20.4.2025 | 17:44
Fúsk og sleifarlag gagnvart atvinnuvegum
Ríkisstjórnin er úti að aka. Hún heldur ótrauð áfram pólitískum aðgerðum sínum gagnvart sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem hafa alltaf orkað tvímælis, en eru hættulegri en áður vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna frá og með 2. apríl 2025, þegar Donald Trump sagði heiminum tollastríð á hendur með þeim afleiðingum, að heimshagkerfið stefndi í samdrátt og jafnvel efnahagskreppu og Bandaríkin stefndu í fjármálakreppu, og Bandaríkjadalur heldur áfram að falla, enda viðskiptastríð í gangi við Kína, sem horfir illa fyrir Bandaríkin.
Ísland er eyja, en í fjárhagslegum efnum mjög háð heimshagkerfinu. Á sama tíma og búið er að raska jafnvægi heimshagkerfisins og setja það í niðursveiflu með ótrúlega klunnalegum og gamaldags vinnubrögðum Hvíta hússins (hver verða viðbrögð Capitol Hill ?), þá ætlar ríkisstjórn Íslands að bæta gráu ofan á svart með því að auka álögur á sjávarútveg og ferðaþjónustu tilfinnanlega. Með því að hella olíu á eldinn, sem brennur á útflutningsatvinnuvegunum hættir ríkisstjórnin á harðan efnahagslegan samdrátt hérlendis vegna minni fjárfestinga og minnkandi útflutningstekna.
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, fékk birta skelegga grein um áhrif hærri skattheimtu á sjávarútveginn og starfsumhverfi hans í Morgunblaðinu 3. apríl 2025 undir fyrirsögninni:
"Aukið veiðigjald - minni verðmætasköpun ?"
Hún hófst þannig:
"Áform stjórnvalda um stórfellda hækkun veiðigjalda eru ekki bara árás á íslenzkan sjávarútveg - þau eru árás á byggðarlög, fjölskyldur, framtíðarsýn og efnahagslegan stöðugleika um land allt. Fyrir sjávarútvegssveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, eru þessi áform einfaldlega ólíðandi.
Fjarðabyggð hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslenzkum sjávarútvegi. Hér eru rótgróin fyrirtæki, bæði stór og lítil - fjölskyldufyrirtæki og afurðastöðvar - sem veita fólki atvinnu, greiða skatta, byggja samfélagið og halda uppi lífi í fjölda byggðakjarna."
Með einu pennastriki í Reykjavík er ætlunin að draga úr umsvifum fjölda manns á landsbyggðinni og draga féð að höfuðborginni. Þetta nær engri átt og eru hrein svik við kosningaloforð allra stjórnarflokkanna. Annaðhvort eru forysturollurnar purkunarlausar í umgengni sinn við sannleikann, eða þær eru skyni skroppnar um þjóðhagslegar afleiðingar gerða sinna. Það er ekkert vit í því að leiða fólk af þessu tagi til valda. Svona sértæk skattheimta á sér aðra hlið: fjárfestar, sem keypt hafa hlutabréf í sjávarútvegsfélögum, standa frammi fyrir lækkandi gengi hlutabréfanna og þess vegna meira peningalegu tapi en aðrir á hlutabréfamarkaði hérlendis á þessum tollastríðstímum Bandaríkjanna.
Grein sinni lauk Ragnar þannig:
"Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og sveitarfélög, eins og Fjarðabyggð, skora á ríkisstjórnina að staldra við. Að hefja gagnsætt samtal við hagaðila, útbúa greiningar, sem byggja á staðreyndum, og leggja fram raunhæfa, sanngjarna og rökstudda nálgun í framhaldinu."
Skattspor sjávarútvegsins er nú um 50 mrdISK/ár og hefur líklega náð hámarki að raunvirði að óbreyttri fiskgengd á Íslandsmið. Þetta má sannreyna með útreikningum. Skattagríð vinstri manna er svo mikil, að þeir skjóta sig í fótinn í bægslaganginum og grafa undan sveitarfélögum, sem háð eru sjávarútvegi, og grafa undan blómlegri byggð við sjávarsíðuna. Fyrir þetta þarf að refsa forysturollunum þremur í næstu kosningum. Hugmyndaleysið og einstrengingshátturinn við stjórn landsins mun koma landsmönnum í koll.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning