17.8.2025 | 16:40
Loftslagsútgjöld og ávinningur
Fyrirferð loftslagsmála á þessum áratugi í umræðunni hefur minnkað m.v. við síðasta áratug. Fyrir því eru ýmsar ástæður, en ein er sú, að búið er að hrópa úlfur, úlfur allt of oft án tilefnis og önnur sú, að æ fleiri gera sér grein fyrir, að kostnaðurinn við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er ekki í neinu samræmi við ávinninginn. Þetta hefur Björn Lomborg, forseti Kaupmannahafnar hugveitunnar, gestafræðimaður við Hoover-stofnun Stanford háskóla í Kaliforníu og höfundur bókarinnar Best Things First, sýnt fram á.
Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 20. janúar 2025 undir fyrirsögninni:
"Það sem loftslagsútgjöld kosta heiminn".
Hún hófst þannig:
"Um allan heim eru fjármál hins opinbera nálægt hættuæastandi. Vöxtur á hvern einstakling heldur áfram að lækka, á meðan kostnaður eykst vegna ellilífeyris, menntunar, heilsugæzlu og varnarmála. Þessi brýnu forgangsatriði gætu auðveldlega krafizt 3-6 % til viðbótar af landsframleiðslu. Samt kalla grænir aðgerðasinnar hávært eftir því, að stjórnvöld eyði allt að 25 % af landsframleiðslu okkar í að kæfa vöxt í nafni loftslagsbreytinga.
Ef dómsdagur vegna loftslagsbreytinga væri yfirvofandi, væri sú stefna ekki svo vitlaus. Sannleikurinn er þó ekki eins dramatískur. Nýlega hafa verið birtar 2 stórar vísindalegar áætlanir um heildarkostnað við loftslagsbreytingar á heimsvísu. Þetta eru ekki einstakar rannsóknir, sem geta verið mismunandi (þar sem dýrustu rannsóknirnar fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum). Þess í stað eru þær meta-rannsóknir, byggðar á öllum tiltækum ritrýndum rannsóknum. Önnur rannsóknin [skýrslan-innsk.BJo] er rituð af einum þeirra loftslagshagfræðinga, sem mest er vitnað í, Richard Tol; hin er eftir eina loftslagshagfræðinginn, sem hefur hlotið Nóbelsverðlaunin, William Nordhaus.
Rannsóknirnar benda til þess, að 3°C hitahækkun í lok aldarinnar - sem er dálítið svartsýnisleg spá m.v. núverandi þróun - muni [hafa í för með sér] alþjóðlegan kostnað, sem jafngildir 1,9 %-3,1 % af vergri heimsframleiðslu. Til að setja þetta í samhengi áætla SÞ, að í lok aldarinnar verði meðalmaðurinn 350 % ríkari en hann eða hún er í dag. Vegna loftslagsbreytinga verður það eins og að vera aðeins 335 % - 340 % ríkari en í dag."
M.ö.o. mun jarðarbúa muna sáralítið efnalega um heildarafleiðingar hitastigshækkunar á jörðunni á þessari öld, þótt tjón og ávinningur dreifist ójafnt á landsvæði jarðar. Þá er eftir að taka tillit til mótvægisaðgerða, sem áreiðanlega munu eiga sér stað og draga úr tjóninu. Loftslagspostular minnast ekki á þetta, heldur boða í raun dómsdag yfir mannkyni vegna núverandi hitastigsstiguls. Þeir boða, að kasta skuli perlu fyrir svín; fara í gríðarlega umfangsmiklar og kostnaðarsamar aðgerðir með látum. Hæst ber þar orkuskiptin, þótt í raun vanti enn þá "réttu" tæknina til að taka við af jarðefnaeldsneyti. Orkuskipti eru sjálfsögð, en tæknin þarf að vera fyrir hendi.
"Raunverulegur kostnaður við óhagkvæma loftslagsstefnu er, að hún dregur auðlindir og athygli frá öðrum forgangsatriðum. Evrópa býður upp á ömurlega lexíu. Fyrir 25 árum lýsti Evrópusambandið því yfir, að með stórfelldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun um allt hagkerfið myndi það verða "samkeppnishæfasta og öflugasta þekkingarhagkerfi í heimi". Það mistókst algjörlega: útgjöld til nýsköpunar jukust varla, og ESB er nú langt á eftir Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og jafnvel Kína.
Þess í stað skipti ESB um áherzlur og knúið af loftslagsþráhyggju valdi það "sjálfbært" hagkerfi fram yfir traust hagkerfi. Ákvörðun ESB um að auka markmið sín um að draga úr losun árið 2030 var hrein dyggðaflöggun. Líklegt er, að kostnaðurinn fari yfir nokkrar trilljónir evra, en samt sem áður mun allt átakið aðeins lækka hitastigið í lok aldarinnar um 0,004°C."
Þetta dæmi kastar ljósi á það, hvers vegna það er óskynsamlegt af Íslendingum að ganga þessu ríkjasambandi á hönd. Dagleg stjórnun þar er á höndum embættismannabákns, sem mótar og semur reglugerðafargan, sem tekur ekki alltaf mið af heilbrigðri skynsemi, heldur setur "dyggðaflöggun" framar í forgangsröðina, þótt hún dragi úr velmegun borgaranna og samkeppnishæfni fyrirtækjanna. Þessi 25 ára yfirlýsing ESB, sem Lomborg nefnir, minnir á yfirlýsingu aðalritara sovézka kommúnistaflokksins, Nikita Krútsjoff, á sínum tíma um, að Sovétríkin mundu grafa Bandaríkin og átti þá við, að kommúnistarnir færu fram úr kapítalistunum á öllum sviðum innan tiltölulega skamms tíma.
Lenín talaði á sínum tíma um "gagnleg fífl" - "useful idiots". Efir Alaska-fund Trumps og Pútíns 15. ágúst 2025 hvarflar að manni, að þannig líti rússneskir ráðamenn á núverandi forseta Bandaríkjanna. Framvindan þar var með ólíkindum, og Evrópuleiðtogarnir á nálum. Hins vegar getum við litið okkur nær í nútímanum. Málflutningur aðildarsinna að ESB hérlendis um, að Íslendingar einir mundu sitja að veiðum innan efnahagslögsögu Íslands vegna veiðireynslunnar fær ekki staðizt. Fiskveiðistjórnun innan lögsögu ESB er óskilyrt á höndum framkvæmdastjórnar ESB. Vegna mikils þrýstings um að komast inn í efnahagslögsögu Íslands frá ríkjum á borð við Spán mun verða brýnt fyrir framkvæmdastjórn og leiðtogaráð að semja nýja reglu um aðgang ríkja að efnahagslögsögu ESB. Fiskveiðilögsagan er lífakkeri Íslendinga og ræður hún afkomu landsmanna. Það má því heita fíflagangur að ætla inn í ESB án nokkurrar niðurnjörvaðrar sérreglu fyrir Ísland í þessum efnum. Slík sérregla yrði sennilega ekki samþykkt af leiðtogaráðinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning