzt kennurum og nemendum gagnlegur, en hann getur aldrei orðið jafngildi lokaprófs nemenda.
"Árið 1990 skiluðu 2 starfshópar Menntamálaráðuneytisins áliti, annar um framkvæmd og tilgang "samræmdra könnunarprófa". Könnunarprófin voru hugsuð sem stuðningur við skólastarf eða leiðsagnarmat. Hlutverk lokaprófa var að veita áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur við lok grunnskóla, vera viðmið við inntöku í framhaldsnám og gefa vísbendingar um, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár hefði verið náð. Lokapróf hafa ekki verið haldin hér á landi síðan 2007 og könnunarpróf ekki síðan 2021.
Nú hefur Seðlabanki Íslands gert athugasemdir við, að haldfastar mælingar skorti, sem gefið geti til kynna nýtingu opinbers fjármagns í skólakerfinu, aðallega grunnskólakerfinu. Þetta er rétt og réttmæt ábending. Fjármagn til grunnskólakerfisins hefur á síðast liðnum 15 árum aukizt langt umfram nemendafjölgun, en eini mælikvarðinn á þróun námsárangurs eru PISA-prófin, og þau benda til, að námsárangur fari greinilega versnandi. Það er makalaust, hvernig menntayfirvöldum og skólafólki dettur í hug að reka skólakerfi í blindni, hafandi engar árlegar samræmdar mælingar á árangri nemenda. Að skilja ekki mikilvægi samræmdra lokaprófa í grunnskóla er grafalvarlegt og aumlegt að mikla fyrir sér framkvæmdina árið 2025, þótt próf eins og Landsprófið hafi gengið snurðulaust áratugum saman á 20. öldinni.
"Í staðinn á að koma Matsferill, sem mun innihalda "fjölda tækja og tóla fyrir kennara til að nota reglulega í skólastarfi", svo [að] aftur sé vitnað í tilkynninguna á vef Stjórnarráðsins. M.v. lýsingar mun Matsferill virka eins og svissneskur vasahnífur, gæddur óteljandi notkunarmöguleikum og ævinlega með rétta tólið, þegar á þarf að halda. Munurinn er þó sá, að svissneski hnífurinn leit dagsins ljós fyrir löngu, en Matsferill er enn hugsýn í mótun; ef maður líkir honum við fjölnota vasahnífinn, mætti segja, að tappatogarinn væri kannski rétt farinn að skjóta upp kollinum.
M.v. lýsingar á Matsferill að leysa samræmd könnunarpróf af hólmi, þ.e. ef hann þá lítur einhvern tíma dagsins ljós. En hann mun ekki koma í stað samræmdra lokaprófa sem heiðarlegt, áreiðanlegt og réttmætt mat við lok skyldunáms, sem hver og einn nemandi á heimtingu á að gangast undir til að fá vottun um námsstöðu áður en hann sækir um framhaldsskólanám.
Orð [fyrrverandi] ráðherra og sérfræðinga hennar um slík próf eru eru varhugaverð að mati undirritaðs, þ.e. að þau séu gagnslaus fyrirbrigði úr fortíðinni, hætt að þjóna tilgangi sínum."
Höfundur þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um þessi atriði. Skólayfirvöld og kennaraforystan skáka í því skjólinu, að Matsferill muni koma í stað samræmdra lokaprófa. Það er reginmisskilningur, sem sýnir, að pólitík ræður för í stað málefnalegrar hlutlægni og rökhyggju.
Úr öllum áttum berast nú vísbendingar um, að árangur íslenzka menntakerfisins sé í engu samræmi við opinberar fjárveitingar til þess. Nú síðast (26.03.2025) benti frumkvöðull PISA-prófanna á þá augljósu staðreynd, að ómögulegt er að vinna markvisst að endurbótum, ef engin árangursmæling er fyrir hendi. Hann benti á margvíslega nytsemi samræmdra árangursmælinga, t.d. fyrir skóla og foreldra. Jafnframt, að námsárangur er að jafnaði betri þar, sem samræmd lokapróf eru viðhöfð.
Núverandi mennta- og barnamálaráðherra segist munu einbeita sér að því verkefni að gera grunnskólanemendur læsa áður en kemur að útskrift. Hvernig ætlar hann að vinda ofan af núverandi óframdarástandi ? Ef hann hefur enga róttæka framkvæmdaátlun, mun honum ekkert ágengt verða. Undanfarin ár hefur forystuleysi ráðuneytisins staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum. Aðalnámskrá Katrínar Jakobsdóttur frá um 2010 er ónýtt og skaðlegt plagg. Mun nýi ráðherrann gera gangskör að því að gefa út mjög endurbætta aðalnámskrá ? Mennta- og barnamálaráðuneytið fer með málefni fjöreggs þjóðarinnar. Þetta fjöregg, æskan, á á brattann að sækja um þessar mundir og rótleysi hrjáir hana með þeim afleiðingum, að margir óttast nú um afdrif móðurmálsins. Mun nýr ráðherra leggja þung lóð á vogarskálar með æskunni eða á móti henni ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning