11.5.2025 | 17:49
Borubrattur fjári
Það er gorgeir í fjármála- og efnahagsráðherra, og hann þykist hafa tök á ríkisfjármálunum með skattahækkunum sínum. Í háskattalandi eins og Íslandi hafa skattahækkanir hins vegar neikvæð áhrif á hagkerfið, sem leiða til rýrnandi skattstofna, sem jafngilda minni tekjum hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þar að auki eru áætlanir ríkisstjórnarinnar um launakostnað ríkissjóðs óraunhæfar, ef litið er til sögunnar. Þessi ríkisstjórn mun ekki vinna bug á halla ríkissjóðs, heldur mun hún auka skuldir hans, ef fram fer sem horfir.
Innherji Viðskipta-Moggans skrifaði um þetta 2. apríl 2025 undir fyrirsögninni:
"Ríkissjóður ósjálfbær með óraunhæfar áætlanir".
"Fjármála- og efnahagsráðherra, Daði Már Kristófersson, lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 í vikunni. Helzta forgangsmál er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs.
Samhliða er nefnt að bæta vegakerfið, utanríkismál, félags- og tryggingakerfið og heilbrigðismál. Framlög til samgöngumála verði aukin um 8 mrdISK/ár.
Ráðherra vísar síðan til þess, að fjármálaáætlanir síðustu ára eða allt frá því lög um opinber fjármál tóku gildi fyrir áratug hafi allar verið óraunhæfar.
Nú blasa við nýir tímar, segir Daði. Þetta mun allt breytast á árinu 2027, þegar ríkissjóður verður rekinn í jafnvægi. Sannarlega áhugavert, að nú muni allt breytast, þegar sama fólkið í grunninn er að gera áætlanirnar í ráðuneytinu. Áætlanir, sem allar voru óraunhæfar að mati ráðherra.
Daði bendir á, að þessu göfuga markmiði verði náð með auknum álögum á ökutæki, og hinir ýmsu skattar í þeim málaflokki, sem alla tíð hafa átt að fara í vegakerfið, hafa endað í öðrum verkefnum stjórnmálamanna. Daði bendir á, að mrdISK 7 eigi að fara í gatnakerfið 2026. Af hverju ekki strax; gatnakerfið er ónýtt núna ? Reyndar er innviðaskuld í vegakerfinu samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins, á bilinu mrdISK 265-290. Þetta útspil er því einungis gert til að friða háværar raddir samfélagsins um lagfæringar.
Annað, sem Daði nefnir, eru auknar álögur á sjávarútveginn. Það er reyndar ekki skattur að mati ríkisstjórnarinnar, heldur auðlindagjald. Það hljómar mun betur. Því miður fyrir ríkisstjórnina er alls ekki öruggt, að þetta leiði til tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar sem sjávarútvegurinn muni laga viðskiptalíkan sitt að breyttum veruleika og ýmiss rekstur mögulega færast úr landi."
Sennilega er ríkisstjórninni alveg sama um það, hvaða áhrif þessi fyrirhugaða skattheimta hefur á ríkissjóð, því að hér er um að ræða pólitíska grillu, sem kratískir og sósíalistískir stjórnmálamenn hafa gengið með sem steinbarn í maganum og eru að gjóta núna. Þeir hafa enn ekki lært að greina á milli stjórnmála og trúarbragða. Fjandinn í trú þessara vandræðagemsa er kapítalisminn eða auðvaldið, og af lágkúrulegum öfundarorsökum hafa þeir persónugert auðvaldið með útgerðarmönnum. Þetta er auðvitað frumstætt viðhorf og fráleitt, en skýrir, hvers vegna frumvarp atvinnuvegaráðherra og málatilbúnaður allur eru svo óvönduð sem raun ber raunalega vitni um. Tilgangurinn helgar einfaldlega meðalið. Vonandi mun landsbyggðin refsa stjórnarflokkunum ríkulega í næstu kosningum, eftir að afleiðingarnar af þessum flumbrugangi koma í ljós.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Samgöngur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning