Fjandskapur við atvinnulífið

Fjandskapur við atvinnurekstur hefur ætíð legið þeim stjórnmálamönnum nærri, sem aðhyllast forræðishyggju hins opinbera, enda er hámark forræðishyggjunnar ríkisrekstur atvinnulífsins.  Á Íslandi sjáum við ýmsar birtingarmyndir þessarar afdönkuðu hugmyndafræði.  Á viðsjártímum í efnahagsmálum heimsins, þegar forðast ber af innlendum stjórnvöldum að íþyngja atvinnurekstri í erlendri samkeppni, er ríkisstjórn Íslands á þeim buxunum að hækka opinber gjöld svo stórlega á sjávarútveginn, að hann neyðist til að draga saman seglin og þar með að draga úr nýsköpun, "grænum" lausnum og samfélagsþátttöku.  Aðgerðin er forkastanleg, því að hún mun draga úr verðmætasköpun og hagvexti í landinu. 

Á ferðageiranum dynja skyndihækkanir, t.d. á farþegaskip, sem draga úr aðsókn.  Meira mun vera í pípunum.

Þann 2. júlí 2025 birtist Innherjagrein í ViðskiptaMogganum, þar sem geðsveiflur innviðaráðherra, tengdar fiskeldinu, gefa til kynna undarlega afstöðu lögfræðingsins til valdmarka ráðherra:

"Ummæli innviðaráðherra, Eyjólfs Ármannssonar, í kjölfar ákvörðunar Arctic Fish um að flytja fóðurstöð sína frá Þingeyri til Ísafjarðar, hafa vakið athygli.  Ráðherrann gagnrýnir fyrirtækið harðlega fyrir skort á samfélagslegri ábyrgð.  Samhliða því hefur hann gefið í skyn, að rekstrarskilyrði fyrirtækisins kunni að verða endurskoðuð, enda muni hann beita sér fyrir því að snúa þessari ákvörðun við. 

Þessi orð ráðherrans eru ekki einungis til marks um óánægju með einstaka ákvörðun fyrirtækisins, heldur má skilja þau sem óbeina hótun.  Ráðherrann gefur í skyn, að fyrirtæki, sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, þurfi að lúta boðvaldi og þóknun stjórnmálamanna.  Slíkt setur hættulegt fordæmi og skapar óvissu í atvinnulífinu." 

Fyrirtæki í landinu verða að búa við atvinnufrelsi til að gera þær ráðstafanir, sem forysta þeirra telur henta þeim bezt.  Þannig verða hagsmunir hluthafa, launþega og samfélagsins í heild bezt tryggðir, því að verðmætasköpun er hámörkuð.  Nú búum við hins vegar við ríkisstjórn, sem þekkir ekki sinn vitjunartíma, en er illa haldin af gömlum grillum, sem hana fýsir að hrinda í framkvæmd, þótt erfitt sé að sjá, að hún hafi verið kosin til þess. 

Þarna endurlífgar Eyjólfur Ármannsson t.d. gamlan draug, sem tröllreið húsum á Íslandi fyrir mörgum árum með hrikalegum afleiðingum. Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíku afturhvarfi til fortíðar.  Framferði ráðherrans stríðir sennilega gegn EES-samninginum, sem gerir ekki ráð fyrir slíkum valdboðum ríkisins í garð sjálfstæðra fyrirtækja í samkeppnisrekstri.  Úr því mætti fá skorið með því að færa málið fyrir ESA.  Segja má, að ráðherrann sé utan gátta í nútímanum, en þetta á sennilega að vera lýðskrumsgjörningur hjá honum. Væri ekki ráð, að hann héldi sig við verkefni ráðuneytis síns og hugsaði meira um að hlúa að atvinnulífinu í stað þess að rífa það niður ?

"Það skapar ekki störf, styrkir ekki byggðir og eflir ekki samfélagið að beita fyrirtæki þrýstingi eða gefa í skyn, að rekstrarskilyrði þeirra ráðist af því, hvort ákvarðanir þeirra falla í kramið hjá ráðherrum landsins.  Slíkt viðhorf dregur úr fjárfestingu og býr til óvissu, sem skaðar ekki aðeins einstök fyrirtæki, heldur samfélagið í heild." 

Þessi ríkisstjórn fordæðanna er uppvakningur grillupúka, sem veikir undirstöður íslenzks atvinnulífs og vinnur að því, að stórríki Evrópu nái til Íslands.  Allt þetta vinnur gegn hagsmunum landsmanna í bráð og lengd.  Það eru engin viti borin rök færð fyrir þessari stefnumörkun.  Hér er villuljósum beint að landsmönnum.  Heilbrigð skynsemi segir mönnum, að öflugt atvinnulíf efli hag almennings meira en veikt atvinnulíf og að fullvalda heimastjórn við Lækjartorg og Austurvöll sé líklegri til að efla hag almennings en framkvæmdstjórn og leiðtogaráð í höfuðstöðvum ESB (Berlaymont), þar sem taka þarf tillit til margra ólíkra sjónarmiða og hagsmuna.   

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband