15.12.2007 | 16:02
Auðlindarentan
Ný skattheimta undir nafninu auðlindagjald er reist á misskilningi og vilja til að finna nýjan skattstofn. Þessi misskilningur heitir auðlindarenta og er skilgreind sem samkeppniforskot, sem fyrirtæki njóti vegna nýtingar auðlinda. Auðlindagjaldið hefur verið lagt á íslenzka sjávarútveginn þrátt fyrir það, að hann eigi í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra landa. Íslenzkum sjávarútvegi er þannig refsað fyrir að standa á eigin fótum og geta keppt við niðurgreiddar vörur erlendis.
Ef auðlindagjaldið er lagt á íslenzkan sjávarútveg til að jafna samkeppnistöðu annarra innlendra atvinnugreina við hann, má benda á, að leitun er að jafnáhættusamri atvinnugrein og sjávarútveginum. Hann á allt sitt undir lífríki sjávar, og þróun þess er miklum sveiflum undirorpin. Þá er sjávarútvegur stundaður við erfiðar aðstæður, sem útheimtir mikið viðhald búnaðar og tiltölulega háan orkukostnað og launakostnað.
Sem dæmi um fáránleika auðlindagjalds á sjávarútveginn má nefna, að ætla má, að svo nefnt veiðigjald hefði numið 37 % af hagnaði útgerðarinnar eftir skatt árið 2004, hefði það þá verið að fullu komið til framkvæmda. Þetta leggst að sjálfsögðu ofan á venjulegan 18 % tekjuskatt fyrirtækja. Ef dregið er dám af fyrri lækkunum tekjuskatts, má ætla, að tekjuskattslækkun mundi auka tekjur hins opinbera, m.a. vegna hagvaxtarins, sem skattheimtulækkun framkallar. Þess vegna er ljóst, að auðlindagjald, sem er ekkert annað en viðbótar skattheimta, er mjög óhagkvæmt fyrir efnahagskerfið. Skynsamlegast væri, að öllu þessu virtu, að Alþingi afnæmi auðlindagjald með öllu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.