15.4.2025 | 10:58
Vitlaus viðmið Viðreisnar
Ekki skal efa, að samstaða sé innan ríkisstjórnar K. Frost. um breyttar forsendur við útreikninga s.k. veiðigjalda, en það eru Viðreisnarráðherrarnir í atvinnuvegaráðuneytinu, Hanna Katrín Friðriksson, og fjármála-og efnahagsráðuneytinu, Daði Már Kristófersson, sem forgönguna hafa. Það eru engar traustar atvinnulegar, fjárhagslegar eða langframa skattalegar forsendur fyrir s.k. "leiðréttingu", heldur eru þær af pólitískum toga, sem er slæmt vegarnesti fyrir auknar álögur á undirstöðuatvinnugrein, sem fætt hefur af sér margvíslega sprota í atvinnulífinu, sem styrkt hafa allt atvinnulíf í landinu og er fagnaðarefni.
Gripnar eru á lofti gamlar lýðskrumsfullyrðingar til að "leiðrétta" gjaldskrána, en að manni læðist sá grunur, að "leiðréttingin" sé til þess ætluð að færa íslenzkan sjávarútveg niður á plan sjávarútvegs í Evrópusambandinu - ESB, sem er á þurfalingsplani, enda er ESB hið fyrirheitna land Viðreisnarfólks. Ef þetta er ekki rétt, er hreinni fáfræði um íslenzkan sjávarútveg um að kenna, og er hvorugt beysið. Vinnubrögð Viðreisnarráðherranna eru frumstæð og benda til, að þeir séu að fullnægja djúpstæðum pólitískum hvötum sínum.
Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, þekkir hins vegar íslenzkan sjávarútveg, eins og handarbakið á sér. Um það ber Morgunblaðsgrein hans 12. apríl 2025 glöggt vitni:
"Tvöföld verðlagning - tvöfaldir skattar".
Hún hófst þannig:
"Meira en hálfri öld áður en kvótakerfi í fiskveiðum var innleitt hér á landi, var samtenging veiða og vinnslu orðin regla á Íslandi frekar en undantekning. Eflaust á það rætur að rekja til legu landsins og möguleika þess tíma til verðmætasköpunar. Í hundrað ár hefur þetta form verið hornsteinn í íslenzkum sjávarútvegi, og höfðum við það fram yfir Norðmenn, þegar kvótasetning fisktegunda varð ekki umflúin. Þetta er ástæðan fyrir því, að stærstur hluti aflans í Noregi hefur verið fluttur óunninn úr landi, en á Íslandi er stærstur hluti aflans unninn á heimaslóð."
Vafasamir pappírar, sem eru ötulir við að sá fræjum tortryggni um kvótasettan íslenzkan sjávarútveg, hafa látið í veðri vaka, að samtvinnun veiða og vinnslu hafi verið fylgifiskur kvótasetningarinnar. Þeim væri nær að kynna sér söguna áður en þeir fara á flot með fimbulfamb sitt um kvótakerfið og sjávarútveginn.
Forsendubreytingar Viðreisnar á útreikningum veiðigjaldanna, s.k. "leiðrétting", er svo órökrétt og ósanngjörn, að segja má, að hún sé "út úr kú". Hún tekur mið af uppboðsverði, sem erlendar, niðurgreiddar fiskvinnslur móta. Íslenzk stjórnvöld eru vísvitandi eða í fáfræði að skekkja stórlega eða eyðileggja samkeppnigrundvöll íslenzkra fyrirtækja með þessu uppátæki, sem ætla má, að stríði gegn íslenzkum lögum og jafnvel stjórnarskrá um atvinnufrelsi.
"Um 20 % bolfiskaflans eru seld á íslenzkum fiskmörkuðum, og þar geta öll fyrirtæki keypt fisk, bæði þau, sem vinna aflann hér á landi og þau, sem flytja hann óunninn til útlanda. Þarna komast erlendar fiskvinnslur í beina samkeppni við þær íslenzku um aflann. Þær vinnslur eru niðurgreiddar, og laun, sem þar eru greidd, eru langtum lægri en gerist og gengur á Íslandi. Þar af leiðandi hafa þær í auknum mæli haft yfirhöndina í samkeppninni við Íslendinga um hráefnið, og í dag fara um 40 % af því til erlendrar fiskvinnslu, á meðan allur aflinn, sem fer í eigin vinnslur, er unninn hér á landi."
Þetta er ástæðan fyrir því, að með öllu er ótækt og felur í sér mikla skekkingu á samkeppnisstöðu íslenzkum fiskvinnslum í óhag að leggja þetta "íslenzka" uppboðsverð til grundvallar gjaldtöku af íslenzkri útgerð. Verðið á ekki við íslenzkar aðstæður, því að það er mótað af greiðslugetu niðurgreiddra fiskvinnslufyrirtækja, þar sem er allt öðruvísi launamarkaður en hér. Þarna er um það að ræða, að verðmyndun á 8 % bolfiskaflans er lögð til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi, sem nær engri átt. Ætlar atvinnuvegaráðherra að vaða út í fenið og bera ábyrgð á að rústa fyrirtækjum á landsbyggðinni ? Kjósendur í næstu sveitarstjórnar- og Alþingiskosningum munu kunna ríkisstjórnarflokkunum litlar þakkir fyrir, enda kom þessi vitleysa, eins og skrattinn úr sauðarleggnum.
Ekki tekur betra við, þegar velja á verðviðmiðun fyrir uppsjávarafla. Atvinnuvegavegaráðherra hefur væntanlega leitað logandi ljósi að uppboðsverði slíks afla á Íslandi án árangurs, því að hún leitaði út fyrir landsteinana eftir uppboðsverði og fann það í Noregi. Sú aðferðarfræði að leggja til grundvallar skattlagningu á Íslandi verð, sem myndað er í útlöndum við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, er ábyrgðarlaust og forkastanlegt fúsk og vafasamt, að standist íslenzk lög um skattheimtu.
"Samið er við sjómenn um tvenns konar verðlagningu á afla upp úr skipi, og er það grunnurinn að launum sjómanna. Annars vegar er það hæsta verð, sem selt er á til þriðja aðila, gegnum fiskmarkaði eða með öðrum leiðum, og hins vegar hlutfall af afurðaverðmætinu, sem verður til, þegar unnið er úr aflanum í eigin vinnslum. Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 1998 funda sjómenn og útgerðarmenn mánaðarlega um fiskverð til eigin vinnslu. Samkvæmt samningum á milli þeirra skal það vera 80 % af skilaverði uppboðsmarkaðarins, sem að jafnaði skilar útgerðinni 55 % af útflutningsverðmæti afurðanna, en fiskvinnslan heldur eftir 45 %."
Það er svo góð sátt um þessa skiptingu á milli sjómanna og útgerðarmanna, að þeir sömdu til 10 ára við gerð síðustu kjarasamninga sinna. Þetta sýnir, að engin þörf er á að brjóta upp samtengingarkerfi útgerðar og vinnslu sjómanna vegna, en stundum láta lýðskrumarar að því liggja, að kerfið leiði til þess, að sjómenn séu hlunnfarnir. Kvótakerfið og þetta skiptakerfi hafa þvert á móti aukið öryggi á sjó (veiðar skipulagðar á grundvelli markaðarins, en ekki í neins konar kapphlaupi), aukið atvinnuöryggi sjómanna og jafnað vinnuálagið og bætt hag þeirra. Inngrip stjórnvalda í atvinnugrein með þeim hætti, að afkoma greinarinnar sem heildar rýrnar, eins og "leiðrétting" núverandi ríkisstjórnar er dæmi um, eru skaðleg og í þessu tilviki grunnatvinnuvegar stórskaðleg. Þróunarstarfsemi sjávarútvegsins, sem leitt hefur til sprotafyrirtækja, sem mörgum hverjum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, veikist og verður vart nema svipur hjá sjón. Markaðsvirði fyrirtækjanna minnkar vegna lægri arðsemi. Þetta leiðir til hærri fjármagnskostnaðar og meiri skuldsetningar.
"Nú ber svo við, að stjórnvöld horfa til kaupgetu erlendu fyrirtækjanna, þegar viðmið á skattstofni útgerða á Íslandi er ákveðið. Verði sú raunin, verða skattar og gjöld á íslenzkar útgerðir grundvölluð á getu niðurgreiddrar fiskvinnslu í Evrópu, en ekki á þeim verðmætum, sem verða til á Íslandi. Hættan við þessa nálgun stjórnvalda er þríþætt.
Í fyrsta lagi: ef eingöngu verður um skattahækkun upp á milljarðatug að ræða, dregur það úr samkeppnishæfninni, stuðlar að samþjöppun og minnkar fjárfestingagetu fyrirtækjanna.
Í öðru lagi: ef fiskvinnslunni er gert með lögum að greiða það, sem erlendar niðurgreiddar fiskvinnslur geta borgað, fer öll afkoman yfir á útgerðina, og hvatinn til fjárfestinga í fiskvinnslu í landi hverfur.
Í þriðja lagi: ef þetta leiðir til norsku leiðarinnar, og samtenging veiða og vinnslu verður rofin, fáum við norsku afleiðingarnar með í kaupbæti, og íslenzk fiskvinnsla, eins og við þekkjum hana, heyrir sögunni til."
Þetta mál er lýsandi dæmi um það, sem stjórnmálamenn eiga að forðast eins og heitan eldinn, þ.e. pólitísk inngrip í atvinnugrein, sem gengur vel og skilar mjög miklu til samfélagsins, án áhættugreiningar á inngripunum fyrir starfsemi greinarinnar og þróun skattspors starfseminnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning