Er ríkisstjórn K. Frost. frá sólhvörfum 2024 útibú frá Berlaymont ?

Nú er tekið að sverfa til stáls á íslenzka stjórnmálasviðinu.  Ríkisstjórnin hyggst draga burst úr nös íslenzka sjávarútvegsins með tvöföldun aðstöðugjalds fyrir veiðar í íslenzkri lögsögu.  Þetta er mjög óeðlileg skattheimta fyrir ýmissa hluta sakir.  Hún mun auka skatttekjur ríkissjóðs á kostnað fjárfestingargetu sjávarútvegsins og á kostnað sveitarfélaga sjávarbyggðanna og á kostnað hagsmunaaðila í heimabyggð.  Sjávarútvegurinn veikist verulega og kann að enda sem þurfalingur á samfélaginu vegna veikrar samkeppnisstöðu líkt og tíðkast í Evrópusambandinu - ESB.  

Ríkisstjórn K. Frost. hyggst láta algerlega undan kröfum ESA um samræmt lagaumhverfi við ESB í þeim skilningi, að ESB-löggjöf hafi fortakslausan forgang á alla íslenzka lagasetningu, sem ekki kemur frá Berlaymont.  Þetta er þvert gegn niðurstöðu ríkisstjórnar og þings 1993, þegar EES-samningurinn var samþykktur af Alþingi, og þvert á viðvaranir lögspekinga um, að gjörningur af þessu tagi stríði gegn Stjórnarskrá Íslands.  Er ekki skynsamlegra að reyna að finna milliveg, sem stenzt Stjórnarskrá og fullnægir ESB-kröfum um einsleitni. 

Í grein Stefáns Más Stefánssonar, prófesssors emeritus, við lagadeild Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 17. febrúar 2025, er vakið máls á þessum atriðum.  Greinin nefndist: 

"Bókun 35 við EES-samninginn".

Hún hófst þannig:

"Utanríkisráðherra hefur nú lagt fram frumvarp, sem bætir sérstakri forgangsreglu við lög nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem yrði ný 4. gr. laganna.  Ákvæðið hljóðar svo:

"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði, sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samninginum, er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði, skal hið fyrr nefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað.  Sama á við um skuldbindingar, sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."

Vakin er athygli á, að yrði slík regla að lögum, fælist í því talsverð breyting, þar sem EES-reglur, sem innleiddar væru í íslenzkan landsrétt, fengju svo nefnd forgangsáhrif gagnvart öðrum íslenzkum lögum, en af því gæti leitt réttaróvissu, eins og síðar verður drepið á."

Það er augljós og óviðunandi galli við lagasetningu, að hún leiði til réttaróvissu.  Þar af leiðandi þarf að breyta frumvarpinu.  Það er verkefni Alþingis og lögspekinga Stjórnarráðsins að koma fram með frumvarp, sem lágmarkar réttaróvissu og hámarkar líkur á, að EFTA-dómstóllinn telji það ásættanlegt.  

Það eru hins vegar fleiri agnúar á þessu frumvarpi, og sá neðangreindi er af stærra taginu:

"Ef veita á lögum, sem stafa frá erlendu réttarkerfi, forgang í umtalsverðum mæli, kynni slíkt að fela í sér framsal löggjafarvalds, sem væri andstætt fyrirmælum 2. gr. stjórnarskrárinnar."

Hér virðist "í umtalsverum mæli" opna leið til samkomulags, ef breytingin væri skilyrt verulega. 

"Löggjafinn getur aðeins brugðizt við þessu, þ.e. að ákveða, hvort forgangsreglan eigi að gilda, með síðari aðgerðum, en á meðan ríkir réttaróvissa.  Þetta rímar ekki vel við kröfur réttarríkisins um skýra og skiljanlega löggjöf.  Því er varhugavert, að löggjafinn setji almenna og opna forgangsreglu, sem veitir öllum innleiddum EES-reglum forgang fram yfir önnur landslög, án þess að löggjafinn hafi glögga yfirsýn yfir, hvaða áhrif forgangsreglan muni hafa á þá löggjöf, sem er nú þegar í gildi." 

Undirstrikunin er pistilhöfunfdar.  Hún myndar kjarnann í varnaðarorðum Stefáns Más og e.t.v. gæti breytt frumvarp um þessa forgangsreglu miðað við, að draga úr fortaksleysi þessara heimilda, svo að verjanleg verði gagnvart íslenzku stjórnarskránni.  Það er lögspekinga á borð við Stefán Má að gera tillögu um slíkt að beiðni Alþingis eða stjórnvalda.

"Í fyrri hluta bókunar 35 kemur skýrlega fram, að löggjafarvaldið er ekki framselt til stofnana EES og að markmiðinu um einsleitni verði að ná með þeirri málsmeðferð, sem gildir í hverju ríki um sig.  Þetta fyrirkomulag er í grundvallaratriðum ólíkt því, sem Evrópusambandið byggist á.  Þar gildir meginreglan um forgangsáhrif ESB-réttar innan aðildarríkja sambandsins, sem einnig hafa með skýrum hætti framselt hluta löggjafarvalds síns til stofnana þess.  Aldrei kom til álita að veita EES-reglum forgang við gerð samningsins með líkum hætti og innan ESB, og er fyrri hluti bókunar 35 staðfesting þess.  Framsal ríkisvalds, hér löggjafarvaldsins, til stofnana EES hafði því ákveðin takmörk."

Það er ekki eðlilegt, að ESA - eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-löndunum, þrýsti nú á ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessu grundvallaratriði við gerð EES-samningsins.  Í stað þess að gefast upp og verða að öllu leyti við þessari óeðlilegu kröfu ESA, ber utanríkisráðuneytinu að leita lögfræðilegra lausna, sem takmarka forgangsáhrifin nægilega til að verða samrýmanleg stjórnarskránni.  Á það verður síðan að reyna fyrir EFTA-dómstólinum, hvort samrýmanlegt er EES-samninginum.  Fyrir dómstólinum á ekki að spyrja, hvort íslenzka lagasetningin sé samrýmanleg ESB-löggjöfinni, því að EES er ekki sama og ESB.  

Í þessum anda er lokahluti greinar Stefáns Más.  Greinin er merk og þakkarverð, og íslenzkum stjórnvöldum ber að leggja hana til grundvallar vinnu sinnar með þetta mál til að komast megi hjá réttaróvissu, sem annars stefnir í:

"Af þessum sökum má varpa fram þeirri spurningu, hvort frumvarpið gangi lengra en nauðsynlegt er til að ná fram þeirri einsleitni, sem krafizt er samkvæmt bókun 35.  Einnig má spyrja, hvort unnt sé að uppfylla skuldbindingu bókunar 35 um forgang EES-reglna með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir, t.d. með annars konar og vægari lausn en almennri forgangsreglu, sem nær þvert yfir öll almenn lög Alþingis.  

Í grein þessari er ekki vikið að enn annarri spurningu, sem kann að verða áleitin, þ.e. hvort það fái staðizt, að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög, sem geyma ákvæði um, að þau gangi framar öllum öðrum lögum, sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri."

Frumvarp utanríkisráðherra býður augljóslega hættunni heim um árekstra við stjórnarskrá.  Það virðist vera augljós kostur í stöðunni að koma fram með nýtt frumvarp, sem býður upp á "vægari lausn en almenna forgangsreglu", og sætti ESA sig ekki við hana, verði EFTA-dómstóllinn fenginn til að úrskurða um málið.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Jei, Brussel mellur landsins gera "okkur" að ESB-fylki áður en við fáum að kjósa um að verða USA-fylki.

Ísland er dáið.

Guðjón E. Hreinberg, 30.3.2025 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband