Umhverfisvernd í öngstræti

Heimsbyggðin varð nú í desember vitni að því, að 13. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lá við upplausn, en var á síðustu stundu bjargað fyrir horn.  Viðfangsefnið er risavaxið og spyrja má, hvort þátttakendur, fulltrúar 190 ríkisstjórna, ráði við verkefnið ?  Á Íslandi virðist umhverfisráðherra vera á óheillavænlegri braut í þessum efnum.  Umhverfisráðuneytið hefur t.d. sniðið íslenzka áliðnaðinum mjög þröngan stakk, þrátt fyrir að álframleiðsla á Íslandi hafi langminnsta losun gróðurhúsalofttegunda í för með sér á hvert framleitt tonn.  Þetta er bæði vegna þróaðrar framleiðslutækni og hreinnar orkuvinnslu.  Aðferðafræði íslenzka umhverfisráðherrans getur ekki leitt til neins annars en aukinnar mengunar, því að aukinni álþörf heimsins verður fullnægt með framleiðslu, þar sem hún er hagkvæmust. 

Þetta er kjarni málsins.  Stjórnvöld víða um heim eru í öngstræti með aðferðafræði sína í umhverfisverndarmálum.  Lausnin er fólgin í virkjun markaðsaflanna.  Ákvarðanir stjórnvalda þurfa að fela í sér hvata fyrir atvinnulífið og fyrir neytendur til að nota beztu framleiðsluaðferðir og búnað til að lágmarka mengun af starfseminni.  Þeir, sem eftirbátar eru, þurfi annaðhvort að kaupa sér koltvíildiskvóta á frjálsum markaði eða að greiða gjald fyrir losun, sem er umfram það, sem bezt gerist.  Þetta gjald verði lagt í sjóð, t.d. undir stjórn Alþjóðabankans, sem veiti fyrirtækjum hagstæð lán til fjárfestinga, er miði að því að draga úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum. 

Skógar-og landeyðing er talin vera valdur að um 20 % af árlegri aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.  Skógarbændum og Landgræðslunni á Íslandi þarf að gera kleift að selja koltvíildiskvóta og fjármagna þannig uppgræðsluna.  Fyrir þessu er fjárhagslegur grundvöllur, ef verð kvótans er yfir 1000 kr/t CO2. 

Mesta losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu á sér stað við rafmagnsvinnsluna.  Verst eru kolakyntu orkuverin, þá þau olíukyntu og skárst eru gaskyntu orkuverin.  Aðferðafræðin, sem hér er lýst, fæli í sér stigvaxandi kröfur til orkuframleiðenda, t.d. að miða fyrst við beztu kolakyntu verin og stöðugt að auka kröfurnar þar til lágmarkslosun yrði náð, sem næmi beztu mögulegu hreinsun á kolefni úr reyknum.  Þetta mun auðvitað leiða til orkuverðshækkunar á heimsvísu.  Ef þetta á ekki að gilda um heim allan, verður erfitt að fá athafnalífið með.  Þá er alveg ljóst, að þessi þróun mun ýta mjög undir virkjanir fallvatna, jarðhita, kjarnorku og annarra kolefnissnauðra orkulinda.  Hér eru gullin viðskiptatækifæri fyrir Íslendinga á næstu árum og áratugum á meðan verið er þróa nýja gerð orkuvera.  Síðan mun orkuverð líklega fara lækkandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband