17.2.2008 | 21:40
Íslendingar umhverfisvænstir
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að íslenzkur orkuiðnaður er sá umhverfisvænsti í heimi, enda lætur nærri, að 100 % raforku og húshitunarorku sé úr endurnýjanlegum orkulindum.
Það er ekki jafnvel þekkt, að íslenzk álver geta státað af minnstu losun gróðurhúsalofttegunda innan áliðnaðarins alls.
Bráðlega kemur að því, að Íslendingar geti eignast bílaflota, sem mengar minnst á hvert farartæki. Í Bandaríkjunum er verið að þróa svo nefnda ofurþétta, sem geta knúið rafhreyfla í bílum, þegar þeir afhlaðast og nýtt hemlunarorku til endurhleðslu. Þegar ofurþéttar eru orðnir hleðsluvana, má endurhlaða þá á fáeinum mínútum með því að stinga kló í venjulegan tengil. Tilraunabílar eru auk þéttanna ýmist búnir bensínvél eða lithíum-jóna rafgeymum, sem þá knýja sömu rafhreyflana og ofurþéttarnir og veita bílunum allt að 60 km drægni á einni hleðslu. Þéttarnir veita snerpu, og hámarkshraðinn er 130 km/klst. Kostnaðaraukinn miðað við bensínvél er um þessar mundir 8700 USD/bíl eða um kkr 600.
Með því að beita svo nefndri nanotækni eða örtækni við þéttaframleiðsluna er talið, að ofurþéttarnir geti skákað rafgeymunum út af þessum markaði. Ef vel tekst til, er hér komin lausn fyrir þjóðir eins og Íslendinga með mikla umhverfisvæna virkjunarmöguleika. Þá þarf ekki að sóa orku við vinnslu vetnis eða metanóls.
Árið 2007 notuðu Íslendingar um 170 kt af bensíni. Ef gert er ráð fyrir, að í stað 80 % bensínbílaflotans komi rafbílar knúnir ofurþéttum, sparast innflutningur á meira en 135 kt af bensíni, og við það mun draga úr koltvíildislosun Íslendinga um yfir 420 kt/a, sem er svipað og myndast við framleiðslu á 250 kt af áli. Gjaldeyrissparnaður við þetta yrði a.m.k. 6,3 mia.kr og sparnaður bíleigenda yrði a.m.k. 18 mia.kr á ári. Slíkur bíll mætti kosta allt að 1,2 milljón kr meir en bensínbíll án þess að verða í heild dýrari en bensínbíll að rekstri meðtöldum, og þess vegna virðist nú þegar vera augljós arðsemi fólgin í kaupum á slíkum rafmagnsbíl fyrir Íslendinga, þegar tækni ofurþéttanna leyfir.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.