23.7.2025 | 16:45
Glapræði ríkisstjórnar
Með því að draga kraftinn úr grundvallar atvinnugrein landsmanna fremur ríkisstjórnin alvarlegan fingurbrjót, sem allir munu finna fyrir. Með því að draga stórfé út úr sjávarútveginum og flytja yfir í ríkissjóð versnar samkeppnisstaða atvinnugreinarinnar á erlendum og innlendum vettvangi, fjárfestingar og nýsköpun dragast saman, tekjur ríkis og sveitarfélaga minnka, hagvöxtur minnkar og gengi ISK gæti rýrnað vegna minni gjaldeyristekna, sem eykur verðbólgu. Ragnar Árnason, prófessor emeritus, hefur varað við þessu, en ríkisstjórnin skellir skollaeyrum. Henni mun hefnast fyrir allan þennan flausturslega og einstrengingslega málatilbúnað, og vonandi kemur fljótlega hér ríkisstjórn, sem leiðréttir þetta óréttlæti (sérsköttun) og skaðlega inngrip í atvinnustarfsemi.
Svanur Guðmundsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf, ritar talsvert um sjávarútvegsmál, og ein greina hans birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2025 undir fyrirsögninni:
"Skattur eða sátt" ?
"Umræðan um sértæka skattlagningu á sjávarútveginn hefur harðnað að undanförnu. Forsætisráðherra hefur haldið því fram, að sjávarútvegurinn eigi ekki að skila arði til eiganda fyrirtækja í sjávarútvegi, heldur greiða sérstakan skatt til samfélagsins. Þessi nálgun virðist byggð á misskilningi á því, hvernig greininni er háttað. Arðgreiðslur eru tiltölulega hóflegar í sjávarútvegi, lægri en t.d. í orkugeiranum, og mestur hluti afkomunnar fer í nýfjárfestingar, tækni og þróun. Fjármunir eru ekki teknir út - þeir eru lagðir inn. M.ö.o.: sjávarútvegurinn greiðir þegar til samfélagsins með skattgreiðslum, með störfum og með verðmætasköpun. Að reyna að "taka til baka" verðmæti, sem enginn annar en fyrirtækin hafa skapað úr hráefnum hafsins - það þjónar hvorki réttlæti né hagsmunum landsins til lengri tíma."
Síðan þetta fár "verkjastjórnarinnar" gegn sjávarútveginum brast á, hefur verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja á markaði rýrnað um tugi milljarða ISK, e.t.v. 20 %. Markaðurinn hefur lagt mat á aðgerðir ríkisstjórnarinnar og metið þær til eignaupptöku starfseminnar. Hér er um að ræða þjófnað ríkisvaldsins um hábjartan dag á verðmætum, sem einkaframtakið hefur aflað án nokkurrar mælanlegrar aðkomu "auðlindarentu" í sjávarútvegi, sem lýðskrumarar staglast á án þess að vita, hvað þeir eru að fjalla um. Þessi "verkjastjórn" veit heldur ekkert hvað hún er að gera, því að hún heldur því fram, að skattahækkun hennar sé óskaðleg fyrir fyrirtækin. Það er hrein fásinna, eins og verðmætafall þeirra á markaði gefur glögglega til kynna. Ríkisstjórnin er landinu hættuleg, því að þar ráða óvitar ferðinni.
"Unbroken, með sölusamninga við Lidl, gæti orðið verðmætara fyrirtæki en öll hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki samanlagt - og sýnir, hvernig bætt virðisaukning, úrvinnsla og útflutningur á vöru fremur en hráefni getur skilað gríðarlegum verðmætum."
Ríkisstjórnin hefur engan skilning á mikilvægi fjárfestingargetu sjávarútvegsins fyrir vöxt hans, viðgang, samkeppnishæfni og nýsköpun. Á grundvelli ímyndaðrar auðlindarentu í sjávarútvegi (forsætisráðherra viðurkennir, að auðlindarenta sé "huglægt mat") geldir ríkisstjórnin útgerðarfélögin með ofurskattlagningu skattstofns, sem er líka ímyndaður, þ.e. kemur aldrei inn í félögin, því að um er að ræða vafasamt jaðarverð á bolfisktegundum, sem getur verið undir áhrifum erlendra (niðurgreiddra fiskverkenda), og norsks verðs, sem er fjarstæðukennt að miða við hér. Hér er um svo vafasama skattheimtu vinstri stjórnar K. Frost. að ræða, að telja má líklegt, að látið verði á réttmæti hennar reyna samkvæmt skattarétti.
Ríkisstjórnin og þingmenn héldu því fram, að þessi skattheimta muni engin áhrif hafa á fyrirtækin og heimabyggð þeirra, þ.e. að hegðun fyrirtækjanna muni ekkert breytast við þessa viðbótar skattheimtu, enda næmi skattheimtan lægri upphæð en auðlindarentunni næmi. Nú er komið í ljós, að verðmæti sjávarútvegsfyrirtækjanna á markaði hefur lækkað mikið, og mun það óhjákvæmilega breyta hegðun fyrirtækjanna. Lífeyrissjóðirnir hafa af þessum orsökum tapað háum fjárhæðum. Það veit enginn, hver þessi títt nefnda auðlindarenta er, enda er hún ómælanleg. Af þessum sökum hangir málstaður ríkisstjórnarinnar í þessu máli algerlega í lausu lofti.
"Í stað þess að ýta undir þessar sóknarleiðir [nýsköpun - innsk. BJo] virðist ríkisvaldið kjósa að rífast við landsbyggðina og sjávarútveginn um það, hver eigi arðinn. Í þessari nálgun gleymist, að það var ekki ríkið, sem skapaði verðmætin - heldur þau fyrirtæki, sem unnu hörðum höndum úr því hráefni, sem auðlindin veitir. Ef við viljum áfram vera leiðandi sjávarútvegsþjóð, þurfum við að byggja upp traust, samvinnu og sátt - ekki sundrungu og refsistefnu."
Ríkisvaldið er á kolrangri braut með því að leggja sjávarútveginn í einelti á fölskum forsendum og undir því yfirskini, að aðeins 4-5 fjölskyldum muni blæða. Hvers konar götustráks hugsunarháttur er það eiginlega, sem nú ræður ferðinni við stjórn landsins ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning