8.12.2007 | 16:02
Í vikulokin
Ferskir vindar léku um hinn gamalgróna laugardagsþátt "Gufunnar", Í vikulokin, í morgun, undir stjórn Hallgríms Thorsteinssonar. Nýtt stef kvað við í raun og að formi og efnistökum, og var það tímabært.
Fjallað var m.a. um skipan raforkumála í landinu. Kom fram, að í iðnaðarráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps til laga um nýskipan orkumála. Mun þar eiga að taka mið af stefnumörkun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, um skýra aðgreiningu fyrirtækja í orkugeiranum eftir hlutverki. Markmið ESB með uppstokkun fyrirtækja á þessu sviði er markaðsvæðing og að brjóta einokun stórfyrirtækja á bak aftur með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Þetta er komið mislangt á veg í aðildarlöndunum, en mjakast áleiðis. Virkjanafyrirtækin eiga í þessu kerfi að keppa um hylli viðskiptavina, og þau eiga að standa jafnt að vígi um flutning á orku um stofnkerfið til viðskiptavina sinna.
Undirstaða þessarar hugmyndafræði er samkeppni um viðskiptavinina. Gefur þá auga leið, að virkjanafyrirtækin geta ekki lengur verið að meirihluta í opinberri eigu. Ríki og sveitarfélög verða að selja einkaaðilum meirihlutaeign sína í þessum fyrirtækjum til að jafnræðis verði gætt. Að sjálfsögðu þarf þá nýtingarréttur að orkulindiunum að fylgja. Að öðrum kosti yrði eins komið fyrir virkjun og togara án veiðiheimildar. Ekki verður farið neitt með þessa auðlind, og umgengni einkafyrirtækja um eignir sínar er almennt ekki lakari en opinberra fyrirtækja. Aðalatriðið í þessu sambandi er að varðveita fullveldisrétt Alþingis til lagasetningar um auðlindirnar og að framselja hann ekki til yfirþjóðlegs valds.
Þá ætti með einkavæðingu að vera tryggt, að samningar á milli virkjunarfyrirtækja og t.d. stórnotenda verði einvörðungu á viðskiptalegum grunni, en nokkuð hefur borið á svigurmælum í garð stjórnmálamanna um annað. Undir slíkt verður ekki tekið hér, enda mala allar virkjanir landsins eigendum sínum gull. Er það m.a. vegna tengingar orkuverðs við afurðaverð stóriðjunnar, málmverðið, sem er hátt og mun haldast hátt m.a. vegna orkuskorts í heiminum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.