Skrattinn úr sauðarleggnum frá Brüssel

Það hefur töluvert verið rætt og ritað um Evrópusambandið (ESB) hérlendis, frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum.  Það stafar aðallega af áhuga ríkisstjórnarinnar á, að ESB taki við Íslandi sem fullgildu aðildarlandi.  Það stafar líka af fáránlegu tollastríði Bandaríkjastjórnar og stríðinu i Úkraínu og áhuga Úkraínumanna á aðild að ESB.  Hann stafar af áhuga þeirra á að tengja hagkerfi sitt vestrænum mörkuðum og þörf þeirra fyrir fjárfestingar og stuðningskerfi ESB við uppbyggingu landsins eftir stríð.  Ísland er nú þegar ágætlega tengt vestrænum hagkerfum og þarf ekki á uppbyggingarfé að halda.  Öryggismál og landvarnir koma einnig við sögu í minna mæli.

Fyrir Íslendinga er hér um gamalt mál á nýjum belgjum að ræða.  Ekki verður séð, að neinar nýjar ástæður hafi komið til skjalanna fyrir landsmenn til að íhuga af alvöru að kasta fyrir róða sjálfstæði lansins og fela Evrópusambandu (ESB) að fara með stjórnarmálefni landins.  Það horfir að vísu mun ófriðvænlegar í Evrópu 2025 en 2009, en fyrir Íslendinga mundi aðild að ESB engu breyta um öryggistengd málefni.  NATO er að vísu á hverfanda hveli, og efasemda er tekið að gæta um, að Bandaríkjamenn muni í raun standa við samstöðugrein varnarbandalagsins, 5. greinina.  Mikillar einangrunarhyggju gætir nú í Bandaríkjunum, eins og fáránleg tollastefna þeirra ber vott um, og húsbóndinn í Hvíta húsinu hefur tekið afstöðu með heimsvaldasinnanum í Kreml, þótt hann sveiflist eins og vindhani.  Ef Evrópuríkin í NATO geta ekki komið Íslendingum til hjálpar í neyð, þá geta ESB-ríkin það ekki heldur. 

Þann 21. nóvember 2024 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Baldur Guðlaugsson, lögfræðing, sem varpaði ljósi á nokkrar tölulegar staðreyndir vegna samanburðar á ESB og Íslandi. Greinin nefndist:

"Bannað að blekkja".

"Ekki verður betur séð en talsmönnum Viðreisnar hafi nú tekizt að toppa seinheppni íraska ráðherrans (upplýsinga- og áróðursmálaráðherra Saddams Hússeins í Íraksstríðinu).  Aðeins tveimur mánuðum eftir, að birt er ítarleg skýrsla um samkeppnishæfni Evrópu, þar sem höfundurinn, Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, forsætisráðherra Ítalíu og þekktur Evrópusambandssinni, gefur Evrópusambandinu falleinkunn og segir Evrópu vera að dragast hröðum skrefum aftur úr bæði Bandaríkjunum og Kína, hvað varðar samkeppnishæfni, hagvöxt og framleiðni, lýsir Viðreisn því yfir, að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði af flokksins hálfu ófrávikjanlegt skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku. Íraski ráðherrann hafði það sér þó til málsbóta í sjónvarpsútsendingunni frægu, að hann sá ekki það, sem var að gerast fyrir aftan hann. Í tilviki Viðreisnar er engu slíku til að dreifa.  Hin nýútkomna skýrsla Marios Draghis er opinbert plagg, sem fengið hefur mikla umfjöllun.  Hún bætist við áður fyrirliggjandi upplýsingar um efnahagsástandið í aðildarríkjum Evrópusambandsins.  Samt draga stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu stöðugt upp þá mynd, að grasið sé grænna þar á bænum en hér á landi, væntanlega í þeirri von, að áherzlan á aðildarviðræður skili atkvæðum í komandi kosningum."  

Það hefur aldrei verið réttmætara en nú að líkja inngöngu í ESB við að ganga inn í brennandi hús. Þar er allt á tjá og tundri. Fjöldi nefnda hefur verið skipaður til að vinna úr skýrslu Draghis.  Ekkert bendir til, að ráðizt verði að rótum vandans.  Burðarríki í bandalaginu, Frakkland, stendur fjárhagslega höllum fæti, skuldsett eins og skrattinn skömmunum, og gæti þurft að leita á náðir AGS.  Ísland á ekkert erindi inn í þennan klúbb, sem nú þarf að einbeita sér að harðvítugum átökum við Rússland og loka tekjuleiðum þessa útþensluríkis. Mest hefur Úkraínumönnum sjálfum reyndar orðið ágengt í þeim efnum með því að sprengja olíuvinnslustöðvar og eldsneytisgeymslur.  Er nú svo komið, að Kremlverjar ætla að flytja inn benzín til að draga úr sárasta skortinum.  Er þá stutt eftir hjá þessu olíuríki. 

"Fyrir fáeinum árum kom út hér á landi barnabók, sem bar heitið "Bannað að ljúga".  Greinarhöfundur ætlar forystumönnum Viðreisnar og öðrum Evrópusambandssinnum ekki þá dul, að þeir segi vísvitandi ósatt um meint ágæti Evrópusambandsaðildar.  Þeir mættu þó leggja meiri áherzlu á vinnuregluna bannað að blekkja."

Það er orðið ljóst, að áróðurinn núna fyrir aðild Íslands að ESB eru umbúðir án innihalds. Með svo lélegt erindi geta Þorgerður & Co. ekki riðið feitum hesti frá viðureigninni, sem framundan er á þessu kjörtímabili.   

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband