Ráðherrar seilast langt

Tveir Viðreisnarráðherrar hafa nú þjófstartað endurnýjuðu aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu - ESB.  Formaðurinn, Þorgerður Katrín, hefur skuldbundið landið til að fylgja utanríkisstefnu ESB,  og atvinnuvegaráðherrann H.K. Friðriksson hefur skuldbundið landið til að fylgja sjávarútvegsstefnu ESB.  Hvort tveggja eru skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar, sem þýðir fullveldisframsal. Svona gjörninga ráðherra þarf Alþingi að staðfesta, ef nokkurt "system á að vera í galskapet". 

Þann 29.07.2025 reit Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóða stjórnmálafræðingur, um málefnið í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

 "Felur í sér pólitíska skuldbindingu".

"Með samkomulagi um utanríkismál, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra [og varnarmálaráðherra - innsk. BJo] og formaður Viðreisnar undirritaði við Evrópusambandið 21. maí [2025], ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein, er Ísland, ásamt hinum 2 ríkjunum, pólitískt skuldbundið til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu sambandsins.  Þetta kemur fram í svari frá upplýsingaskrifstofu Evrópusambandsins við fyrirspurn, sem ég sendi henni nýverið.  

Fram kemur, að svarið hafi verið unnið í samráði við utanríkisráðuneyti Evrópusambandsins (European External Action Service), en Kaja Kallas, utanríkisráðherra sambandsins, undirritaði samkomulagið fyrir hönd þess.  Í samkomulaginu segir m.a.:

"Aðlögun að utanríkisstefnu ESB [...], aðlögun EFTA/EES-ríkjanna að ákvörðunum, yfirlýsingum og refsiaðgerðum ESB." 

Ljóst er, að annað í samkomulaginu tekur mið af því meginatriði.  T.d. samráð utanríkisþjónusta.  

Fyrirspurn mín var á þá leið, með hvaða hætti bæri að skilja áður nefndan texta úr samkomulaginu í framkvæmd.  Svarið var svo hljóðandi:

"Aðlögun felur í sér pólitíska skuldbindingu landanna 3, sem nefnd eru, Íslands, Liechtensteins og Noregs, til þess að fylgja og innleiða ákveðna þætti utanríkisstefnu Evrópusambandsins." 

Vísað er síðan til yfirlýsinga utanríkisráðherra sambandsins fyrir hönd þess í þeim efnum og ákvarðana leiðtogaráðs þess um refsiaðgerðir."

Hvað rekur utanríkisráðherra Íslands til að afsala ríkisstjórninni og Alþingi frelsi til að móta utanríkisstefnuna að eigin höfði.  Það er ekki víst, að hagsmunir Íslands og ESB muni alltaf fara saman, þótt þeir geri það í helztu utanríkismálum nú.  Í ljósi áhuga utanríkisráðherra á inngöngu Íslands í ESB verður að álykta, að hér sé um ótímabæra aðlögun til undirbúnings aðildar að ræða.  Þetta er óþolandi bráðræði.  Hafði Alþingi ályktað um þetta ? Það er lágmark í afsalsmálum fullveldis, þótt ekki sé um bindingu að þjóðarétti að ræða. 

"Komið hefur fram, að Þorgerður Katrín hafi ekki upplýst utanríkismálanefnd Alþingis um þetta meginatriði samkomulagsins.  Hvorki fyrir né eftir undirritun þess.  Enn fremur var hvergi minnzt á það í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um undirritunina.  Feluleikurinn vegna málsins hefur ekki leynt sér.  Hins vegar breytir auðvitað engu, hvað Þorgerður segir í þessum efnum, þegar fyrir liggur, að það er ekki í samræmi við það, sem hún hefur beinlínis skrifað undir."

Pukrið og óhreinskilnin í þessum ESB-tengdu málum er Akkilesarhæll ríkisstjórnarinnar.  Vandræðagangurinn stafar líklega af því, að á Alþingi er ekki meirihluti fyrir ESB-aðild.  Hætt er við, að spurningin, sem lögð verður fyrir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu um, hvort greiða eigi leiðina inn í ESB í viðræðum við ESB, verði í skötulíki.  Fram þarf að koma, að Alþingi hafi ályktað um vilja sinn til að breyta stjórnarskrá, svo að heimila megi fullveldisafsalið, sem aðild útheimtir.  Atkvæðagreiðslan kann annars að verða marklaus og verða dæmd ógild. Ákafi ríkisstjórnarinnar við að koma Íslandi inn í ESB stendur á pólitískum og lagalegum brauðfótum, og hún mun ekki ríða feitum hesti frá þessari viðureign og fráleitt fá umboð til framhaldslífs á næsta kjörtímabili. 

"Hins vegar hefur ekki verið numið staðar við utanríkismálin.  Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og þingmaður Viðreisnar, hefur þannig t.d. kynnt til sögunnar samkomulag við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál, sem kveður á um aðlögun að stefnu sambandsins t.a.m. varðandi veiðar úr deilistofnum.  Þannig er þar kveðið á um samræmingu á afstöðu Íslands og Evrópusambandsins fyrir fundi strandríkja og innan svæðisbundinna fiskveiðistofnana."

Hingað til hefur yfirleitt ekki ríkt einhugur á milli ESB og Íslands um veiðar úr deilistofnum.  Þess vegna verður ekki betur séð en hér sé verið að hefta Ísland við að gæta hagsmuna sinna, t.d. að ákvarða veiðar úr makrílstofninum innan lögsögunna einhliða, ef ekki vill betur. Hér virðist Friðriksson setja haus sinn inn í gin úlfsins og vona síðan hið bezta.  Er ekki fráleitt af íslenzkum ráðherra að setja hagsmuni Íslands í uppnám með þessum hætti ?  Allt virðist þetta gert sem þáttur í aðlögunarferli að aðild Íslands að ESB.  Þetta er algert bráðræði.  Landsmenn hafa ekki enn greitt atkvæði um, hvort þeir vilji hefja þetta aðlögunarferli að nýju. 

"Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að umsóknarferli að Evrópusambandinu gengur öðru fremur út á aðlögun að regluverki og stefnum sambandsins líkt og lesa má víða um í gögnum þess.  Framganga stjórnvalda með ráðherra Viðreisnar í fararbroddi verður fyrir vikið ekki skilin með öðrum hætti en sem undirbúningur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  M.ö.o. getur einkum Viðreisn ljóslega ekki setið á sér áður en þjóðaratkvæðið fari fram."

Að þessu hugðarefni sínu starfar ríkisstjórnin umboðslaus, því að um Evrópusambandið var lítið sem ekkert rætt í kosningabaráttunni síðustu til Alþingis, og K. Frost. gaf í skyn, að ríkisstjórn undir hennar forystu héldi ekki í þessa vegferð á kjörtímabilinu, sem nú stendur yfir. Af þessum sökum er full ástæða fyrir stjórnarandstöðuna að draga fram "Stóru-Bertu" þegar nú í haust og herja með fullum þunga á þessa lánlitlu ríkisstjórn, sem svo rækilega hefur gefið höggstað á sér.    


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband