16.9.2025 | 15:01
Ofstæki í garð tiltekins atvinnurekstrar
Nýlega gætti móðursýkislegra viðbragða veiðiréttarhafa í laxveiðiám á Vesturlandi og Norð-Vesturlandi vegna fiska þar, sem ekki þóttu náttúrulegir fyrir viðkomandi á. Var rekið upp skaðræðisöskur, að íslenzku laxastofnarnir væru í bráðri hættu frá eldislaxi, en um reyndist að mestu vera að ræða rússneskan hnúðlax, sem ekki blandast íslenzku stofnunum. Norskir kafarar voru fengnir í árnar, og höfðu þeir upp á eldislöxum, sem námu innan við 1 % af stofnum ánna, en til að hætta á varanlegri erfðablöndun geti stafað af eldislöxum í ám, þarf fjöldi þeirra varanlega að nema yfir 4 % af stofnstærð viðkomandi ár. Hér var því stormur í vatnsglasi.
Þann 4. desember 2024 birtist í ViðskiptaMogganum viðtal við Róbert Róbertsson, fjármálastjóra laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, undir fyrirsögninni:
"Séríslenzku skattarnir dragbítur á greinina".
Um neikvæða umfjöllun um atvinnugreinina hafði hann þetta að segja:
"Umræðan gegn greininni hefur verið anzi óvægin og oft og tíðum einkennzt af fullyrðingum, sem eiga ekki við rök að styðjast. Eins og gefur að skilja þarf oft að leiðrétta rangfærslur, þar sem þekking á laxeldi er ekki mikil. Þekkingarskortur á einhverju gerir það að verkum, að auðvelt er að setja út á og fullyrða eitthvað, sem fólk veit ekki um. T.d., að þetta mengi firðina; það er einfaldlega ekki satt; við gerum mælingar á botni sjávar og greinum ástand fyrir, á meðan og eftir hverja eldislotu."
Þarna er farið mjúkum höndum um fólk, sem tjáir sig með tilþrifamiklum geðhrifum um sjókvíaeldi á laxi við Ísland. Hæst nær móðursýkin við slysasleppingar eða fundna afbrigðilega fiska í ánum. Það er látið í veðri vaka, að allur frjór eldisfiskur í ánum ógni genamengi og erfðum íslenzkra laxastofna. Svo virðist sem talsmennirnir trúi þessu sjálfir, þótt firra sé. Eldisfiskur þarf að vera árum saman yfir 4 % af stofni í á til að hætta sé á varanlegri erfðablöndun.
"Róbert Róbertsson, fjármálastjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur, segir, að fyrirtækið stefni að því að ná kostnaðarhlutfalli sambærilegu því, sem gerist bezt hjá keppinautum. Stór mínus, sem íslenzk fyrirtæki glíma við, ólíkt flestum öðrum þjóðum, eru ýmsir aukaskattar á greinina.
"Það að greiða mun hærri skatta á lax en aðrar þjóðir og aðrar vörur seldar frá landinu, er einkennileg stefna yfirvalda. Það, að við séum að greiða hærri skatta en önnur fyrirtæki á Íslandi og okkar keppinautar á markaði, er einkennilegt, virkar ekki hvetjandi og skaðar samkeppnisstöðu okkar", segir Róbert.
"Laxeldi á Íslandi hefur ekki fengið neina styrki eða meðgjöf í uppbyggingu. Þvert á móti hafa verið lögð há leyfisgjöld og framleiðslugjöld, og allir vilja sinn bita. Við erum að mæta á markað með okkar vöru í samkeppni við aðila, sem hafa engin gjöld og mun minni flutningskostnað og styttri afhendingartíma", segir Róbert."
Af þessari frásögn að dæma hafa íslenzir stjórnmálamenn farið offari í skattheimtu á atvinnugrein, sem er í uppbyggingarfasa. Afleiðingin af því er einfaldlega, að vöxturinn verður hægari en ella, tækniþróunin og jafnvel öryggiseftirlit lakara en efni standa til og lánsfjármagn dýrara, af því að áhugi fjárfesta minnkar. Ríkisstjórnin, sem stöðugt er með hagvöxt og verðmætasköpun á vörunum, ætti að sníða skavankana af þessari skattheimtu og draga þá dám af öðrum löndum Evrópu, þar sem fyrirtækin eru nær markaðnum. Þetta mun núverandi ríkisstjórn þó örugglega ekki gera, því að hún skilur ekki, hver beztu ráðin eru til að efla hagvöxt og verðmætasköpun. Hún lætur sitja við orðin tóm og nær engum árangri. Það eru slæmar fréttir fyrir hag landsmanna.
"Í dag greiðir Kaldsvík yfir 4 % af tekjum félagsins í beina skatta, þ.e. án tillits til, hvort félagið er að fjárfesta eða skila hagnaði.
Róbert segir, að réttast væri að gefa greininni tíma til að byggja upp starfsemina, fjárfesta í búnaði og tækjum, og þá með tímanum muni félagið greiða skatta, eins og önnur arðbær fyrirtæki."
Þessi skattheimta nær engri átt. Kaldsvík greiðir 4 % af tekjum til hins opinbera, þótt tap sé á fyrirtækinu. Þetta er ekki leiðin til að hlúa að atvinnulífi, svo að það megi dafna og standa undir einhverjum hæstu launum í OECD. Ísland er háskattaland, sem samkvæmt Laffler-lögmálinu þýðir, að lækkun skattheimtu mun auka tekjur allra, einnig hins opinbera.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning